Allt fullkomið

Ég hef vandað mig við uppeldið á drengjunum mínum en þó er einn þáttur sem ég hef vanrækt. Ég hef ekki gert miklar kröfur til þess að þeir sinni húsverkum.

Þegar ég var barn var mér sagt að þeir sem ekki væru látnir skúra, skrúbba og bóna sem börn, yrðu hjálparvana sóðar á fullorðinsárum. Ég trúði þessu en samt hef ég frestað því ár eftir ár að gera syni mína að ræstitæknum. Ég hef látið nægja að setja þeim fyrir smáverkefni; þú átt að ganga frá þvottinum, þú átt að ryksuga stigaganginn o.s.frv. Ég hef hingað til haldið að það þyrfti sérstaka þjálfun til að láta sér detta í hug hvað þurfi að gera á venjulegu heimili og hvernig eigi að gera það. Síðustu tvö árin hef ég þessvegna séð fram á að uppeldið muni lenda á konunum þeirra.

Þegar ég fór að heiman í gær sagði ég skýrt og skorinort: Þegar ég kem heim á allt að vera fullkomið hérna. Þetta trix lærði ég af Heiðu vinukonu minni, en þar sem synir mínir hafa ekki fengið almennilegt uppeldi á þessu sviði, hvarflaði ekki að mér að þetta myndi virka hjá mér enda útskýrði ég þetta ekkert nánar. Þetta var meira svona óskhyggja.

Þegar ég kom heim í gærkvöld var allt fullkomið. Bara eins og ég hefði sjálf verið að verki.

Af þessu má læra að það þarf ekki margra ára þjálfun til að læra að hugsa um heimili. Sú kenning er bara trix sem mæður nota til að létta af sér samviskubitinu yfir því að láta börnin létta undir með sér. Sem er auðvitað hið besta mál.

Best er að deila með því að afrita slóðina