Giesecke svarað – 4. þáttur

Þann 17. apríl sl. birti netmiðilinn UnHerd viðtal við ráðgjafa sænskra stjórnvalda í kórónumálum, faraldursfræðinginn Johan Giesecke. Ég hef þegar skoðað hluta af rökum hans og er tengt á þá pistla neðst í greininni. Í þetta sinn eru það hjarðónæmisrökin sem ég tek fyrir.

Meðal raka Gieseckes fyrir því að ráðgjöf hans sé skotheld eru eftirfarandi staðhæfingar sem allar lúta að hjarðónæmi.

  • Sú stefna að vernda áhættuhópa en beita annars mjög hóflegum samkomutakmörkunum mun á endanum leiða til hjarðónæmis, þótt það sé ekki markmið heldur afleiðing.
  • Upphafleg stefna sem Bretar tóku, áður en þeir tóku u-beygju í málinu, var betri en sú að herða á varúðaraðgerðum.
  • Þegar hægt verður að gera mótefnamælingar á stórum skala mun koma í ljós að minnsta kosti 50% þýðisins, bæði í Bretlandi og Svíþjóð hafa þegar smitast.
  • Niðurstaðan verður á endanum svipuð í öllum löndum.

Verndarstefnan

Fyrir það fyrsta: Svíar hafa ekki frekar en aðrir borið gæfu til að vernda aldraða.

Þeir sem bera í bætifláka fyrir þessa glórulausu stefnu kenna einkarekstri í öldrunarþjónustu um; allt helvítis einkaaðilum að kenna, ef ríkið hefði séð um gamlingjana væri allt í lukkunnar velstandi.

Ég hef ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að ríkisstofnanir standi sig betur en einkaaðilar að þessu leyti. En það skiptir í sjálfu sér litlu. Það sem hér skiptir máli er að það er ekki ný uppgötvun að öldrunarþjónusta sé að stórum hluta einkarekin í Svíþjóð. Það lá fyrir þegar Giesecke og Tegnell hófu þennan guðaleik sinn.

U-beygja Breta

Grein Imperial College, sem var stór hvati að því að Bretar ákváðu seint og um síðir að grípa til harðra aðgerða, er auðvitað gagnrýniverð. Módelið sem notað var er ekki gott og forsendurnar sem gengið var út frá reyndust sumar rangar eða vafasamar. Það er t.d. ekki ennþá vitað hver smithættan raunverulega er, en hún virðist miklum mun minni en fyrst var talið. En þótt greinin sé gölluð er ég samt þakklát fyrir að eitthvað skyldi verða til þess að vekja bresk stjórnvöld af dvalanum. Það var því miður of seint til þess að kæfa veiruna eins og virðist hafa tekist í Noregi, Þýskalandi og fleiri löndum, en á þeim tíma var útbreiðsla veirunnar í Bretlandi í óheftum veldisvexti og ef ekkert hefði verið að gert hefði heilbrigðiskerfið sennilega lent í sömu þrengingum og á Ítalíu og Spáni. Nógu slæmt er það samt.

Myndin hér að ofan sýnir fjölda dauðsfalla af völdum kórónuveiru í nokkrum ríkjum Evrópu þann 15. apríl sl., um það leyti sem viðtal UnHerd við Giesecke var tekið. Miðað við þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma er með ólíkindum að hann hafi látið það út úr sér að sú ákvörðun Breta að herða á varúðaraðgerðum hafi verið röng.

Var hjarðónæmi einhverntíma raunhæft?

Fyrir leikmanni getur hjarðónæmi hljómað sem frábær lausn. Náttúruleg bólusetning. Það eina sem þarf er að nógu mikill fjöldi ungra hreystimenna smitist og hristi veikindin af sér, þá mun ónæmi þeirra vernda vesalinga og vandinn úr sögunni, allir kátir.

En þótt við látum fórnarkostnaðinn liggja milli hluta er þetta kannski ekki alveg svona einfalt. Giesecke vissi vel að það var ekkert á vísan að róa með að hjarðónæmi myndaðist yfirhöfuð, hvað þá að það entist til langframa. Margir sérfræðingar bentu á þá staðreynd að ónæmi gegn kórónuveirum endist sjaldan lengi. Meðal þeirra var Astrid Iversen, ónæmisfræðingur við Oxford. Í samtali við Berlingske, sagði hún að það gæti tekið fimm ár að mynda hjarðónæmi. Jafnframt lýsti hún áhyggjum af því að ekkert myndi ávinnast með stefnu sænskra stjórnvalda en hinsvegar gætu Svíar reiknað með 70 þúsund andlátum af völdum veirunnar á fimm ára tímabili ef ekki yrði gripið til hertra aðgerða.

Og nú er komið í ljós að sú hugmynd Gieseckes um miðjan apríl að 50% Svía væru þá þegar ónæmir voru ekkert nema draumórar. Mótefnamæling í lok apríl sýndi að aðeins 7,3% Stokkhólmsbúa höfðu þá myndað ónæmi.

Verður niðurstaðan á endanum sú sama allsstaðar?

Kórónuveiran hegðar sér mjög undarlega. Smitum virðist fækka í Svíþjóð eins og annarsstaðar, þrátt fyrir að ekkert hjarðónæmi sé í augsýn.

Svona er staðan í dag þann 24. maí. Ef eitthvað er dregur sundur með Svíþjóð og Bretlandi, þrátt fyrir að hertar aðgerðir hafi verið teknar upp í Bretlandi síðustu vikuna í mars.

En skýringin er ekki hjarðónæmi. Skýringin á því að Svíþjóð er ekki í miklu verri málum en Bretland er ekki sú að sænsk heilbrigðisyfirvöld hafi vitað betur en aðrir eða gripið til skynsamlegri aðgerða. Við getum aftur á móti reiknað með því að ef Svíar hefðu strax í upphafi gripið til sömu ráðstafana og Norðmenn þá væri þeirra kúrfa líkari þeirri norsku en þeirri bresku.

Það má vel vera að niðurstaðan verði á endanum sú sama allsstaðar. En á þessari stundu ekki hægt að slá því föstu. Því síður er hægt að slá því föstu að sú útkoma verði afleiðing hjarðónæmis. Það sem við vitum þó er að hjarðónæmi í lok júní er ekki líkleg afleiðing sænsku leiðarinnar eins og sóttvarnaryfirvöld þar héldu fram.

Þegar þetta er skrifað eru meira en 4043 látnir af völdum kórónuveirunnar í Svíþjóð. Ef þróunin hefði orðið sú sama og í Noregi væru 435 látnir. Og svarið sem ástvinir þessara 3608 sem eru dánir en væru annars á lífi er þetta – já en á endanum verður útkoman sú sama allsstaðar.

Sannleikurinn er sá að við vitum bara ekkert um það hver útkoman verður. Og ef hún verður sú sama allsstaðar þá er skýringin að minnsta kosti ekki sú að ráðgjöf Gieseckes hafi verið til fyrirmyndar.

Fyrri pistlar í þessari röð: