Tiltekt

Stóð í tiltekt heima fram á nótt og er búin að verja því sem af er deginum í að smíða rafeindatæki.

Ég ætlaði eiginlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að grynnka á ruslasafni Ygglibrúnarinnar í dag en dauðlangar að lýsa hér með yfir helgarfríi og kíkja á sunnudagskrossgátuna.

Mér var boðið í tvö Júróvissjónpartý í gær en langaði ekki baun. Keppnin hefur aldrei höfðað til mín og ég hef yfirleitt ekki úthald í meira en 3-4 lög en auk þess hrís mér hugur við því að þurfa að blanda geði við fleiri en 2 ókunnuga í einu. Ég er að hugsa um að ráða mig á einhvern fjölmennan vinnustað í 4-5 tíma á dag. Það myndi allavega þvinga mig til að mynda einhver félagsleg tengsl. Ég er hægt og rólega að verða eins og Gísli á Uppsölum.

VG

Aldrei hefði hvarflað að mér að óreyndu að við yrðum beðnar um að selja lopapeysur til Afríku. Viðskiptin hreinlega þefa okkur uppi.

Ég er að hugsa um að nefna viðskiptagaldrana mína VG.

Dindilhífihælar

Thailenska búðin við Engihjalla finnst hvorki í símaskránni né á gulu línunni. Ég var samt svo þrælheppin að finna dindilhífihæla í mínu númeri í dag!

Ég get reyndar alveg hugsað mér að eiga fleiri skó sem passa á mig, þ.á.m. fokkmíbúts, ég hef aldrei átt slík.

Veiðarfæri

Annaðhvort hefur álitlegum karlmönnum í umferð fjölgað með hraði síðustu vikuna eða þá að minn standard hefur lækkað all snarlega.

Í gær hitti ég af tilviljun gamlan félaga sem er ekki fíkill og er viðhengislaus í augnablikinu. Hann fékk símanúmerið mitt.

Í dag mun ég hitta sætan sölumann sem virðist við fyrstu kynni allavega, hafa sæmilega heilbrigð pólitísk viðhorf.

Veðurspáin gerir víst ekki ráð fyrir dónalega stuttu pilsi næstu daga og ekki hef ég enn fundið dindilhífihæla í mínu númeri. Kannski ætti ég í staðinn að ganga með nokkur jarðarber á mér og leika þau lostafullum vörum þegar eintök af hinu hærðara kyni verða á vegi mínum. Þeir ku víst vera svo einfaldir þessar elskur.

Í alvöru

Seyðkonan: Það er æðislegur maður að vinna þar. Ég meina æðislegur, þú veist, í alvöru æðislegur. Svo er líka annar en hann er svona meira eins og fyrir þig.

Jamm. Það er harla ólíklegt að við eigum nokkurntíma eftir að slást út af karlmanni.

Ástagaldur

Áhrifa ástargaldursins sem ég framdi um síðustu helgi er þegar farið að gæta. Hver sjarmörinn á fætur öðrum hefur sýnt mér athygli síðan þá og ég sé ekki betur en að dræsugallinn sem ég hef notað árangurlaust í margar vikur, sé skyndilega farinn að skítverka.

I feel pretty.

Það verður fróðlegt að sjá hvað rekur á fjörur mínar um helgina.

Hæl

Getur einhver bent mér á einhvern stað á Íslandi, þar sem hægt er að fá hælaháa skó nr 35?

Það er einfaldlega of mikil slysahætta af því að ganga á pinnahælum í of stóru númeri, til að ég sé reiðubúin að taka þá áhættu.

Mission accomplished

Þá er ég búin að sinna samkvæmisskyldum mínum fyrir næstu 5-6 árin.

Eldri kona spurði hvort ég væri dóttir afmælisbarnsins, (sem er rúmu ári eldri en ég). Ég sagði henni ekki að lesa Dale Carnegie betur, útskýrði ekki einu sinni að það þyrfti að vera um 10 ára aldursmunur til að þetta hallærislega mannblendnistrix hitti í mark. Brosti bara og sagði eitt orð, nei. Ég kann mig svo vel. Halda áfram að lesa

Allt fullkomið

Ég hef vandað mig við uppeldið á drengjunum mínum en þó er einn þáttur sem ég hef vanrækt. Ég hef ekki gert miklar kröfur til þess að þeir sinni húsverkum.

Þegar ég var barn var mér sagt að þeir sem ekki væru látnir skúra, skrúbba og bóna sem börn, yrðu hjálparvana sóðar á fullorðinsárum. Ég trúði þessu en samt hef ég frestað því ár eftir ár að gera syni mína að ræstitæknum. Ég hef látið nægja að setja þeim fyrir smáverkefni; þú átt að ganga frá þvottinum, þú átt að ryksuga stigaganginn o.s.frv. Ég hef hingað til haldið að það þyrfti sérstaka þjálfun til að láta sér detta í hug hvað þurfi að gera á venjulegu heimili og hvernig eigi að gera það. Síðustu tvö árin hef ég þessvegna séð fram á að uppeldið muni lenda á konunum þeirra. Halda áfram að lesa

Tískuröskun

Skærbleik húfa, rauðar ökklasíðar buxur og bláir sokkar hljóta að benda til sértækrar tískuröskunar.

