Valið og kvalið

-Hvað myndirðu velja ef þú yrðir neydd til þess að hafa mök við barn, dýr eða lík? spurði Lærisveinninn silkimjúkum rómi og renndi svartlökkuðum nöglunum gegnum síða hárið sitt.

Jamm. Það er nú það. Barnið kemur ekki til greina. Reyndar held ég að hvorki dýr né lík tækju því persónulega en hvort það kæmi beinlínis til greina er annað mál. Erum við að tala um golþorsk eða fjallaljón? Eða kannski heimilisköttinn?

 

 

Að gefnu tilefni

Þótt ég hafi tekið vefbókina úr birtingu merkir það ekki að það hafi orðið andlát í fjölskyldunni, ég sé rambandi á barmi sjálfsmorðs, gjaldþrots, giftingar eða taugaáfalls, hafi orðið fyrir ólýsanlegu áfalli eða að eitthvað annað sé „að“ hjá mér.

Það er ekkert meira að mér en venjulega og satt að segja á ég að baki furðulegri uppátæki en þau að hvíla mig á fremur ómerkilegri dægradvöl.

 

Komið til skila

Jæja Mogginn er búinn að leiðrétta mestu rangfærslurnar.

Ég varð frekar fúl þegar þeir sögðu frá þessu nánast eins og Haukur væri bara ranglandi um Palesínu á eigin vegum að snapa fæting en get kannski frekar lítið sagt þar sem ég neitaði að gefa upplýsingar (enda var ég búin að lofa Hauki að gera það ekki nema fá leyfi hjá honum fyrst.) Þetta er þá allavega komið á hreint og Haukur er kátur. Ekkert á heimleið held ég þótt flestum í fjölskyldunni hefði þótt best ef hann yrði bara rekinn úr þessu hræðilega landi.

 

Án þess að vita

Fólk heldur oftast að það sé mikilvægara en það er. Samt er því stöku sinnum öfugt farið. Oft í hverri viku hitti ég mann sem heldur áreiðanlega að hann sé mun stærra númer í lífi fjölskyldu sinnar, vina og nágranna en raun ber vitni. Samt hefur hann ekki hugmynd um að ég, sem veit ekkert um hann, ekki einu sinni fullt nafn hans, er sennilega uppteknari af því hvað hann er að hugsa en allt þetta fólk samanlagt.

Neeej, ég er ekki ástfangin af honum. Ég á það til að fá fólk á heilann af öðrum ástæðum. Ég hef samt velt því fyrir mér undanfarið hvort ég skipti kannski töluverðu máli í lífi einhvers sem ég þekki ekki, án þess að hafa minnsta grun um það.

Verðmat

Fasteignasala auglýsir frítt verðmat án skuldbindingar um að íbúðin sé sett á sölu. Ég minnist þess nú ekki að hafa verið rukkuð um verðmat þegar ég hef sett mínar íbúðir í sölu en vel má vera að einhver fasteignasala sé til sem rukkar fyrir það. Held samt frekar að búi eitthvað undir þegar það sem venjulega er innifalið í pakkanum er auglýst sem „frítt“. Halda áfram að lesa

Stál

Hefur gengið á með éljum. Skrattinn hamast á dyrabjöllunni og Amma hans sendir sms. Skrattinn svarar ekki símanum og Amma hans svarar ekki dyrabjöllunni. Lítið um sprungnar skeljar í þeirri fjölskyldu.

Um miðnætti tróð ég Skrattanum í sauðarlegginn og stáltappa í opið. En ég átti bara einn legg svo Amman lék lausum hala í alla nótt og hélt fyrir mér vöku. Um það leyti sem hún fékkst til að leggja sig var Skrattinn vaknaður. Ég gerði tilraun til að bjóða honum morgunmat ef hann lofaði að vera stilltur en hann trompaðist bara og hótaði að aka stórri ýtu á stáltappann ef ég opnaði ekki fyrir honum.

Svei mér þá ef lítur ekki út fyrir stórhríð.

 

Ljónakaramella

Maðurinn sem getur alveg sofið við hliðina á mér segir að varir mínar bragðist eins og karamellan í Lion-Bar. Vanilla eða hunang hefði kannski verið rómantískara en þar sem hann fílar Lion-Bar í ræmur er ég sátt við þann dóm.

Ég er búin að vera að sleikja á mér varirnar í allan morgun og ég finn nú bara venjulegt varabragð.

Lífið hefur allajafna verið næs við mig en þessa dagana líður mér jafnvel betur en venjulega.