Ég var beðin um stutt fréttarant fyrir Lífið á Fréttablaðinu í dag. Þetta hef ég um fréttir vikunnar að segja:

Fréttir sem tengjast skýrslunni um viðbrögð KSÍ við tilkynningum um kynferðisbrot hafa líklega fengið mesta athygli þessa vikuna. Það sem mér finnst áhugaverðast við það mál er flötur sem fjölmiðlar telja sennilega lítt smellvænan, þ.e. að héraðsdómari skuli fara fyrir nefndinni. Það var fyrirséð að hver sem niðurstaðan yrði myndi skýrslan vekja harðar deilur, annaðhvort ásakanir um gerendameðvirkni eða árás á réttarríkið. Dómari sem lendir í þeirri eldlínu mun aldrei geta dæmt kynferðisbrotamál héðan af án þess að verða sakaður um hlutdrægni. Kannski er tímabært að skipa nefnd til að rannsaka aukastarfamenningu dómara því þetta er svo íslenskt að flestir leiða ekki einu sinni hugann að því.

Sú frétt sem mér finnst áhugaverðust snertir heimildanotkun Ásgeirs Jónssonar í nýrri bók um landnám Íslands. Bergsveinn Birgisson var fyrstur til að færa rök fyrir því að rostungaveiðar hefðu gegnt stóru hlutverki við landnámið og stórfurðulegt að geta hans ekki. Ef ásakanir um ritstuld eru tilhæfulausar ætti fræðimaðurinn að geta borið þær af sér en hann hefur engu svarað efnislega og er hættur að mæta á kynningar. Þetta er allt frekar vandræðalegt.