Stundin birti í gær grein eftir Gunnar Hrafn Jónsson undir heitinu Dómstólar Guðs. Efni hennar er það sem í daglegu tali er kallað Sharia-lög, þ.e. lög sem byggð eru á trúarritum Islam. Greininni virðist ætlað að sýna fram á að sú grimmilega refsilöggjöf og lagaframkvæmd sem tíðkast í strangtrúarríkjum múslíma sé eiginlega ekki Islam að kenna.

Kenningin er sú að upphaflega hafi ekki staðið til að framfylgja þessum lögum heldur hafi vald dómstóla aðeins verið „tæknilegt“. Sádar hafi komið „óorði á 1.400 ára gamla lagahefð“ og að bókstafstúlkun Islamska ríkisins og hópa sem aðhyllast svipaða hugmyndafræði og aðferðir, hafi lítið með Islam að gera. Með öðrum orðum; vandamálið er ekki löggjöf sem boðar að fólk skuli krossfest og hýtt, höggvið og grýtt heldur það að öfgamenn vilji framfylgja henni.

Gunnar Hrafn bendir á að „Í hugum margra, ef ekki flestra, múslima þýðir sharia einfaldlega réttlæti.“
Hér er dæmi um hugmyndir fjölmargra múslíma um réttlæti.

Refsilögin koma frá Allah

Eins og Gunnar Hrafn bendir réttilega á tengja Vesturlandabúar Sharia fyrst og fremst við ómannúðlegar refsingar enda þótt Sharía nái yfir alla þætti laga og ýmislegt fleira. Það skiptir þó í sjálfu sér litlu máli. Það sem Sharía-lögum er fundið til foráttu eru annarsvegar lagaákvæði sem fara í bága við mannréttindi og mannúðarsjónarmið og hinsvegar sú hugmynd að lögin komi frá alvaldinu og séu því hafin yfir gagnrýni. Að mínu viti er þessi hugmynd um guðlegt löggjafarvald einmitt stóra vandamálið. Mannanna lögum er auðvelt að breyta en í Islam er það Allah sjálfur sem leggur línurnar og hann hefur ekkert vitkast síðan á 7. öld.

Það versta við grein Gunnars Hrafns er að þrátt fyrir að hann virðist hafa kynnt sér málið vel er kjarninn í henni í skársta falli villandi:

Meirihluti þess sem við köllum í dag sjaríalög eru beinar vísanir í þessa hadíða og eiga því ekki uppruna sinn í meintum orðum Guðs heldur í túlkunum á hegðun manna (Múhameðs og fylgismanna hans).

Það kann að vera rétt að meirihluti Sharía-laga sé ekki úr Kóraninum en grimmdarleg refisákvæði – einmitt þau sem sætt hafa hvað mestri gagnrýni – eru flest byggð á beinum fyrirmælum frá meintum guði og síðan studd enn fremur af frásögnum hadíða. Við skulum bara skoða nokkur dæmi, ég læt nægja að taka eitt dæmi um hvert atriði en fleiri eru til.

Þetta er Leyla Bayat. Hún var hýdd í Íran eftir að Norðmenn synjuðu henni um hæli. Sök hennar var áfengisneysla en refsingin við drykkju byggir á hadíðum. Ætli norsk stjórnvöld hafi haldið að þar með séu lögin svona meira til skrauts? 

