Dauði bloggarans

Alan-Bechtold-840x524

Bloggarinn er dauður. Held ég. Í það minnsta verða bloggheimar aldrei aftur neitt líkur því sem þeir voru fyrir tilkomu moggabloggsins. Í dag tjáum við skoðanir okkar á fréttum með því að skrifa athugasemd í kommentakerfi netmiðlanna eða pósta tengli á facebook og pinterest hentar vel til að safna saman tenglum á allskonar áhugavert efni og deila með vinum og kunningjum.

Árið 2005 hélt ég að út frá blogginu myndi þróast nýtt fyrirbæri í bókmenntasögunni. Gagnvirkar bókmenntir, nokkurskonar bókmenntagrein sem ég kallaði sýndarveruleikaraunsæi. Ég sá fyrir mér að bloggarinn myndi skrifa stuttan texta og láta framhaldið ráðast af viðbrögðum lesenda. Ég gerði tilraunir í þá átt en fékk sjaldan viðbrögð sem kveiktu hugmynd að framhaldi. Bloggið varð aldrei neitt í líkingu við það sem ég sá fyrir mér heldur einungis vettvangur fyrir persónulegar dagbækur,  reynslusögur og pistlaskrif.

Persónulegu bloggin með fréttum úr fjölskyldulífinu, mataruppskriftum og myndum úr sumarfríinu færðust smámsaman yfir á facebook og fleiri og fleiri fóru að skrifa pistla um samfélagsmál eða sérstaka efnisflokka svosem mat, tísku o.fl. Núorðið þarf bloggarinn oftar en ekki að birta skrif sín í stóru nettímariti eða fréttamiðli til þess að fá lestur.

Ég er nánast hætt að skrifa opinberlega en lagði nú samt sem áður töluverða vinnu í þennan vef. Hér vista ég megnið af skrifum mínum frá síðustu 13 árum og á skáldskaparsíðunni er einnig að finna eldra efni. Þegar ég byrjað á þessu var bloggið heimili mitt á netinu. ég var þar öllum stundum. En tímarnir hafa breyst og Norn.is er ekki lengur heimili mitt heldur frekar eins og persónulegt safn með mörgum herbergjum; staður sem ég dvel ekki á en get heimsótt ef ég vil rifja eitthvað upp. Sum herbergin eru galopin, önnur fyrir vini. Hér er líka rúmgóður kjallari; óbirtar síður þar sem hægt er að vista hálfunnið efni og annað sem á ekki erindi við aðra enn sem komið er.

Ég á síður von á því að ég birti neitt nýtt hér á næstunni en ef kemur að því að ég sé möguleika á að nýta lénið þá er ég allavega búin að taka sæmilega til hérna.

Ég ætla ekki að leggja vinnu í að reyna að endurvekja bloggið en auðvitað er hugsanlegt að mér skjátlist svo kannski prófa ég að endurbirta gamalt efni og deila á norn.is á facebook til gamans, bara til að sjá hvort vefurinn fær einhverja umferð.