Rugl

Og ég sem hélt að ég gæti auðveldlega lent í einhverju bráðskemmtilegu rugli með því að skrá mig á singels á facebook. Hef ekki fengið nein viðbrögð ennþá. Hinsvegar er fullt af útlendingum á social me sem vilja ólmir daðra við mig. Hef ekki tíma í svoleiðis rugl. Vil eingöngu rugl sem gæti leitt af sér eitthvað blogghæft.

Ekkert stress

Ég sé fram á að facebook geti orðið stórþjófur á tíma minn. Allavega þetta social dæmi. Hálftími farinn í netdaður við einhverja útlendinga. Hvar eru Íslendingarnir?

Aðalmeðferð í stóra vegatálmunarmálinu hefst í fyrramálið. Ég er ekki baun stressuð. Við fengum Ragnar Aðalsteinsson sem verjanda og hann er búinn að vinna heimavinnuna sína, ólíkt þeim sem varði Hauk og félaga á sínum tíma. Ekki það að ég hefði nokkurntíma farið á límingunum yfir jafn ómerkilegu máli en það er ekki verra að hafa hæfan lögmann.

Öryggistilfinning er góð.

Frjádagur kominn heim

Sonur minn Byltingin fór út í víða veröld að leita sér frægðar og frama. Á meðan missti hann af óeirðunum hérna heima. Kaldhæðni örlaganna lætur engan ósnortinn.

Gott að hafa endurheimt hann í tæka tíð fyrir þessi réttarhöld á mánudaginn. Búið að fresta þeim tvisvar og hann ætlaði ekekrt að koma heim fyrr en í júní; galdrar virka.

Við ætlum að drekka ullabjakk í kvöld.

——————-

TJÁSUR

gott að heyra. ullabjakk á sínar góðu hliðar eins og við öll.

Posted by: baun | 16.05.2008 | 18:31:16

Gott að guttinn er kominn heim til mömmu. Samgleðst.
Verði ykkur ullabjakkið að góðu 🙂

Posted by: Harpa | 16.05.2008 | 19:20:43

 

Elda, gelda, krókur og kelda

Það er gott að elda. Og ég sem sé merkingu í öllu trúi því að það sé ekki tilviljun að elda rímar við gelda. Eins og ást við þjást.

Í gær eldaði ég ofan í 20 manns. Þegar ég kom heim með óhóflega mikinn afgang sat Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni á dyraþrepinu. Mér datt í hug að bjóða honum inn í hvítvín og afganga en áttaði mig á merkilegri staðreynd: Halda áfram að lesa

Púss

-Af hverju ertu svona treg til að birta myndir?
-Ég er ekki viss. Kannski af því að þetta er míns eigins blogg og mér finnst eitthvað óþægilegt við að birta efni annarra hér. Eins og að bjóða fólki að skoða í skápana hjá einhverjum öðrum.

-Þú birtir heldur aldrei myndir sem þú tekur sjálf. Eins og af fjölskyldu og vinum.
-Ég tek mjög sjaldan myndir og kannski er það vegna þess að ég hugsa svo miklu meira í orðum en myndum en ég kann heldur ekkert á fótósjopp.
-Vá, leim exkjús, hvaða ástæða er til að fegra myndir?
-Óunnin ljósmynd er eins og illa stílaður texti. Vanur ljósmyndari nær kannski myndum sem eru birtingarhæfar en amatörar þurfa oftast myndvinnslu til að myndirnar verði eitthvað meira en heimild um hvað maður var að gera þann daginn. Alveg eins og texti. Hugsaðu þér t.d. ef ég tæki samtölin okkar og birti þau hrá, með öllu málfarsklúðri, útúrdúrum og hikorðum. Það gæti kannski verið ágæt heimild um það sem okkur fór á milli en hver heldurðu að nennti að lesa þann hroða?
-Ég skil hvað þú meinar, þú ert alltaf að reyna að gera lífið að listaverki. Ég skil hinsvegar ekki hversvegna þú ert alltaf að stílisera lífið, því mér finnst það nógu áhugavert eins og það er. Þetta er dálítið eins og öfug yfirborðsmennska hjá þér. Það þarf allt að vera svo djúpt að það snýst upp í leikaraskap.
-Lífið er leiksýning elskan. Sápuópera. Þér finnst þitt líf áhugavert af því að þú lifir því sjálfur og þér finnst mitt líf áhugavert vegna þess einmitt að ég stílisera það. Sjáðu til, það sem maður upplifir er aðeins öðruvísi en frosið augnabilk sem einhver sýnir manni eftir á. Svolítið eins og eitthvað sniðugt sem einhver sagði en virkar ekki fyrir aðra en þá sem voru á staðnum. Ef ég t.d. birti óunnar myndir af mér þar sem ég er skellihlæjandi, þá yrði fólk bara hrætt við mig.
-Já, þú ert náttúrulega alltaf að gæta þess að enginn verði hræddur við þig!
-Jújú, ég vil mjög gjarnan að fólk sé hrætt við mig, sérstaklega teprulegir karlmenn en kannski ekki rétt á meðan ég er að hlæja.
-Eva hættu þessu kjaftæði, þú ert falleg þegar þú hlærð.
-Auðvitað er ég falleg þegar ég hlæ, allir eru fallegir þegar þeir hlæja. Málið er að ljósmynd nær ekki alltaf hlátrinum. Ég hef t.d. þann hallærislega kæk að rífa í hárið á mér og halla höfðinu aftur þegar ég hlæ svo hláturmyndirnar sýna tannfyllingarnar og hálskirtlana í mér óþarflega vel. Svo ef ég ætti að taka mark á myndinni þá myndi ég halda að það færi mér bara ekkert sérstaklega vel að hlæja.Sjáðu. Það er þetta sem ég á við.hlæjhlæj2

