Fáum vonandi fullvissu fljótlega

Bræður

Ég tók það skýrt fram í viðtali við 365 í dag að ég hefði trú á því að utanríkisráðuneytið væri að leggja sig fram um að hjálpa okkur þótt það hefði byrjað slælega, og mér finnst að það hefði mátt koma fram. Það hefur sýnt sig að í utanríkisþjónustu er „allt sem hægt er“ nokkuð teygjanlegt hugtak sem víkkar verulega þegar aðstandendur verða brjálaðir. Ég trúi því þó að ráðuneytið sé nú komið á rétta braut. Ég hélt í gær að það væru bara allir að fara í helgarfrí en hún Lára hjá Borgaraþjónustunni er búin að vera í stöðugu sambandi við mig í dag og hún er virkilega elskuleg.  Ég bind vonir við að fá fullvissu fljótlega.

Því miður vitum við sáralítið enn og reyndar öllu minna en við töldum okkur vita fyrir einni viku. Skiljanlega eru mjög margir að spyrja hvort eitthvað sé að frétta. Því miður er ekkert að frétta en mér finnst rétt að skýra stöðuna í stuttu máli.

Það sem við teljum hafið yfir vafa:

  • Við vitum að Tyrkir gerðu loftárás á þetta svæði þann 24. febrúar. Ef maður skoðar kortið og þysjar inn sjást mannvirki miðja vegu milli þorpanna Badina og Demilya.
  • Sögum ber saman um að Haukur hafi verið á svæðinu og síðan hefur ekkert til hans spurst.
  • Kúrdar hafa ekki komist inn á svæðið til að sækja lík fallinna félaga.
  • Tyrkir hafa tekið stríðsfanga úr hópum Kúrda.
  • Kúrdar og Tyrkir hafa hirt lík andstæðinga sinna til þess að geta skipt við óvinaherinn.

Helstu vafamál:

  • Ég finn engar áreiðanlegar heimildir um að Tyrkir hafi verið með landhernað í nágrenni Badina þennan dag en samkvæmt Livemap og fólki sem var statt í Afrin voru FSA og ISIS liðar með fótgöngulið og bíla á svæðinu og FSA hefur í reynd farið með yfirráð yfir Badina og nágrenni frá 24. febrúar.
  • Okkar heimildamenn fullyrða að ef FSA eða ISIS hafa tekið lík eða stríðsfanga þá hafi þeir komið þeim í hendur Tyrkja. Það er ákveðinn léttir að eiga a.m.k. ekki von á því að sjá myndband af Hauki í höndum ISIS.
  • Sagt er að þrír menn hafi farið inn á svæðið á meðan loftsprengjum rigndi yfir það, til þess að sækja lík þriggja manna. Ég trúi því ekki. Ég held að þeir hafi ætlað að sækja særða menn.

Þeim sem telja að maður sem stofnar lífi sínu í hættu eigi engan rétt á því að ríkið láti sig hann nokkru varða er bent á að éta það sem úti frýs. Það er einfaldlega skylda ríkisins samkvæmt alþjóðalögum að rannsaka mannshvörf og vofveifleg mannslát. Mér finnst samt rétt að komi fram að það vorum við foreldrar hans Hauks og unnusta sem óskuðum eftir aðstoð Borgaraþjónustunnar við upplýsingaöflun. Haukur yrði áreiðanlega ekkert hrifinn ef hann vissi að íslensk stjórnvöld væru að spyrjast fyrir um hann í Tyrklandi. En jafnvel þótt ég gæti spurt hann álits, myndi ég ekki gera það í þetta sinn.

Share to Facebook

Haukur gæti verið á lífi

Í

Darri bróðir Hauks, Beggi móðurbróðir, mamma og Haukur
á góðri stund heima hjá Borghildi móðursystur.

Fyrir viku taldi ég nánast útilokað að sonur minn væri á lífi. Ég hélt hreinlega að talsmenn hreyfingarinnar sem hann vann með myndu ekki fullyrða það nema það væri hafið yfir vafa. En þegar nánar er að gætt þá virðast þeirra upplýsingar bara byggðar á sögusögnum og getgátum.

Talsmenn IFB fullyrða að Haukur hafi látist í þessari árás 24. febrúar en þeir geta ekki bent á neitt lík og 17 dögum síðar geta þeir ekki gefið upp tímasetningu.

