Hið augljósa samhengi

Í hugum margra nútímamanna voru galdramál miðalda skýrt dæmi um grimmdarlega skoðanakúgun á grundvelli hjátrúar og ofstæki.  Frá seinni hluta 15. aldar og fram á 18. öld voru tugir þúsunda dæmdir til dauða og líflátnir vegna samskipta sinna við Djöfulinn. Konur voru í yfirgnæfandi meirihluta en einnig voru dæmi um karla og börn sem hlutu þessi örlög. Í fyrstu var galdrafólkið brennt lifandi en síðar voru teknar upp mannúðlegri aðferðir, svo sem henging eða eiturgjöf, að loknum pyntingum að sjálfsögðu, og líkin svo brennd. Ísland hefur að þessu leyti sérstöðu, 20 karlar voru brenndir fyrir galdur en aðeins ein kona.

Þekkt eru dæmi um  galdrabrennur  allt frá 13. öld en í fyrstu voru það ekki yfirvöld, heldur hjátrúarfullur almenningur sem ofsótti nornir. Rannsóknarrétturinn var ekki stofnaður í þeim tilgangi að brenna sem flesta heldur til þess að uppræta villutrú. Óttinn við djöfulinn og samband hans við galdrafólk náði að skjóta rótum innan prestastéttarinnar og til urðu miklir sérfræðingar í djöflafræðum. Einn þeirra var  Heinrich Kramer, þýskur klerkur og höfundur hins mikla fræðirits, Nornahamarsins. Ritið lýsir því hvernig Djöfullinn starfar og greinir einkenni galdrafólks.

Á 14. öld var lítil stemning fyrir kenningum um áhrifavald Djöfulsins innan Kaþólsku kirkjunnar en að lokum náðu djöflafræðingar á borð við Kramer þó áhrifum og boðskapur þeirra hafði afgerandi áhrif á réttarkerfið. Rannsóknarrétturinn sendi út skýr skilaboð: Djöfullinn ógnaði réttindum almennra borgara, „velferð þeirra og heilsu með beinum hætti. Þegar slík skilaboð koma frá lykilstofnunum samfélagsins er óhætt að segja að allar viðvörunarbjöllur ættu að vera komnar í gang og vert að staldra við og ræða í alvöru hvernig samfélagið eigi að bregðast við.“ Og það var líka gert. Hreinsun samfélagsins hófst fyrir alvöru og konur voru pyntaðar og drepnar í tugþúsunda tali.

Þótt nútímafólki finnist nornahreinsanirnar grimmdarlegar skyldi enginn efast um heiðarleik dómstólanna. Eflaust hafa komið upp einhver dæmi um að fólk hafi verið líflátið saklaust en það hafa þá verið slysalegar undantekningar. Í flestum tilvikum voru málin rannsökuð og réttað í þeim af lögmætum yfirvöldum og fólk sætti ekki refsingu nema kæmi fram sönnun um að það hefði valdið einhverjum skaða með fordæðuskap eða a.m.k. reynt það. Sannanir fólust stundum í játningum, að undangengnum játningahvetjandi aðgerðum en í sumum tilvikum þurfti enga játningu til. Sönnunargögnin blöstu við allsstaðar. Náttúruhamfarir riðu yfir. Heilu sveitirnar glímdu við uppskerubrest og búfjárfelli. Stúlkur sem höfðu orð á sér fyrir kukl töldu sig eiga harma að hefna og skömmu síðar veiktust fjandmenn þeirra.

Ekki voru allir á einu máli um ágæti þeirra aðferða sem yfirvöld notuðu til að uppræta áhrif Djöfulsins. Einn þeirra sem efuðust var Dietrich Flade, þýskur háskólarektor og borgardómari. Hann efaðist um gildi játninga sem fengnar voru fram með þess tíma hvatningaraðgerðum og hann efaðist líka um að plágur og uppskerubrestur væru bein afleiðing af samneyti galdrafólks við Djöfulinn.

Flade var kyrktur til dauða í Treves, 1589. Það var andstyggilegt verk en nauðsynlegt þó. Menn eins og hann tefja nefnilega framgang réttvísinnar með því að hafna því sem öllum er augljóst, fylgni milli tveggja breyta, svosem djöflamessu og búfjársjúkdóma.

Flade var ekkert sá eini sem dró réttmæti galdramála í efa og olli þannig Kaþólsku kirkjunni óþarfa óþægindum. Og enn í dag glíma yfirvöld og áhrifamenn við raunhyggjumenn sem vilja hindra yfirvaldið í baráttu sinni við djöfulinn. Menn sem eru  voðalega uppteknir af einhverju orsakasamhengi.

Deildu færslunni

Share to Facebook