Kynungabók og vinnumarkaðurinn

skúra
Í fyrri pistlum um Kynungabók, gagnrýndi ég það hve lítið vægi hún gefur stærstu vandamálum karla og drengja. Í fjölskyldukaflanum er ekkert fjallað um veika stöðu feðra í forræðismálum og í skólakaflanum er sá mikli fjöldi drengja sem þrífst ekki í skóla ekki einu sinni til umræðu. Á vinnumarkaði hallar meira á konur en karla svo það er kannski eðlilegra að þar sé sjónarhorn kvenna ríkjandi. Engu að síður hef ég nokkrar athugasemdir. Eða eiginlega margar.

Vinnumarkaður og heimilisstörf 

Það er varla hægt að ræða jafnréttismál á vinnumarkaði nema koma einnig inn á heimilsstörf og það er að sjálfsögðu gert í Kynungabók. Vakin er athygli á því að ábyrgð kvenna á börnum og heimili sé meiri en karla en heimilisstörf séu hinsvegar ekki metin til launa. Mér finnst gott að unglingar séu hvattir til að velta þessum hlutum fyrir sér og spurning á bls 20 býður upp á áhugaverðar umræður:

Hvað myndi gerast ef farið væri að meta vinnu á heimilum til launa?

Ég get svarað fyrir sjálfa mig að ég væri rík kona í dag ef ég hefði fengið laun fyrir alla þá fermetra sem ég hef skúrað heima hjá mér. Nema náttúrulega ef ég hefði þurft að nota þau til að borga þeim körlum laun sem hafa gert við bílana mína og fleiri tæki, bjargað tölvugögnum og sinnt annarri tölvuþjónustu, dregið bílinn minn upp úr snjósköflum, borið fyrir mig heilu búslóðirnar, smíðað fyrir mig innréttingar, tengt ljós og rafmagnstæki… En þessir hlutir eru heldur ekki metnir til launa á heimilum.

Í Kynungabók er fullyrt að þegar heimilisstörf séu tekin með í reikninginn sé heildarvinnutími kynjanna nokkuð svipaður. Gallinn er sá að í rannsókninni sem vísað er til eru heimilisstörf ekki skilgreind. Eru það t.d. heimilisstörf að aka börnum í leikskólann og sjá um innkaup? Það er mjög vafasamt að álykta um fjárhagslegt misrétti miðað við vinnuframlag út frá svo opinni spurningu.

Spurningin um það hvað myndi gerast ef heimilisstörf yrðu metin til launa á rétt á sér en þarf þá ekki líka að spyrja hvað myndi gerast ef farið yrði að meta tækjaviðhald og margt annað sem karlar gera oftar í þágu heimilisins til heimilisstarfa?

Fjárhagsstaða kynjanna

Kynbundninn launamunur er eðlilega tekinn fyrir í Kynungabók, enda um stórt jafnréttismál að ræða. Einföldunin er þó sú sama og fyrr. Á bls 20 er eftirfarandi fullyrt:

Þegar laun kvenna og karla eru skoðuð  kemur í ljós að konur hafa úr minna fjármagni  að moða en karlar.

Fullyrt að enn viðgangist óútskýrður kynbundinn launamunur, nú síðast er það niðurstaða rannsóknar, sem almennum borgurum er neitað um aðgang að. Sé það rétt að slíkt viðgangist á auðvitað að lögsækja þau fyrirtæki. Það er líka óréttlátt að kvennastörf séu minna metin en karlastörf og það er jafnréttismál að breyta því. Hinsvegar eru það ekki eingöngu laun sem ráða því hversu miklu fé fólk hefur úr að spila en í Kynungabók er algerlega sneitt hjá spurningum um aðra þætti sem snerta fjárhagsstöðu og kynferði. Hvernig lítur dæmið t.d. út þegar búið er að taka meðlög, barnabætur og vaxtabætur með í reikninginn?

Enginn kemst í gegnum Kynungabók án þess að komast að því hversu aumur hlutur kvenna í æðstu embættum er. Ekkert er þó minnst á að þótt karlar séu í meirihluta þeirra örfáu sem hafa yfir völdum og auðæfum að ráða, eru karlar líka í yfirgnæfandi meirihluta þeirra verst settu í samfélaginu. Hætt er við að það sem eftir situr hjá nemendum sé ímynd af samfélagi þar sem karlar eru mun betur settir en konur, þegar raunveruleikinn er sá að mjög fáir karlar eru miklu betur settir en flestar konur og flestir karlar.