Gaurinn sem telst víst bjartasta vonin í tískuheiminum klæðir sig einmitt þannig. Pant versla í Hagkaupum.

Heilkennið

Eitthvert undarlegt heilkenni hefur verið áberandi hjá mínu heimilisfólki undanfarið. Það lýsir sér í tómum sjampóflöskum sem stillt er upp á baðkarsbrúninni í stað þess að rata í ruslið, tómum krukkum og smjörvaöskjum sem eru settar í kæliskápinn, en ekki í ruslið eða enduvinnslukassann) og tómum morgunkornspökkum og öðrum umbúðum sem er troðið í yfirfullan þurrefnaskápinn en ekki endurvinnslukassann.

Ég veit ekki hvort þetta ætti frekar að kallast umbúðaheilkenni eða ruslasöfnunarheilkenni en samkvæmt minni reynslu er það ólæknanlegt. Ég hef að vísu ekki reynt þá aðferð að æpa mjög hátt og skella hurðum. Ég bara nenni því ekki. Það eru hvort sem er ekki nema 7-8 ár þar til þeir verða báðir fluttir að heiman.

Með auga mannfræðingsins

Sit á kaffihúsi, vopnuð lappanum, sunnudagskrossgátunni og þröngum bol.
Þarf að vinna í dag og býst ekki við að það yrði vel séð að ég tæki borvélina og lóðboltann með á kaffihús en hér er svosem ekki feitan gölt að flá hvort sem er. Einn sem virðist geðþekkur og lítur út fyrir að vera hér af sömu ástæðu og ég (vanta félagsskap við hæfi) en hinsvegar ekki í sama tilgangi. Ég er hér til að verða mér úti um maka en hann er sennilega í ástarsorg ef marka má fas og svipbrigði. Halda áfram að lesa

Frávik

Eva: Ég elska þig eins og Alan Shore elskar Denny Crane.
Ljúflingur: Á sama hátt eða jafn mikið?
Eva: Hvorttveggja.
Ljúflingur: Þú heldur í alvöru að lífið sé sápuópera er það ekki?
Eva: Það er það. Þótt þú sért ekkert líkur Denny Crane. Og ekki ég Alan Shore þótt ég sé háð þér.
Ljúflingur: Ég elska þig eins og nörd elskar frávik.
Eva: Þú heldur í alvöru að undantekningar sanni reglur er það ekki?
Ljúflingur: Nei. Ég held að meiri sannleikur felist í frávikinu en fjöldanum.
Eva: Þessi undarlega ást okkar er frávik. Eða allavega samband okkar.
Ljúflingur: Ég held að ást sé yfirhöfuð frávik.

Nánd

Grasagarðurinn mannlaus, fyrir utan okkur tvö.

Drengurinn sem fyllir æðar mínar af endorfíni snarstansar og slítur höndina upp úr vasanum.
-Fyrirgefðu hvað ég er sljór, segir hann, og tekur í höndina á mér .
-Sljór? hvái ég.
-Þú sýndir mér lófann. Tvisvar. Og ég skildi ekki hvað þú varst að biðja um.
-Sýndi ég þér lófann? Það hefur ekki verið meðvitað,
segi ég.
Gott að vita að þú gerir stundum eitthvað ómeðvitað eins og annað fólk, segir hann og leiðir mig áfram í gegnum garðinn.

Þá verður líf þitt lágfreyðandi

Ég hef svo mikla reynslu af því að hjálpa sjálfri mér að ég gæti skrifað heilt bókasafn af sjálfshjálparbókum.

Ég reikna samt ekki með að gera það.

Í raun þarf maður ekki að kunna nema eina grundvallarreglu til að komast út úr hringiðu dramsýkinnar og verða þeirrar gæfu aðnjótandi að geta horft á sápuóperu tilverunnar utan frá í stað þess að hrærast í henni þáttaröð eftir þáttaröð.

Reglan er þessi:
Veröldin er full af dásamlegu fólki sem vill þér vel. Þú þarft ekki að umgangast þessa örfáu sem gera líf þitt erfiðara.

Hvað gerið þið þegar enginn annar er hérna inni?

Undanfarna daga hafa þrír krakkar komið inn í búð til mín og spurt hvað við gerum þegar engir kúnnar eru í búðinni.

Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma velt þessu fyrir mér þegar ég var barn. Allavega ekki fyrr en ég var orðin nógu gömul til að átta mig á því að „búðarkonan“ þarf að gera fleira en að afgreiða.

Mér finnst skrýtið að þessi spurning komi svona dag eftir dag. Ætli sé að spinnast einhver goðsögn um okkur eða eru börn almennt að velta fyrir sér hinum ósýnilega hluta hinna ýmissu starfa. Spyrja þau t.d. tannlækninn hvað hann sé að gera á milli þess sem hann tekur á móti sjúklingum?