Sáluklúbbur?

Eva (tilkynnir): Ég verð lítið heima á næstunni. Ég ætla að finna mér mann og geri ráð fyrir að fari töluverð vinna í það.
Sonur minn Byltingin: Jess! Má ég kalla hann pabba?
Sonur minn Ygglibrúnin: Ég flyt ekki héðan nema þú kaupir húsið ein.
Eva: Rólegur, það er enginn í sigtinu ennþá.
Endorfínstrákurinn (flissandi): Grey maðurinn þarf að taka allan pakkann, Byltinguna, Ygglibrúnina og mig. Ef ég væri ekki svona illa innrættur myndi ég vorkenna honum.
Eva: Húsasmiðurinn hafði ekkert á móti þér.
Endorfínstrákurinn: Húsasmiðurinn var of upptekinn af sjálfum sér til að taka eftir því að það var ég sem var besti vinur þinn en ekki hann.
Eva: Ég finn einhvern sem dýrkar þig. Svo getur þú skriðið upp í til okkar á sunnudagsmorgnum og klipið í tærnar á okkur á meðan við ráðum krossgátuna.
Endorfínstrákurinn: Já. Þetta verður ekki sálufélag tveggja heldur heill sáluklúbbur. Vííí, fáum fleiri félaga. Ég er viss um að þeir falla að fótum þér í hrönnum þegar þú kynnir hugmyndina.
Eva: Þú nennir nú hvort sem er ekkert að vakna á sunnudagsmorgnum.
Endorfínstrákurinn: Vertu ekki of viss, Dindilhosa. Vertu ekki of viss.

Best er að deila með því að afrita slóðina