Mission accomplished

Þá er ég búin að sinna samkvæmisskyldum mínum fyrir næstu 5-6 árin.

Eldri kona spurði hvort ég væri dóttir afmælisbarnsins, (sem er rúmu ári eldri en ég). Ég sagði henni ekki að lesa Dale Carnegie betur, útskýrði ekki einu sinni að það þyrfti að vera um 10 ára aldursmunur til að þetta hallærislega mannblendnistrix hitti í mark. Brosti bara og sagði eitt orð, nei. Ég kann mig svo vel.

Önnur sagði mér í óspurðum fréttum að hún ynni á hótelinu. Ég setti ekki upp hluttekningarsvip og sagði að ég hefði lent í svoleiðis ógeði líka. Brosti bara og sagði já. Þegar hún spurði hvað ég gerði, sagðist ég vinna hjá lítilli gjafavörubúð. Það er ekki einu sinni lygi en forðaði mér frá frekari athygli.

Ræðuhöld og skemmtiatriði tóku nógu langan tíma til þess að ég gæti, án þess að vera beinlínis ósmekkleg, forðað mér áður en kurteisi annarra gesta þvingaði þá til að reyna að halda uppi samræðum við mig.

Ég hef lent í erfiðari samkvæmum.

Best er að deila með því að afrita slóðina