Eins og þú vilt

Fólk þarf ekki að þekkja mig lengi eða náið til að átta sig á því að ég lifi eftir nokkrum grundvallarreglum um mannleg tengsl. Þessar reglur hljóða svo:

-Maður er manns gaman en heimurinn er fullur af góðu fólki og engin ástæða til að umgangast þá sem gera líf manns erfiðara.

-Ég get skilið yfirsjónir og fyrirgefið fljótræði og fávitahátt en ég geld lausung við lygi.
(Ég túlka þetta ákvæði Hávamála á þann veg að maður skuli slíta vinskap við þann sem sýnir manni óheilindi.)

-Ég er til í málamiðlanir sem eru ásættanlegar fyrir báða aðila en ef þú endilega vilt leiðindi þá geturðu sannarlega fengið þau.

Þessar reglur eru einfaldar, skýrar og hollusta mín við þær er áberandi. Af einhverjum orsökum, sem ég bara skil ekki, virðist skynsamasta fólk álíta að þetta eigi bara við um samskipti mín við alla aðra, ekki það sjálft. Ein þeirra mannvera sem ég elska hvað mest hefur nú þrálátlega beðið um leiðindi, bæði ljóst og leynt og ég segi ekki að það sé sársaukaklaust en vessgú, verði þinn vilji, þú skalt fá heilt snjóflóð af leiðindum. Leeeengi. Farðu svo bara með töfraþuluna sem þú lærðir um tveggja ára aldurinn þegar þú hefur fengið nóg. Þetta eina orð virkar nefnilega ennþá með hæfilegum skammti af einlægni og eftirsjá.

Ótrúlegt annars hvað andardráttur sofandi manns getur létt manni álagið við að standa í leiðindum. Ég finn miklu minna fyrir þessu en ég átti von á.

Best er að deila með því að afrita slóðina