Sumarið 2020 var þáverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skúli Tómas Gunnlaugsson, sviptur starfsleyfi vegna margháttaðra afglapa í starfi og málinu vísað til lögreglu. Hann fékk fljótlega að fara í endurhæfingu á bráðalyflækningadeild Landspítalans enda þótt lögreglurannsókn væri varla hafin hvað þá lokið. Þar vann hann undir eftirliti í nokkra mánuði, og í maí 2021 fékk hann takmarkað starfsleyfi til sex mánaða. Nú hefur það starfsleyfi verið endurnýjað og gildir í þetta sinn í heilt ár. Lögreglurannsókn stendur enn yfir.

Umfangsmikil endurhæfing

Endurhæfingin hefur greinilega gengið gríðarlega vel og væri sennilega rétt að veita yfirmönnum Skúla á Landspítalanum orðu fyrir það sem þeir hafa áorkað. Það var nefnilega engin smáræðis þjálfun sem Skúli þurfti. Hann þurfti t.a.m. að læra:

 • Að það er ekki æskilegt að taka sjúkling af nauðsynlegum lyfjum og senda hann svo nánast ósjálfbjarga heim.
 • Að gefa sjúklingi ekki ótæpilegt magn slævandi lyfja sem hann hefur ekki þörf fyrir.
 • Að læknisvottorð eiga að vera efnislega rétt.
 • Að læknir á að færa sjúkraskrá reglulega og skrá þar réttar upplýsingar um það helsta sem skiptir máli um meðferð og líðan sjúklingsins.
 • Að þegar sjúklingur reynir með öllum mögulegum aðferðum að hafna meðferð þá getur það verið vísbending um að sú meðferð sé ekki sú besta. 
 • Að jafnvel þótt sú meðferð sé sú besta á sjúklingur rétt á að hafna henni.
 • Að þegar sjúklingur reynir að hafna meðferð sem líkleg til að draga hann til dauða er sérstök ástæða til að hlusta á þær óskir sjúklingsins.
 • Að læknir ætti ekki að gefa öðru starfsfólki fyrirmæli um að synja beiðni aðstandenda um að fylgst sé með vökvainntöku sjúklings sem er orðinn of máttfarinn til að bera sig eftir vökva, eða koma í veg fyrir að haldin sé skrá yfir það hvenær sjúklingi með legusár er snúið.
 • Að læknir sem brýtur gegn starfsskyldum sínum á ekki að kenna sjúklingnum eða aðstandendum hans um.
 • Að þegar einhver kvartar skriflega yfir starfsháttum læknis á læknirinn að lesa bréfið en ekki svara því ólesnu.
 • Að læknir á líka að svara erindum frá Landlækni.
 • Að þegar teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir um meðferð sjúklings á að hafa samráð við það starfsfólk sem best þekkir hann, sem og hann sjálfan og ef það er ekki hægt þá við aðstandendur.
 • Að samtal um framhaldið telst ekki “samráð” nema læknirinn gefi réttar upplýsingar.
 • Að skilyrði fyrir því að setja sjúkling á lífslokameðferð er að hann sé dauðvona.
 • Að lífslokameðferð er ekki félagslegt úrræði.

Hvað þarf til að lækni sé ekki treystandi?

Samkvæmt 17. gr. laga um landlækni og lýðheilsu á heilbrigðisstarfsmaður, sem hefur verið sviptur starfsleyfi, möguleika á að endurheimta það. Skilyrði er þó að þær ástæður sem leiddu til sviptingar eigi ekki lengur við. Skúli er því væntanlega búinn að endurhæfa sig í flestum þessara þátta fyrst hann fær að stunda lækningar. Ég hef ekki upplýsingar um það hvað af þessu er ekki almennilega komið til skila enn. Eitthvað hlýtur það að vera fyrst starfsleyfið er takmarkað, Ekki veit ég heldur hvernig landlæknisembættið komst að niðurstöðu um það hvort þær ástæður sem leiddu til sviptingar ættu ennþá við. Verklagsreglur Landlæknisembættisins um endurveitingu starfsleyfa eru almenningi nefnilega ekki aðgengilegar. Ég er ekki viss um hvort talin er þörf á að halda þeim leyndum fyrir notendum heilbrigðisþjónustunnar eða hvort þær eru varðveittar í munnlegri geymd.  

Samkvæmt fréttum dagsins voru hvorki Landlæknir né fyrirsvarsmenn Landspítalans meðvitaðir um umfang brotanna fyrr en í dag. Það eru reyndar margir mánuðir síðan lá fyrir að maðurinn var grunaður um að hafa sett sex sjúklinga á lífslokameðferð án þess að þeir væru deyjandi. Nú er kominn fram grunur um að fimm til viðbótar hafa fengið svipaða þjónustu. Ég veit ekki alveg hvernig á að skilja þau ummæli að Landspítalinn hafi ekki haft vitneskju um umfang lögreglurannsóknarinnar. Var rannsókn á sex dauðsföllum semsagt ekki nógu „umfangsmikil“ til að yfirmenn hikuðu við að taka ábyrgð á lækninum? En jæja, við vitum þó í það minnsta að Lansinn treystir sér ekki til að taka ábyrgð á starfsmanni sem sendir samstarfsfólki sínu dónaleg skilaboð. Það er svosem ágætt að vita hvar þolmörkin liggja.