-Uhh, mér finnst þú líka falleg á þessari í fjólubláu peysunni.
-Það er af því að þú þekkir mig. Og þessi er reyndar mjög góð. En sjáðu bara, þú ert ekki í neinum vafa um það hvor þeirra er unnin. Önnur er bara svo miklu fallegri en hin.

Önnur myndin er hrátt augnablik. Hin er tekin frá svipuðu sjónarhorni en ég sat á höndinni á mér og myndin er fínpússuð með fótósjopp. Fyrir utan það náttúrulega að þar er búið að farða á mig andlit.
Önnur er sannleikur. Hin sannleikur í neytendaumbúðum.

Hversu áhugavert er óstíliserað líf?
Og, mikilvægari spurning? Er óstíliserað líf í alvörunni meiri sannleikur? Þegar allt kemur til alls þá nærðu aldrei augnablikinu nema upplifa það sjálfur.

-Þú birtir þetta samtal á blogginu þínu er það ekki?
-Kannski.
-Ég þori að veðja að þú ætlar að enda það á orðunum: þú elskar mig líka.
-Þú ert spámaður yndið mitt. Þú elskar mig líka.

 

Seldi sál mína á 2000 kall

Ég svindlaði í dag. Keypti Neskaffi. Ég er með samviskubit. Venjulega kaupi ég Gevalia. Ég er reyndar ekkert viss um að það sé sómakært fyrirtæki en ég er allavega nokkuð viss um að Nestle er það ekki. Eins og vörurnar frá þeim eru góðar. Neskaffið er besta skyndikaffi á markaðnum en ég hef aðeins keypt það ef ekkert annað hefur verið í boði. Þar til í dag. Mér bara ofbauð 2000 kr verðmunur á einu kg af kaffi og er hreinlega ekki tilbúin til að greiða 2000 kall fyrir hugsanleika þess að ég sé að skipta við skárra fyrirtæki. Kannski ef ég væri viss… Siðferði mitt ristir nú ekki dýpra en þetta.

Veit einhver annars hvernig stendur á þessum mikla verðmun?

 

Lífið eftir dömpið

Ef maður nennir að vera Pollýanna er hægt að sjá dömp sem afar jákvæðan atburð.

-Maður ver þá allavega ekki meiri tíma og orku í samband við einhvern sem ætlar hvort sem er ekki að gera það að langtímasambandi.
-Maður þarf ekki lengur að velta því fyrir sér hvort maður hefði getað skorað betur. Það er orðið nokkuð augljóst því einhver sem vill mann ekki hlýtur að vera reglulega slæmt skor.
-Og -það má nota dömpið sem afsökun fyrir að kaupa sér nýjan kjól sem mann vantar ekki. Halda áfram að lesa

Frelsið

Ég fór mjög lítið í leikhús í vetur. Sótti heldur ekki tónleika eða bíó að ráði og fór ekki á eina einustu myndlistarsýningu. Ég veit ekki afhverju, það var allavega ekki af því að væri svo vitlaust að gera hjá mér.

Ég druslaðist loksins í leikhús í gær. Sáum þann ljóta og ég verð að segja að mér finnst það stórgott verk. Við borðuðum á Sjávarbarnum, það hef ég ekki gert fyrr en á örugglega eftir að gera það aftur.