Talsmenn IFB halda því fram að tilkynningin hafi verið birt vegna þess að tyrkneskir miðlar hefðu þá þegar birt frétt þessa efnis. Þeir geta ekki bent á þá heimild og hugsanlega er þetta misskilningur. En hafi Tyrkir í alvöru birt frétt á undan Kúrdum þá þýðir það einfaldlega að Haukur hefur verið pyntaður til þess að gefa persónuupplýsingar sem hann gefur ekki öðrum en þeim sem hann treystir og því aðeins að góð ástæða sé til. Og ef þeir náðu honum lifandi þá er líklegt að hann sé ennþá á lífi. Hann hefur upplýsingar sem Tyrkir myndu gjarnan vilja komast yfir og hann lætur þær ekki fúslega af hendi.

Talsmenn IFB segja að vitni hafi séð Hauk falla. Fyrst átti hann að hafa fallið fyrir skothríð en nú segja þeir að hann hafi látist þegar sprengju var varpað á svæðið. Vitni hljóta að gera greinarmun á þessu tvennu. Þeir hafa ekki talað við nein vitni milliliðalaust og þeir geta heldur ekki bent mér á neina sjónarvotta. Segja bara að vitni muni hafa samband við mig síðar. Það eru semsagt engar áreiðanlegar heimildir fyrir því að Haukur sé látinn. Það gæti allt eins verið að félagar hans hafi bara misst sjónar á honum og ályktað (réttilega eða ranglega) að hann hafi fallið.

Ef var enginn vafi á falli hans, af hverju var þá leitað að honum í öllum sjúkrabúðum?

Ef hann varð fyrir sprengjuregni og ekkert vafamál að hann væri látinn, af hverju fóru menn þá inn á svæðið sem verið var að bombardera? Þeir hljóta að hafa farið til að sækja særða.

Ef þetta var svona mikið á hreinu, hversvegna var þá ekki haft samband við mig? Hversvegna biðu þeir þá í 10 daga með að segja frá þessu?

Fólk sem hefur verið í Rojava segir okkur að það sé engin almennileg skýrslugerð eða utanumhald um upplýsingar hjá andspyrnuhreyfingum þar. Ég held að við getum ekki treyst því að forvígismenn IFB og YPG viti neitt meira en við en auk þess er síma- og netsamband við Sýrland lélegt og stopult og tungumálaerfiðleikar í þokkabót. Það eina sem við getum slegið föstu í augnablikinu er að við vitum ekki hvort Haukur er lífs eða liðinn og við verðum að leita með því hugarfari að hann sé á lífi og í lífshættu.

Share to Facebook

Fréttatilkynning frá aðstandendum Hauks Hilmarssonar

Eins og fram hefur komið í fréttum er talið að Haukur Hilmarsson hafi fallið í skot- og sprengjuárás Tyrkja á sjálfstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi í febrúar. Talsmenn andspyrnuhreyfingarinnar sem Haukur vann með hafa staðfest fall hans en við höfum ekki fengið dánarvottorð og þeir geta ekki bent á neitt lík. Það er ekki líklegt en þó hugsanlegt að Haukur hafi lifað af og sé í höndum Tyrkja. Sú staðreynd að leitað var að Hauki á sjúkrahúsum bendir til þess að einhverjar efasemdir hljóti að hafa verið uppi um andlát hans, einhver taldi sig sjá hann falla en enginn hefur séð lík. Á meðan sú staða er uppi er málið rannsakað sem mannshvarf af hálfu lögreglu á Íslandi.

Aðstandendur Hauks hafa sjálfir grafið upp þær upplýsingar um málið sem hafa fengist staðfestar og sett sig í samband við þær kúrdísku og grísku hreyfingar sem Haukur tengdist. Það er hins vegar ekki heppilegt að fjölskyldan annist samskipti við Natóríkið Tyrkland. Við báðum þess vegna Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins og lögregluna um það á fundi okkar þann 8. mars að hafa samband við yfirvöld í Tyrklandi og fá staðfest að þau séu með líkið og reyna að fá það sent heim.

Móðir Hauks ræddi við Borgaraþjónustu Utanríkisráðuneytisins fyrir hádegi í gær, þann 12. mars. Ráðuneytið var þá búið að hafa samband við ýmis sendiráð og ræðismenn um víða veröld en hafði engar tilraunir gert til að ná beinu sambandi við ráðuneyti í Tyrklandi, hernaðaryfirvöld eða lögreglu. Svo virðist sem ráðuneytið sé að bíða eftir því að ræðismenn hingað og þangað rannsaki málið eftir sínum eigin leiðum. Engin svör hafa fengist með því móti.

