Aðdáendur Donalds Trump hafa látið hanna þennan fína bol handa þeim sem vilja sýna stuðning sinn.

Áletrunin „America First“ vísar til andúðar fylgjenda forsetans á innflytjendum og andófs þeirra gegn stuðningi Bandaríkjanna við fátæka og stríðshrjáða í öðrum heimshornum. Eins og vonlegt er eru til Bandaríkjamenn af öllum stéttum sem sjá ofsjónum yfir fjárhagsstuðningi við svæði sem líða fyrir utanríkisstefnu Bandaríkjanna, hernaðarhyggju undangenginna áratuga og umsvif bandarískra stórkapítalista í löndum þar sem menntunarskortur almennings og landlæg spilling ráðamanna gerir fólki ómögulegt að verjast. Bolirnir ættu að auðvelda þeim sem hafa þessa afstöðu að koma henni á framfæri.

Merkið er mynd af huggulegum ránfugli og kallast skemmtilega á við einkennismerki þýska Nazistaflokkins.

Rétt er að benda stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins á að bolirnir fögru eru ekki hannaðir fyrir Sjálfstæðisflokkinn og ólíklegt að það hjálpi honum neitt að klæðast þeim. Það er allt annar ránfugl sem Sjálfstæðisflokkurinn kennir sig við, semsagt fálki en ekki örn.

Vinstra megin á myndinni hér að ofan er núgildandi merki Sjálfstæðisflokksins en eldri gerð merkisins til hægri. Eins og sjá má er nýrra merkið stílfært og kann því að minna á hið stílfærða merki Nazistaflokksins. Þetta er þó alls ekki sami fuglinn og gæti valdið leiðindum að rugla þeim saman. Eldra merkið er heldur ekki fyrirmynd að Trumps-erninum og vafasamt að það hjálpi Sjálfstæðisflokknum hið minnsta að klæðast slíkum bol.

.

Þess má geta að slagorðið America First
er fengið að láni hjá áhugahreyfingu
um mannkynbætur að nafni Ku Klux Klan.