Matarboðið hjá Stefáni reyndist vera grillveisla og mér fannst næstum vera sumar.
Ísland er lítið. Ég hitti konu sem kenndi Árna Beinteini til 10 ára aldurs og mann sem les bloggið mitt. Maðurinn sem les bloggið mitt er menntaður bakari en er lyfjablandari að atvinnu. Þið vitið, gaurinn sem hrærir saman efnin í íbúfenið. Líklega verður honum það stundum á að búa til kalla og kellingar úr deiginu. Fokk hvað þetta starf ætti illa við mig. Ég sem get ekki einu sinni bakað eftir uppskrift. Ég fyndi alltaf hjá mér hvöt til að breyta einhverju, prófa eitthvað nýtt. Reikna ekki með að það yrði vel séð, jafnvel þótt útkoman yrði betri en frumpillan.
Ég er búin að vera að leika mér í allan dag. Búðarhillurnar eru nánast tómar og allt í ryki og skít líka en ég nenni ekki að vera með samviskubit. Þurfti á því að halda að slaka á og hlæja dálítið. Eða kannski öllu heldur mikið. Auk þess vakna ég hvort sem er snemma svo ég græja þetta bara í fyrramálið. Ég er komin upp í rúm og klukkan rétt rúmlega 10, svo ég verð eiturhress í fyrramálið. Það er ákveðin öryggistilfinning sem fylgir því að koma sér í bælið á skikkanlegum tíma.