Halda áfram að lesa

Hring eftir hring


Það er himinn og haf á milli okkar í viðhorfum til hluta sem skipta máli, svo ég sé bara ekki fyrir mér að sé framtíð í þessu,
 sagði hann. Og það er rétt hjá honum. Munurinn á skoðunum okkar er meiri en ég hélt og fyrst það er vandamál þá er þetta líklega ekki þess virði að halda í það. And so I´m single again. Það einhvernveginn hljómar ekki eins eymdarlega á ensku. Halda áfram að lesa

Fríhelgi framundan

Fríhelgi framundan. Leikhús annað kvöld, og það er nú sannarlega tímabært. Svo ætla ég að loka búðinni bæði á laugardag og mánudag og skreppa í sveitina. Áhrifin af heimsókninni til Hörpu fyrir tæpu ári eru farin að dvína og það vantar snertingu við mosa og asparilm í kerfið.

Markmið helgarinnar er að klára öll kremin mín. Og borða eitthvað annað en cheerios og gúrkur.

 

Matarboð hjá Stefáni

Matarboðið hjá Stefáni reyndist vera grillveisla og mér fannst næstum vera sumar.

Ísland er lítið. Ég hitti konu sem kenndi Árna Beinteini til 10 ára aldurs og mann sem les bloggið mitt. Maðurinn sem les bloggið mitt er menntaður bakari en er lyfjablandari að atvinnu. Þið vitið, gaurinn sem hrærir saman efnin í íbúfenið. Líklega verður honum það stundum á að búa til kalla og kellingar úr deiginu. Fokk hvað þetta starf ætti illa við mig. Ég sem get ekki einu sinni bakað eftir uppskrift. Ég fyndi alltaf hjá mér hvöt til að breyta einhverju, prófa eitthvað nýtt. Reikna ekki með að það yrði vel séð, jafnvel þótt útkoman yrði betri en frumpillan. Halda áfram að lesa

Myndin hans Árna Beinteins frumsýnd

images (3)Nýjasta stuttmyndin hans Árna Beinteins var frumsýnd í dag. Í sal 1 í Háskólabíó. Kampavín og allt og Nornabúðarinnar getið á kreditlistanum 🙂 Drengurinn er snillingur.

Ég fékk Önnu og börnin hennar til að koma með mér í bíóið. Fórum í ísbúð á eftir, bara til að líkja eftir sumri þótt sé sami helvítis skítakuldi og venjulega og hefði líklega verið skynsamlegra að laga kakó.

Mig langar svo út til Danmerkur að heimsækja systur mína. Upplifa alvöru sumar. Fara með strákana í Lególand. Sitja á veröndinni í hlírakjól og drekka bjór og hlusta á Eika glamra á gítarinn á kvöldin. Tala við Hullu langt fram á nótt, úti í myrkrinu en vera samt ekki kalt.

Kuldi er ekki hugarástand heldur mjög raunverulegt, mælanlegt ástand. Það gerir mig brjálaða að sjá grænt gras, finna lykt af vori en komast samt aldrei út úr húsi nema í ullarpeysu. Ef Kuldaboli væri áþreifanlegur myndi ég bíta af honum hausinn.

Um öryggi og frelsi

Freedom is just another word for nothing left to fuck up. Ég man ekki hver sagði það en það er ekki eins satt og það hljómar.

Lengi hélt ég að öryggi og frelsi færu ekki saman. Sú skoðun var byggð á reynslu en ég hafði aldrei notið alvöru öryggis og sá ekki mjög langt fram fyrir nefið á mér. Seinna sá ég að öryggi og frelsi eru ekki andstæður. Hið veraldlega afhjúpar hið andlega og til að njóta fjárhagslegs frelsis þarf maður fyrst fjárhagslegt öryggi. Sé það rétt hjá mér að hið veraldlega hafi tilfinningalega merkingu; komi upp um sálina, þá á það sama við um ástina. Halda áfram að lesa

Nostalgía

Sumrin þegar drengirnir mínir voru litlir. Í minningunni er alltaf sól.

Ég var í fríi. Fór með strákana í húsdýragarðinn um helgar á meðan við bjuggum í Reykjavík. Fyrir austan var enginn húsdýragarður en við fórum í sund daglega. Ég tók lit og gekk í stuttum kjólum og strigaskóm. Ég gat ennþá stjórnað því hvernig Haukur klæddi sig og Darri varð svo brúnn að sundskýlufarið sást allan veturinn. Halda áfram að lesa

Virðing

Virðing. -Ég hef velt fyrir mér merkingu orðins.Virða => Verð => Meta að verðleikum.
Virða => Það sem virðist. => Virða manneskjuna gaumgæfilega fyrir sér, reyna að horfa á meira en yfirborðið.Í ensku respect. Re-spect.

Re-spect => Að skoða aftur eða úr fjarlægð. Skylt því að taka tillit til. Halda áfram að lesa