Frelsið

Ég fór mjög lítið í leikhús í vetur. Sótti heldur ekki tónleika eða bíó að ráði og fór ekki á eina einustu myndlistarsýningu. Ég veit ekki afhverju, það var allavega ekki af því að væri svo vitlaust að gera hjá mér.

Ég druslaðist loksins í leikhús í gær. Sáum þann ljóta og ég verð að segja að mér finnst það stórgott verk. Við borðuðum á Sjávarbarnum, það hef ég ekki gert fyrr en á örugglega eftir að gera það aftur.

Fyrir hvern ætli ég sé annars að skrifa svona dagbókarfærslu um ekki neitt? Ég hef lítið bloggað undanfarið og veit að mínir nánustu halda að ég sé með glás af óbirtum geðbólgufærslum sem bíði þess að ég geti skoðað þær með sæmilegri yfirvegun. En það er ekki þannig. Mér finnst það undarlegt sjálfri en ég hef bara ekkert sérstakt að segja. Smámsaman er ég að tileinka mér sama yfirvegaða viðhorfið til sambandsslita og til dauðans.

Dauðinn snertir mig lítið. Ég vildi gjarnan hafa þann valkost að hitta fólk sem skipti mig máli en ég finn ekki fyrir þessum nístandi sársauka og örvæntingu þegar einhver deyr. Æðruleysi mitt gagnvart dauðanum truflar fólkið mitt og þótt þau þori ekki að segja það við mig (sem er skynsamlegt hjá þeim því ég myndi bíta hausinn af hverjum þeim sem reyndi að klína á mig illa rökstuddri sjúkdómsgreiningu) þá veit ég vel að sín á milli tala þau um það sem firringu, sem eitthvað ofboðslega óeðlilegt, eitthvað sem beri vott um að það sé eitthvað mikið að mér. Ég viðurkenni að það er ómanneskjulegt að kippa sér ekki upp við dauðann. Ómanneskjulegt en ekki óeðlilegt, því mannkynið er komið býsna langt frá eðli sínu. Það er ekki rökrétt og heldur ekkert sérstaklega eðlilegt að sleppa sér í geðbólgukast yfir einhverju sem er útilokað að maður geti haft áhrif á. Dýrin gera það allavega ekki og það eina sem virkilega greinir manninn frá öðrum dýrum er stjórnsemin í honum. Maðurinn er aldrei ánægður með aðstæður sínar til lengdar. Hann reynir alltaf að breyta einhverju og þegar það tekst ekki fær hann frekjukast. Hann getur kallað það sorg en sorgin er ekkert annað en frekjukast, vanhæfni til að sætta sig við að maður geti ekki stjórnað öðru fólki, veðrinu eða dauðanum.

Lengi tók ég höfnun alveg hroðalega illa. Og ekki bara höfnun heldur öllum óheiðarleika. Ég skildi ekki hugleysi annarra gagnvart raunveruleikanum. Gat ekki séð lógíkina í því þegar fólk laug að mér. Ég dró þá ályktun að fólk kæmi óheiðarlega fram við mig af því að því væri fjandans sama hvernig mér liði en ekki af því að það væri jafn sjálflægt og ég sjálf. Skildi ekki að sá sem laug að mér óttaðist sjálfur höfnun eða dóm og taldi sig bara vera að vernda sjálfan sig eða jafnvel mig. Viðkomandi hafði náttúrulega enga ástæðu til að óttast af því að ég var búin að SEGJA að ég þyldi sannleikann og hann átti bara að trúa því. Mér fannst heimurinn vera að riða til falls í hvert sinn sem ég vissi ekki hvar ég hafði ástvini mína og trúði því hreinlega ekki að flestum öðrum þætti þægilegt að lifa í blekkingu og teldu víst að það sama gilti um mig.

Í dag veit ég að þessi afstaða mín var ekkert annað en stjórnsemi. Ég vildi geta stjórnað tilfinningum annarra. Ég vildi að fólk hlýddi mér þegar ég sagði því að það þyrfti aldrei að óttast það að segja mér satt. Áttaði mig ekki á því að þar með var ég að gefa viðkomandi rökrétta ástæðu til að trúa því að ég myndi dæma hann fyrir að sýna gunguhátt sem hann kannski réði ekki almennilega við.

Málið er að maður getur ekki stjórnað tilfinningum annarra, hvorki því hvort viðkomandi hefur áhuga á að vera í sambandi við mann eða ekki, né því hvort hann eða hún treystir manni, hefur hugrekki til þess að uppfylla þarfir manns fyrir heiðarleika eða neinu öðru sem fer fram í höfðum manna. Ekki fremur en ást manns og sorg getur vakið dauða til lífsins.