Það fékk mjög á fjölskyldu og vini Hauks, að sjá stjórnvöld fara með leitina að líki hans eins og um venjulegan óskilamun væri að ræða, sérstaklega í ljósi þess að þá höfðu komið fram sögur sem gáfu vonarglætu um að Haukur kynni að vera á lífi. Þær upplýsingar reyndust rangar en það gátu starfsmenn Utanríkisráðuneytisins ekki vitað. Móðir Hauks reyndi að ná tali af Utanríkisráðherra rétt fyrir hádegi en hann svaraði ekki síma. Hún sendi honum tölvupóst tæpum þrem tímum síðar þar sem hún krafðist þess að hann beitti sér í málinu og hefði samband við sig. Utanríkisráðherra taldi sig hafa mikilvægari hnöppum að hneppa en að svara henni.

Fjölskylda Hauks átti annan fund með ráðuneytinu og lögreglu kl. 16 í gær. Stjórnvöld höfðu þá haft fjóra daga til þess að spyrja Tyrki hvort þeir séu með líkið eða geti gefið aðrar upplýsingar um afdrif Hauks en ekki gert neina alvöru tilraun til þess. Á fundinum kom fram að fyrirspurn til Sendiráðs Tyrklands í Osló, um afdrif Hauks, hefðu ekki fylgt neinar myndir eða lýsingar á líkamseinkennum sem gætu gagnast við að bera kennsl á líkið. Enn fremur að ekki væru uppi áform um að hafa beint samband við Tyrki eða Nató og að ráðuneytið gæti ekki gefið nein loforð um að útvega aðstandendum símanúmer og netföng ráðamanna í Tyrklandi svo þeir geti lokið rannsókn þessa máls sjálfir. Utanríkisráðherra neitaði að mæta á fundinn en fékkst til þess, eftir þaulsetu aðstandenda í húsakynnum ráðuneytisins og hótanir um fjölmiðlafár, að hitta okkur daginn eftir. Hann ætlaði þó að setja það skilyrði að einungis tveir aðstandendur mættu á fundinn en þeim afarkosti var vitanlega hafnað. Við eigum því fund með ráðherra kl. 15 í dag.

Við viljum þakka starfsfólki Utanríkisráðuneytis og lögreglu fyrir hlýhug og vinsemd sem þau hafa sýnt okkur. Við efumst ekki um samúð þeirra og vilja til að leysa málið en getuleysið er æpandi og ekki að sjá að neinn beri ábyrgð á upplýsingaöflun um málið.

Markmið fundarins í dag er það er að gera Utanríkisráðherra grein fyrir því að þegar ríki sem er í hernaðarsamstarfi við Ísland drepur íslenskan ríkisborgara, þá geti Utanríkisráðherra ekki hegðað sér eins og hernaðaryfirvöld þess ríkis hafi skotið flækingshund. Við krefjumst þess að Utanríkisráðherra sjái tafarlaust til þess að haft verði beint samband við yfirvöld í Tyrklandi og Nató og upplýsinga aflað um það hvort Haukur er lífs eða liðinn. Enn fremur að ef Tyrkir eru með líkamsleifar Hauks, sjái Utanríkisráðherra til þess að þær verði sendar til Íslands.

Fjölskylda og aðstandendur Hauks Hilmarssonar

Share to Facebook

Heimsókn frá IFB

Rauði hringurinn sýnir staðinn þar sem Haukur féll

Þetta var erfiður dagur. Sendinefnd IFB kom til Glasgow. Systkini mín eru enn hjá mér og það er mér dýrmætara en ég átti von á.

Nefndin reyndist ekki hafa miklar upplýsingar fram yfir þær sem við höfum nú þegar en staðfesti staðsetninguna á árásinni. Haukur féll í skotárás úr lofti en þau gátu þó bætt því við að loftsprengjum var einnig varpað á svæðið sem er núna undir stjórn Tyrkja. Haukur féll þar ásamt tveimur öðrum eins og fram hefur komið. Þrír menn fóru síðar inn á svæðið til að reyna að ná í líkin. Þeir særðust og eru nú látnir og þegar búið að birta píslarvottarplaköt af þeim. Mér finnst það vera næg staðfesting á því að það sé nánast útilokað að Haukur sé á lífi.