Fjárhagsstaða fátækra karla hefur orðið útundan í jafnréttisumræðunni. Uppi er raddir um að hátt hlutfall meðlagsgreiðenda berjist í bökkum. Ég verð vör við þá skoðun að karlar séru líklegri til að taka á sig sameiginlegar skuldir við skilnað og/eða eftirláta hinu meirihluta eigna. Hvort það hefur eitthvað verið rannsakað veit ég ekki en ef svo er fara niðurstöðurnar lágt.  Þetta eru þættir sem hljóta að eiga heima í jafnréttisumræðu en “jafnréttisfræðslan“ tekur fullan þátt í þögguninni.

Ranghugmyndir kynhyggjusinna um forneskjulegar hugmyndir samfélagsins

Í vinnukaflanum og á fleiri stöðum í Kynungabók virðast hugmyndir höfunda um kynjaímyndir samtímans algjörlega úr takti við veruleikann T.d. er þeirri spurningu velt upp hvort sé ekki óraunhæft að tengja hugtakið „fyrirvinna“ eingöngu við karla. (Bls 19) Ég minnist þess ekki að hafa heyrt nokkurn mann  nota hugtakið „fyrirvinna“ um karla eingöngu, síðustu 30 árin, svo um hvað eru höfundar eiginlega að tala?

Álíka undarleg hugmynd kemur fram í skólakaflanum, þar sem fjallað er um viðhorfsrannsókn sem leiði í ljós íhaldssamar hugmyndir um kynhlutverk. Börnin voru m.a. spurð hvort þau teldu eðlilegra að eiginkona eða  eiginmaður sæju um fjármál heimilisins. Það er út af fyrir sig gagnrýnivert að spyrja um viðhorf til mála sem alls óvíst er að þátttakendur hafi nokkurntíma velt fyrir sér, án þess að bjóða upp á möguleikann „tek ekki afstöðu“ en þessi spurning er vafasöm af fleiri ástæðum.  Hvað er átt við með því að „sjá um fjármál“ heimilisins í nútímasamfélagi? Samfélagi þar sem fólk lætur greiðsluþjónustu bankana um að borga reikinga, notar netbanka til að millifæra og hvort hjóna um sig er með eigin greiðslukort. Er átt við stórar ákvarðanir eða það hvort hjóna fer oftar inn á heimabankann í tölvunni? Eða eitthvað annað? Þekkist það yfirhöfuð að annað hjóna „sjái um“ fjármálin? Sjá íhaldssömu börnin fyrir sér að eiginkona rétti eiginmanni laun sín til ráðstöfunar og hann skammti henni heimilispeninga? Hversu hátt hlutfall þessara krakka býr á heimili þar sem eiginmaður er yfirhöfuð til staðar? Ef spurningin er hönnuð fyrir ungling sem ólst upp á eftirstríðsárunum, er þá við því að búast að það skili vitrænni niðurstöðu að leggja hana fyrir ungling sem elst upp fjórum áratugum síðar?

Í atvinnukaflanum er a.m.k. enn ein vísbending um að þeir sem stjórna kynjaumræðunni hafi ranghugmyndir um viðhorf almennings til jafnréttismála. Á bls 19 er eftirfarandi umræðuefni að finna:

Í viðhorfskönnun frá 2003 kemur fram að yfirgnæfandi meirihluti telur að jafnrétti sé ábótavant í íslensku samfélagi en meirihluti þess hóps telur samt jafnrétti ríkja á sínum vinnustað. Hvað skýrir þetta misræmi?

Þetta er góð spurning, kannski sú besta sem varpað er fram í Kynungabók. Mér finnst líklegt að innan kynjafræðinnar sé stemning fyrir því að skýra þetta sem meðvirkni með eigin atvinnurekanda eða afneitun á því að maður sjálfur og manns nánustu séu fórnarlömb feðraveldisins. Augljósari skýring í mínum huga er þó að reynsla fólks samræmist ekki umræðunni. Umræðunni sem kvenhyggjufólk hefur stjórnað í marga áratugi og stjórnar enn. Kynjamisréttið er kannski orðið mýta; við þekkjum að vísu ekki mörg dæmi um kynjamisrétti á vinnumarkaði sjálf, en það hlýtur samt að vera stórt vandamál fyrst feministar segja það.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook