Mínus

Synir mínir virðast álíta að ef ég fer frá heimilinu í miðri tiltekt, þá feli það í sér dulin skilaboð um að það sé alger óþarfi að ganga frá nokkrum hlut eftir sig. Þeir ganga þokkalega um (þ.e.a.s. stofuna og eldhúsið, ekki herbergin sín) ef ég fer frá öllu gjörsamlega tip top en tveir óhreinir bollar í vaskinum og dagblað á stofuborðinu er nóg til þess að virkja sóðagenið. Það sem hefði tekið mig hálftíma á klára á laugardaginn, ef ég hefði ekki látið ástsýkina draga mig til Hafnarfjarðar, er orðið að klukkutíma vinnu núna. Engu líkara en að hér sé að verki undarlegt lögmál; það sem ekki er fullkomið getur eingöngu versnað.

Þetta sama lögmál virðist gilda um bílinn. Hann hefur ekki verið þrifinn í háa herrans tið og þar með finnst mínu fólki ekkert liggja á því að rífa fram ryksugu þótt einhver missi kartöfluflögupoka niður í hann.

Svo er ég svosem ekkert skárri sjálf. Darri verður 19 ára í febrúar og Haukur er tuttugu og eins árs. Hvorugur er sá snyrtipinni sem ég hefði helst kosið og þar með er ég bara hætt að nenna að ala þá upp. Líklega er sama lögmál að verki. Ég veit ekki hvort ég hlakka meira til jólanna (ég verði í fríi -ligga-ligga-lá) eða til þess að þessar elskur flytji að heiman. Reyndar reikna ég með að komast yfir hið síðarnefnda í kvöld, þegar ég er búin að skúra og allt orðið fullkomið.