Þau vita ekki hvort Tyrkirnir hafa varðveitt líkið eða hvort það er bara þarna í rústunum en staðfestu að ef Tyrkir væru með líkið væri ekki ólíklegt að Tyrkir og YPG muni skiptast á líkum. Það er útilokað að segja til um hvort við fáum líkið nokkurntíma en þau lofa því að við fáum dótið hans, segjast samt ekki hafa hugmynd um hvenær verði hægt að koma því til okkar.

Share to Facebook

Sonur minn Byltingamaðurinn

Þessar hugleiðingar birti ég á blogginu mínu 12. september 2003

Sonur minn Byltingamaðurinn ætlar að verða Che Guevara þegar hann er orðinn stór. Honum eru nú sprottin 5 skegghár og fátt þykir honum skemmtilegra en mótmælagöngur. Hann er harmi sleginn yfir neysluhyggju móður sinnar sem telur sig þurfa að eiga fleiri en 4 matardiska fyrir 3ja manna hemili og álítur að sófagarmur á fertugsaldri sé ónýtur, bara af því að botninn er dottinn úr honum. Slík viðhorf þykja syni mínum Byltingamanninum bera vott um spillingu.

Í hans huga eru eingyðistrúarbrögð aðferð myrkraverkamanna veraldarinnar til að kúga og heilaþvo einfeldinga og halda almenningi í fátækt og fáfræði. Og það er sennilega heilmikið til í því hjá honum þótt framsetning þessara hugmynda sé ungæðisleg á köflum. Samt sem áður eru fá kvæði sem hrífa hann jafn mikið og Lilja, og þegar hann syngur:

fyrirlátið mér faðir hinn sæti
fyrirlátið mér eg vil gráta

veit maður ekki almennilega hvort það er fullkomleiki skáldskaparins eða trúarþörfin sem veldur því að andrúmsloftið í kringum hann verður þykkt af angurværð.

Byltingin ólgar í æðum hans. Hugarheimur hans hefur svosem ýmsa afkima en á stóra sviðinu fer fram heilagt stríð gegn óhamingju veraldarinnar sem hann skrifar ýmist á alheimsstjórn Bush Bandaríkjaforseta, almenna neysluhyggju Vesturlandabúa eða útsendara Landsvirkjunar sem hvísla í hjörtum mannanna. Síðustu vikurnar hefur hann samt sem áður stöku sinnum nefnt Kárahnjúkavirkjun á nafn án þess að froðufella af heilagri reiði og hann ræðir æ sjaldnar áætlanir sínar um að sprengja stífluna í loft upp og ráða forkólfa Landsvirkjunar af dögum.

Áhugi hans á skógrækt hefur ekki dvínað og Garðyrkjuskólinn er ennþá inni í myndinni en af og til nefnir hann samt möguleikann á því að fara í Háskólann. Kannski finnst honum líklegra að þar finni hann félaga sem eru til í að liggja með honum í hláturkrampa yfir einhverju spaugilegu atviki úr fornsögunum og rölta með einhverri mótmælagöngunni þegar verðrið er skaplegt.

Þegar strákarnir mínir voru litlir sat ég við rúmin þeirra þegar þeir voru sofnaðir, bara til að horfa á þá sofa. Ég geri það auðvitað ekki lengur. En nú kemur fyrir að ég vakna upp úr miðnætti með son minn Byltingamanninn á rúmstokknum þvi þegar maður er ungur, liggur manni stundum svo mikið á hjarta að það þolir alls ekki að bíða til morguns. (Þess vegna skapaði guð einhleypar konur, til þess að ungir menn hefðu rúmstokk til að setjast á þegar þeim verður mikið niðri fyrir um miðjar nætur.)

Eina nóttina vaknar maður svo við léttan koss á gagnaugað og hvísl í eyra:
– Mér þykir töluvert vænt um þig mamma litla, og áður en maður nær að spyrja um erindið er hann farinn.

Þá vissi ég að hann var orðinn fullorðinn og það er ekki eins sorglegt og ég hélt. Í rauninni er það hreint ekkert sorglegt því börnin hætta ekki að þarfnast manns þótt byltingarólgan í blóði þeirra hjaðni.

Og nú veit ég að þegar ég verð gömul, mun hann aftur setjast á rúmstokkinn hjá mér.

Bara til að horfa á mig sofa.

Share to Facebook