Að gerilsneyða félagslíf sitt

Hvernig greinir maður á milli þeirra sem gera líf manns erfiðara og hinna, spyr lesandinn.

Sko.

-Fortíðin er besta spákonan. Sá sem hefur einu sinni farið illa með þig MUN gera það aftur. Ekki brenna þig á sama grautnum tvisvar.

-Lærðu af reynslunni. Ef fólk með sömu vandamál (sem það reynir að flækja þig í) og sömu skapgerðarbresti kemur inn í líf þitt aftur og aftur, skaltu forðast slíkt fólk eins og heitan eldinn.

-Lærðu af reynslu annarra. Ef aðrir fullyrða að viðkomandi sé tilfinningasýkill, taktu honum/henni þá með varúð.

-Gæðin koma í ljós. Hleyptu fólki ekki nálægt þér tilfinningalega fyrr en þú ert búinn að kanna líferni þess og samskiptahæfni.

-Taktu mark á því þegar viðvörunarbjallan innra með þér fer að klingja. Þegar samband er of erfitt til að vera þess virði að leggja vinnu í það, vanræktu það þá þar til það lognast út af. Þú þarft ekki að slíta sníkjulífssambandi með látum nema þú sért að glíma við fíkil eða sambærilegan viðbjóð. Ástarsamböndum þarf þó vitanlega að slíta formlega, annað er ljótt, rangt og ómannúðlegt.

-Lærðu að þekkja týpurnar. Það er út af fyrir sig efni í aðra færslu (eða bókaflokk)en greinilegasta einkennið er óvenjulegur hæfileiki til að smita út frá sér ógeðslegum eiginleikum.

Pöddur af þessu tagi eru ekkert mjög algengar en þær hafa gott nef fyrir því hverjir eru hepplegir hýslar og því er algengast að þeir sem á annað borð gefa þeim færi á sér, sitji fyrr en varir uppi með heilt mor. Besta leiðin til að verja sig gegn tilfinningasýklum er sú að forðast samneyti við þá.

Best er að deila með því að afrita slóðina