Nokkrir virkir meðlimir í starfi Þjóðkirkjunnar, bæði prestar og leikmenn sem lýsa sjálfum sér sem trúuðum, hafa talað um það opinberlega að þeir líti ekki á samkynhneigð sem synd. Það finnst mér hið besta mál.

Í þessari yfirlýsingu liggur sú afstaða að Biblían sé ekki orð Gvuðs, heldur gamalt trúarrit sem megi og eigi að endurtúlka í samræmi við tíðarandann. Mér finnst þetta mjög jákvætt því hvað sem allri skynsemi líður er fullt af fólki sem viðurkennir nútímahugmyndir um mannréttindi en vill líka dýrka Jesús og mæta í messur. Auðvitað á fólk fullan rétt á trú og tilbeiðslu og bara frábært að fólk geti iðkað trú sína án þess að ganga á rétt annarra.

Hinsvegar er það nú svo að Íslenska þjóðkirkjan tilheyrir evangelisk-lúthersku kirkjudeildinni og sú kirkjudeild túlkaði lengst af Biblíuna á þann veg að samkynhneigð sé synd og a.m.k. í Bandaríkjunum er sú túlkun enn í fullu gildi.

This church regards the practice of homosexual erotic behavior as contrary to God s intent for his children. It rejects the contention that homosexual behavior is simply another form of sexual behavior equally valid with the dominant male/female pattern.

Sumar kirkjudeildir hafa smámsaman verið að falla frá þessari ógeðslegu skoðun og það gleður mig að heyra að margir trúmenn líti á hana sem úrelta. Vandamálið er að ólíkt skoðun þessara frjálslyndu, kristnu manna eru skoðanir Snorra í Betel í fullu samræmi við túlkun Evangelista. Það eruð þið, kæru mannréttindasinnar sem eruð sjálfum ykkur ósamkvæm. Snorri aftur á móti er trúr þeirri sannfæringu sem trúarsöfnuður hans byggir á. Löglegur trúarsöfnuður. Ef á að fordæma orð Snorra, hlýtur því fyrst að þurfa að fordæma Evangelísku kirkjuna og aðrar kirkjur sem halda fram sömu skoðunum. Það er dálítið erfið aðstaða fyrir skólayfirvöld sem og presta og virka meðlimi Þjóðkirkunnar að fordæma evangelíska biblíutúlkun, allavega á meðan við höfum evangelísk-lútherska þjóðkirkju.

Þegar prestur stígur fram og fordæmir afstöðu Snorra í Betel til samkynhneigðar, vakna eðlilega spurningar um það hver hans biblíutúlkun sé eiginlega. Þetta er ekkert í fyrsta sinn sem deilt er um túlkun Þjóðkirkjunnar og hennar manna á þeim versum sem fordæma mök tveggja karla og nú vil ég bara fara að fá þetta á hreint.

Það er, í alvöru talað, ekki hægt að bjóða almenningi upp á það mikið lengur að vita ekki hvort Þjóðkirkjan lítur á mök samkynhneigðra sem dauðasynd eður ei. Það er heldur ekki hægt að bjóða prestum og öðrum starfsmönnum kirkjunnar upp á það.

Eðlilegast væri að Þjóðkirkjan lýsti sig fallna frá evangelísk-lútherski heimssýn og tæki upp þá trúarstefnu sem séra Baldur Kristjánsson og sennilega yfirgnæfandi meirihluti trúaðra Íslendinga aðhyllist í raun, þ.e. þá skoðun að Biblían sé ekki heilög ritning, heldur gömul bók sem eigi fremur að umgangast sem þjóðsagnasafn en lögbók og að trú og kirkjustarf eigi að taka breytingum í samræmi við þróun mannréttinda og almennra siðferðishugmynda. Með því yrði auðvitað fallið frá þeirri meginreglu að kirkjan eigi að leiða sauðina en ekki öfugt en þar sem sauðirnir virðast í mikilvægum málum öllu réttsýnni en yfirstjórn kirkjunnar, ættu menn að taka þeim breytingum fagnandi.