Gefum okkur að „rétt mál“ sé það sem málsamfélagið kemur sér saman um. Látum andartak sem málsamfélagið (með ákveðnum greini) sé raunverulega eitt samfélag þar sem víðtæk sátt ríkir um beygingar, framburð, setningagerð og merkingu orða. Sum orð skipta eðlilega um merkingu með breyttum tímum (búð, sími, að pæla o.s.frv.). Við sem súpum hveljur yfir því að merking orða hverfi, t.d. þegar húnn er kallaður bjarnarungi, verðum þá bara að halda kjafti enda stöndum við víst utan „málsamfélagsins“ og þegar allt kemur til alls eru dæmi um bjarnarunga á tímarit.is.

En hvað með orðtök og málshætti sem spretta úr menningu fortíðar – verða afbakanir á þeim réttar þegar margir taka þær upp? Stundum skiptir ekki höfuðmáli upp á merkinguna þótt eitthvað skolist til. „Dropinn holar steininn“ eða „dropinn holar harðan stein“ – merkingin er sú sama.

Stundum geta málshættir líka haldist óbreyttir þótt merkingin breytist að einhverju leyti. „Betra er autt rúm en illa skipað“ getur röklega alveg vísað til mikilvægis þess vanda til makavals enda kannski fleiri í þeim sporum þessi árin að finna ekki ákjósanlegan maka en þeir sem þurfa að ráða menn í skipsrúm.

En geta orðtök og málshættir orðið „rétt“ þegar myndmálið verður fáránlegt? Getur talist rétt að „berjast á banaspjótum“, „bíta í það súra enni“ eða „að tala fyrir tómum eyrum“ ef nógu margir taka slíkar samsetningar upp í algjöru hugsunarleysi?