Vandamálið er ekki kynjamismunun

Nú er komið í ljós að jafnlaunavottun hefur engin áhrif. Ja, nema kannski þau að útvega nokkrum flokksgæðingum vel launuð verkefni sem skila samfélaginu engu en sjúga peninga úr sameiginlegum sjóðum. Það er nefnilega ekki kynjamismunun sem veldur ójafnri stöðu kynjanna, nema hugsanlega að örlitlu leyti. Og ég er ekki að afsaka þann hugsanlega mun heldur að benda á að vandinn liggur annarsstaðar. Halda áfram að lesa

Kynungabók og vinnumarkaðurinn

skúra
Í fyrri pistlum um Kynungabók, gagnrýndi ég það hve lítið vægi hún gefur stærstu vandamálum karla og drengja. Í fjölskyldukaflanum er ekkert fjallað um veika stöðu feðra í forræðismálum og í skólakaflanum er sá mikli fjöldi drengja sem þrífst ekki í skóla ekki einu sinni til umræðu. Á vinnumarkaði hallar meira á konur en karla svo það er kannski eðlilegra að þar sé sjónarhorn kvenna ríkjandi. Engu að síður hef ég nokkrar athugasemdir. Eða eiginlega margar. Halda áfram að lesa

Jafnrétti í reynd?

pabbi1

Kunningi minn hringdi í mig í fyrradag. Allt gott að frétta af honum, var á leiðinni út á land að vinna. Það kom mér nokkuð á óvart þar sem ég vissi ekki betur en að hann væri hæstánægður í vel launuðu starfi sínu í Reykjavík. Allt hefur sína skýringu; hann var nefnilega að fara í barneignafrí og fannst auðvitað tilvalið að nota tækifærið til að stunda svarta vinnu.

Ég varð hneyksluð og hreytti einhverju í hann um misnotkun á almannafé og rétti barnsins til að hafa hann heima. Hann svaraði að bragði að þetta fyrirkomulag hentaði öllum. Móðirin færi á atvinnuleysisbætur, sem væru svipaðar og launin sem hún gæti haft enda vonlaust að nokkur réði einstæða móður með ungbarn í vinnu nema hún sýndi starfinu sérstakan áhuga. Barnið hefði móður sína heima en sjálfur hefði hann hvorki vit á smábörnum né áhuga á að vera stöðugt með þeim. Hann sjálfur hefði hærri tekjur en áður (með skattsvikum) og orlofið hans yrði lagt inn á bankareiking handa barninu. Allir glaðir!

Í gær kom svo fram í Fréttablaðinu að 1 kona af hverjum 100 fengi hálfa milljón í fæðingarorlof, hins vegar næði 1 karl af hverjum 11 þessari upphæð. Svona er nú jafnréttið í reynd: til að tryggja barninu mínu myndarlega innistæðu á bankabók þarf ég ekkert að gera nema finna því pabba sem hefur ekki sérstakan áhuga á ungbörnum og sætta mig við launamun kynjanna.

——————

Þennan pistil birti ég fyrst á annál 17. júní 2003. Í dag er ég nokkuð viss um að launamunur kynjanna skýrist miklu fremur af ólíku vali kynjanna en af kerfisbundinni mismunun. Ég vil að umönnunarstörf og önnur láglaunastörf séu metin að verðleikum.  Mér finnst þó allt í lagi að konur séu körlum líklegri til að vinna hlutastörf og fáránlegt að yfirvöld séu að skipta sér af því hvernig fólk skiptir fæðingarorlofi á milli sín.