Nýtt ár

Nýtt ár upprunnið. Síðustu gestirnir fóru kl 6. Ég sofnaði ekki. Ekki enn að minnsta kosti.

Tímamótatilfinningin sem grípur mig alltaf undir miðnætti á gamlárskvöld að hjaðna. Venjulega er hún alveg liðin hjá að morgni 2. janúar. Enda eru áramót svosem ekki merkilegri tímamót en hvert annað miðnætti, bara afsökun fyrir hátíðahöldum, sem er þannig séð ágætt. Og, fyrir þá sem það fíla, ástæða til að setja sér einhver mannbætandi markmið. Ég er nú svona frekar lítið fyrir að strengja áramótaheit sjálf – myndi kannski lofa því að læra á snjallsíma á árinu ef það væri ekki svona langt og erfitt nám. Ég ætla að vísu að vera orðin fullkomin fyrir fimmtugt og hef aðeins 6 mánuði til stefnu en það er vitaskuld ekki áramótaheit heldur aldarhelmingsheit,

Það er ekki mannbætandi ákvörðun og því síður áramótaheit (þar sem loforð til óákveðins tíma eru markleysa) en í dag ætla ég að frysta Facebook-aðganginn minn um óákveðinn tíma. Tímasetningin er ekki alger tilviljun, það er þessi falska hugmynd um að áramót séu tímamót, en ég hefði hvort sem er gert það í fyrstu kennsluviku. Facebook er hentugur vettvangur til skoðanaskipta en ef ég á annað borð er að tjá mig um eitthvað sem skiptir máli, þá finnst mér rétt að fylgja því eftir. Í það minnsta að svara þeim sem koma með áhugaverðar athugasemdir, eða, ef því er að skipta, athugasemdir sem kalla á andsvör. Það er tímafrekt og síðustu árin hef ég ekki tímt að verja miklum tíma í umræður um samfélagsmál. Samt sem áður hef ég hvað eftir annað staðið sjálfa mig að því að skruna niður fréttaveituna oft á dag, þótt ég hafi enga ástæðu til að halda að þar sé neitt áhugaverðara en kisumyndbönd. Það er náttúrulega frekar galið að hafa ekki tíma til að sinna hlutverki sínu sem sérlegur álitshafi en vera samt stöðugt að tékka á því hvort allir sem maður kannast við á netinu séu búnir að tjá sig um nýjasta afrek SDG eða hvort við séum ekki örugglega öll sammála um nauðsyn þess að bæta heilbrigðiskerfið.  Allt sem ég þarf að sjá, sé ég á fréttamiðlunum hvort sem er, og ef einhver segir eitthvað óborganlega smellið, eru 90% líkur á að ég sé nógu nálægt Einari til að heyra hann skella upp úr. Það fer ekkert fram hjá þeim manni sem gerist á Facebook og þótt víðar væri leitað um netheima.

Ég hef alveg tekið mér nokkurra vikna pásu frá Fésinu áður en mér finnst það ekki nóg. Það eru bara meiri líkur á að ég taki upp á því að “kíkja aðeins” ef aðgangurinn er virkur og svo skiptir líka máli að þegar maður er sýnilegur, sendir fólk manni einkapóst og það er ekki krúttlegt að svara ekki pósti.

2016 var harla gott ár í mínu persónulega lífi en enganveginn eftirminnilegt. Ég skrifaði nánast ekkert. Leitin að svarta víkingnum kom loksins út en ég lauk þýðingunni að mestu leyti 2015 svo sú vinna sem fór í hana árinu var aðallega frágangur en ekki neitt sem getur talist beinlínis áhugavert. Námið bara rútína, skemmtilegt og allt það en ekki lengur nýtt. Tyrklandsferðin dásamlegt frí í sólinni en ekki upplifun á borð við Úganda eða neitt þessháttar. Hápunktur? Veit ekki. Kannski laugardagskvöldið með Borghildi og Birgittu í Glasgow. Það versta? Ég ældi í rútu. Það er lúxusár þegar áföllin gerast ekki stærri.

2017 verður fullkomlega osom. Ekki svo að skilja að ég finni það á mér, hvað þá að ég hafi hugmynd um hvernig osomið mun gerast eða hvers eðlis það verður en jú, það verður töluvert betra en harla gott.