Hýðingar

Skírlífisbrot

Kóraninn boðar 100 svipuhögg fyrir skirlífisbrot. Ógift fólk sem hefur mök skal hýtt opinberlega og hinum hórlífu skal ekki hlíft. (Sjá Kóraninn 24:2)

Rangar sakargiftir

Þeim sem ber tilhæfulausa hórdómssök á konu skal refsað með 80 svipuhöggum, samkvæmt Kóraninum. (Sjá Kóraninn 24:4)

Þetta er athyglisvert vers, ekki síst af því að það á eingöngu við ef bornar eru rangar sakir á konu. Óljóst er hvort ákvæðið á við ef sakleysi konunnar telst sannað eða hvort hún skuli njóta vafans. Þetta skiptir máli því annaðhvort gildir refsingin aðeins þegar maður reynir að koma falskri sök á konuna af ásetningi eða þá að það er beinlínis refsivert að geta ekki sannað sök með því að leiða fram fjögur vitni eins og mælt er fyrir um. Sé seinni túlkunin rétt þá styður það þá hugmynd sem Gunnar Hrafn lýsir, að forneskjulegum refsilögum hafi ekki verið ætlað að koma til framkvæmdar nema í algerum undantekningartilvikum. Það hver hin eina rétta og sanna túlkun er skiptir þó í sjálfu sér litlu máli fyrir það fólk sem á yfir höfði sér hýðingu fyrir skírlífsbrot.

Aflimun

Þjófnaður

Kóraninn mælir skýrt fyrir um að þjófar skuli handarhöggnir. (Sjá Kóraninn 5:38)

Stríð gegn Islam

Ennfremur skulu þeir sem hefja stríð gegn Allah og Múhammed og stuðla að spillingu trúarinnar missa bæði hönd og fót. Einnig kemur til greina að krossfesta þá. (Sjá Kóraninn 5:33) Hvað það merkir að berjast gegn Allah og spilla trúnni er ekki á hreinu en það hefur verið túlkað mjög frjálslega.

Þetta myndband sýnir hvernig lögunum er framfylgt í Malí. Skýringin er einföld; þetta eru bara fyrirmæli Allah.

Aftökur

Kóraninn boðar að ýmsir sakamenn, þ.m.t. villutrúarmenn, skuli teknir af lífi. Til greina kemur að krossfesta þá sem berjast gegn Allah (sjá 5:33 hér að ofan). Nokkur vers í Kóraninum tala um að syndugum skuli banað með eldi. Þau vers má með sanngirni túlka sem hótun um Helvítisvist fremur en aftöku með eldi en liðsmenn Islamska ríkisins túlka þau bókstaflega og framfylgja þeim.

Trúlausir og trúvillingar skulu hálshöggnir. Þegar þeir eru gerðir höfðinu styttri í stríði skal svo lausnargjalds krafist fyrir lík þeirra. (Sjá Kóraninn 47:4)

Fyrir þremur vikum létu Sádar hálshöggva 37 meinta „hryðjuverkamenn“  Sá yngsti var 16 ára þegar hann tók þátt í mótmælum gegn stjórnvöldum.

Grýtingar

Grýtingar eru ekki boðaðar í Kóraninum sjálfum en í hadíðum eru til frásagnir af því að Múhammeð hafi látið grýta fólk til bana. Þær eru nokkrar en ég læt nægja að nefna eina stutta sem er talin áreiðanleg. Sú saga segir að bedúínar hafi leitað til spámannsins vegna manns sem hafði framið einhverskonar saurlífi með konu sinni (kannski er átt við endaþarmsmök, ég bara veit það ekki). Faðir brotamannsins hafði reynt að kaupa hann undan grýtingu með búfénaði og ambátt en kennimenn töldu rétt að hýða hann og senda hann í útlegð. Niðurstaða spámannsins var sú að refsing kennimannanna stæði, faðirinn þyrfti ekki að greiða fyrir lausn undan grýtingu en kona sakamannins, sem hafði tekið þátt í brotinu (viljug?) skyldi hinsvegar grýtt til dauða. Var dómnum svo framfylgt. (Sjá Sahih Bukhari Hadíðu nr. 2695)

19 ára stúlka grýtt til bana í Afghanistan fyrir lauslæti ári 2015

Þetta eru aðeins örfá dæmi um hryllileg refsiákvæði sem tekin eru beint upp úr helgum ritum múslíma. Kóraninn á fleiri vers af þessum toga og hadíðurnar bjóða upp á fleiri tegundir grimmilegra refsinga fyrir mun fleiri afbrot en hér hafa verið nefnd.

