Með auga mannfræðingsins

Sit á kaffihúsi, vopnuð lappanum, sunnudagskrossgátunni og þröngum bol.
Þarf að vinna í dag og býst ekki við að það yrði vel séð að ég tæki borvélina og lóðboltann með á kaffihús en hér er svosem ekki feitan gölt að flá hvort sem er. Einn sem virðist geðþekkur og lítur út fyrir að vera hér af sömu ástæðu og ég (vanta félagsskap við hæfi) en hinsvegar ekki í sama tilgangi. Ég er hér til að verða mér úti um maka en hann er sennilega í ástarsorg ef marka má fas og svipbrigði.

Eða kannski er hann bara hræddur við mig. Hann kom til mín áðan og spurði hvort ég væri búin að lesa Moggann. Í andartaks hugsunarleysi missti ég út úr mér að ég hefði komið með blaðið með mér og hann hrökklaðist burt. Samt var ég ekkert grimm. Þetta er bara staðreynd, ég á þetta blað sjálf og ef maður tekur Moggann með sér á kaffihús þarf maður helst að sitja á honum svo hann týnist ekki. Fólki dettur auðvitað ekkert annað í hug en að blaðið tilheyri staðnum. Fjandans, þetta hefði verið kjörið tækifæri til að mynda kontakt. „Þér er velkomið að fá blaðið, ég kom með það en ætla að kíkja á tímaritið fyrst, við getum skipst á, viltu ekki bara setjast hérna?“ en nei, þess í stað sagði ég „ég kom með það með mér“ klúðððrrrrrrr.

Ég renndi yfir fyrirsagnirnar í rólegheitum, þar sem ég var þegar búin að gefa til kynna að ég vildi ekki láta blaðið af hendi og stóð svo upp og bauð honum það, sagðist hvort sem er vera að ráða krossgátuna. Brosti flírulega. Hann þakkaði með mæðulegu ástarsorgarbrosi og límdi andlitið við Moggann.

-Takk fyrir lánið, sagði Ástarsorgin.
Ég var þegar búin að prófa flíruna svo í þetta sinn brosti ég undirleit. Hann kinkaði kolli, lyfti munnvikunum með erfiðsmunum og gekk til dyranna EN, snerist á hæli og settist aftur. Fékk sér meira kaffi.

Vííí! Hann drekkur kaffið hægt. Lítur laumulega í átt til mín líkt og hann renni í grun að ég hafi beint ólgandi girnd minni í áttina að honum, en sé ekki viss. Á næsta borði við hann er bleik peysa um sextugt, með perlusaumsmynstri. Og vinkona hennar með plasteyrnalokka og hornspangargleraugu. Varla hvarflar að manninum að hinar fínu frýr séu viðföng þessa frygðarlega augnaráðs sem brennur á honum?

Ég sendi honum feimnislegt bros yfir tölvuskjáinn (drottinn minn dýri hvað ég er góður leikari) og já! nú réttir hann úr sér og þenur brjóskassann. Gott ef munnvikslyftan getur ekki með góðum vilja flokkast sem sjálfsánægjubros.

Dunkar svo niður í ástarsorgina aftur.

Stendur upp stuttu síðar. Drattast í átt að dyrnum. Lítur snöggt á mig og af mér aftur, tvístígur, þrístígur en opnar svo. Hengir höfuðið niður á milli axlanna og fer. Skórnir hans virðast óhemju þungir.

Best er að deila með því að afrita slóðina