Þegar upp er staðið er sorgin þessvegna gjörsamlega tilgangslaus. Og það merkir að æðruleysi mitt gagnvart dauðanum, og í dag gagnvart sambandsslitum er ekki merki um að ég sé ‘firrt’ heldur er það þvert á móti sönnun þess að ég sé í óvenjulega góðum tengslum við raunveruleikann. Ég er ekki sátt við vanhæfni mína til að stjórna heiminum en ég er allavega meðvituð um hana. Það er í sjálfu sér frelsi og mér finnst frelsið gott. Og þessvegna held ég að ég eigi aldrei framar eftir að upplifa sorg nema sem þriggja eða fjögurra daga rökræðu við sjálfa mig um það hversvegna sé tilgangslaust að reyna.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Frelsið

 1. ————————————

  Út úr þessu öllu saman kemur vonandi ljóðatorrekið, „Nautnin er nýtin, náin og ná“.

  Posted by: Langi Sleði | 10.05.2008 | 10:32:27

  ————————————

  Þú spyrð fyrir hvern þú sért að skrifa svona dagbókarfærslur. Ég vil meina að það sé fyrst og fremst fyrir sjálfa þig. Það er nefnilega alltaf svo gott að skrifa sig frá hlutunum. Svo njótum við hin auðvitað góðs af líka.
  Kær kveðja,

  Posted by: Ragna | 10.05.2008 | 23:12:16

  ————————————

  það er sagt ad sannleikurinn sé sagna bestur. Ég held sjálf að það sé bull og kjaftæði. Fólk segir yfirleitt sannleikann til að létta a samvisku sinni en ekki til að láta hinni manneskjunni líða betur. Ég trúi því nú samt að flestir séu góðir innan við beinin þó við séum öll gölluð á einn eða annan hátt. Er ekki sagt að beauty sé in the flaws eða er þetta bara minnimáttarkenndin í manni sem maður er að reyna að réttlæta ? 😉

  Posted by: sara | 11.05.2008 | 0:41:47

  ————————————

  Stundum finnst mér þú svo köld- en allir díla við sitt á sinn hátt. Mér finnst samt merkilegt hvernig þú skilgreinir sorg. Að geta misst án þess að syrgja er mér bara ómögulegt – ekki það að mér finnist gott að sakna og syrgja, en ég kemst ekki hjá því. Ég get engu breytt – en það breytir því ekki að ég sakna og syrgi að svona skildi fara.

  Posted by: lindablinda | 11.05.2008 | 19:46:18

  ————————————

  það er til margt verra en dauðinn. Tökum til dæmis Elizubeth Fritz. Reyndar finnst mér óskiljanlegt að hún skuli ekki hafa reynt ad fyrirfara sér á þessum 24 árum í kjallaranum. En von er powerful thing.

  Posted by: sara | 12.05.2008 | 0:21:13

  ————————————

  það er til margt verra en dauðinn. Tökum til dæmis Elizubeth Fritz. Reyndar finnst mér óskiljanlegt að hún skuli ekki hafa reynt ad fyrirfara sér á þessum 24 árum í kjallaranum. En von er powerful thing, I guess :).

  Posted by: sara | 12.05.2008 | 0:21:30

  ————————————

  Ómerkilegu dagbókarfærslurnar um það hvernig ég eyddi venjulegum degi, eru nefnilega ekki fyrir sjálfa mig Ranga.

  Þegar ég skrifa um viðhorf og samskipti, atburði sem hafa áhrif á hugsunarhátt minn og annað sem skiptir máli, þá geri ég það fyrir sjálfa mig. Ég nota bloggið mitt sem þerapíu og ef einhverjir hafa gaman af að fylgjast með þá er það bara fínt.

  En þegar ég skrifa um eitthvað sem skiptir engu máli; þegar ég skrifa eitthvað sem skilur ekkert eftir, er ekki hluti af neinni þróun og felur ekki í sér uppgjör af neinu tagi, þá hlýt ég að velta því fyrir mér hvort ég sé skrifa fyrir einhvern annan en sjálfa mig.

  Ég veit að ég fór í leikhús þetta kvöld. Það hafði engin sérstök áhrif á líf mitt og það er ólíklegt að nokkrum finnist það athyglisvert. Hversvegna skrifaði ég ekki bara færslu um það sem ég vildi sagt hafa. Til hvers hóf ég færsluna á ómerkilegri leikhússfrétt? Ég held ekki að það sé tilviljun en ég skil ekki sjálf hvað var að gerast í hausnum á mér þegar ég byrjaði að skrifa.

  Posted by: Eva | 12.05.2008 | 13:33:40

  ————————————

  Sara mín, það er alveg rétt hjá þér að sannleikurinn er alls ekki alltaf sagna bestur. En þegar einhver fer sérstaklega fram á það að fá að heyra sannleikann, hversu óþægilegur sem hann er, þá er skynsamlegt að verða við þeirri ósk. Ef viðkomandi þolir sannleikann ekki eftir allt saman, þá veistu allavega að þú getur ekki treyst hæfni þeirrar manneskju til að leggja mat á sitt eigið heiðarleikaþol.

  Posted by: Eva | 12.05.2008 | 13:38:43

Lokað er á athugasemdir.