Gunnar Hrafn er ekkert einn um að telja mikinn misskilning ríkja á Vesturlöndum um hið raunverulega inntak refsilaganna. Sverrir Agnarsson afgreiðir gagnrýni t.d. oft með því að allt sé þetta bara táknmál og ekki á færi þeirra sem ekki kunna arabísku að átta sig á því hvað raunverulega er átt við. Staðreyndin er nú samt sem áður sú að ómannúðlegar refsingar eru byggðar á túlkun kennimanna sem lifa og hrærast í trúnni og hafa ágætt vald á arabísku, sumir jafnvel betra vald en Sverrir. Meintur misskilningur er því fyrst og fremst á ábyrgð þeirra sem kennivaldið hafa, en lítið fer fyrir því að hófsamir áhrifamenn mótmæli lögum af þessu tagi.

Af góðum hug

Hvað gengur Gunnari Hrafni til með því að láta sem vandamálið sé afbökun öfgamanna á annars ágætum textum, fremur en textar sem bjóða beinlínis upp á grimmilegar refsingar og eru eignaðir almættinu sjálfu; óumdeilanlegum einvaldi sem ríkja skal um alla eilífð? Ég þykist vita að Gunnari Hrafni gangi gott eitt til. Gagnrýni á Islam er oftar en ekki beint gegn fylgjendunum og það bitnar alltaf á þeim sem enga ábyrgð bera á ómannúðlegum lögum, réttarkerfi og stjórnarfari og oft á þeim sem mest hafa þjáðst undir þessum skelfilegu trúarbrögðum. Eina „lausn“ þeirra sem óttast Islam, eða hafa ímugust á þeirri menningu sem af henni sprettur, er sú að takmarka eins og mögulegt er aðgang múslíma að Vesturlöndum, sem vitanlega bitnar á fórnarlömbunum. Því miður á sú arfavitlausa stefna góðu fylgi að fagna og það er nauðsynlegt að vinna gegn fordómum í garð múslíma.

Nasrin Sotoudeh var fyrir nokkrum vikum dæmd til 38 fangavistar og hýðingar upp á 148 högg, í Íran. Sök hennar er sú að berjast fyrir rétti kvenna til að ráða því hvort þær hylja hár sitt eður ei.

Gunnar Hrafn er góður maður sem vill hjálpa þeim sem daglega verða fyrir fordómum og mismunun. Ég vil það líka. Gott fólk vill öðrum vel. En að standa með þeim sem byggja trú sína á þeim friðsamlegu og mannúðlegu versum og frásögunum sem sannarlega finnast líka í trúarritum múslíma, þýðir ekki að við megum líta fram hjá þeim viðbjóði sem eðlilegasta og algengasta túlkun ritanna býður upp á. Staðreyndin er sú að ekki í einu einasta ríki sem byggir lög sín á Islam er ástand mannréttinda í viðunandi horfi. Ef við lítum fram hjá rót vandans vinnum við gegn fólki eins og Nasrin SotoudehAyaan Hirsi Ali og Maajid Nawaz.

Rót vandans liggur í þeirri hugmynd að Allah sé alvaldur og skipti aldrei um skoðun, Kóraninn sé hans óspillta orð og Múhammed hin fullkomna fyrrmynd mannkyns. Hvítþvottur á skelfilegustu þáttum trúarinnar vinnur ekki gegn því brjálæði sem slíkar hugmyndir leiða til og getur gert illt verra. Betra væri að stuðla að því að múslímar fari sömu leið og Gyðingar og Kristnir; viðurkenni að trúarritin eru mannanna verk og velji og hafni í samræmi við vestrænar siðferðishugmyndir nútímans.

Þessu tengt: