Í sögubókum framtíðarinnar verða áratugirnir í kringum þúsaldamótin kallaðir ‘framstigningaöldin’. Allavega í kristnisögunni. Allt í einu stigu allir fram og sögðu hryllingssögur þótt kynslóðum saman hafi allir þagað þunnu hljóði og ekki stigið eitt einasta skref nema hugsanlega í vænginn við kirkjuna.

Ég var í 6. bekk þegar við fluttum til Hjalteyrar. Þetta var ponkulítið þorp, 50-60 manns með börnum. Við gengum í skóla með börnum úr sveitinni, vorum á bilinu 5-12 í hverjum bekk.

Á þeim tíma ráku klikkuð aðventistahjón barnaheimili á Hjalteyri. Þegar ég flutti þangað voru bara þrjú börn á heimilinu en mér skilst að þau hafi verið 6 eða 7 veturinn áður. Það voru aðallega börn sem höfðu búið við erfiðar heimilisaðstæður á einhvern hátt sem voru send í vistun hjá þessum útsendurum Gvuðs almáttugs.

Á heimilinu var stelpa sem var jafn gömul mér. Hún fór með veggjum og ég varð ekki mikið vör við hana. Ég hafði sjálf verið félagslega einangruð í 2 ár áður en ég kom til Hjalteyrar og var upptekin af því að hafa skyndilega eignast vini og í marga mánuði hugsaði ég ekkert út í það hversvegna hún og strákarnir á heimilinu voru aldrei með okkur hinum utan skólatíma.

Einn daginn vorum við að koma okkur fyrir í handavinnutíma þegar ég uppgötvaði að ég hafði týnt nálinni minni. Ég nennti ekki heim til að sækja aðra nál en þessi stelpa var með aukanál og ég bað hana að lána mér hana. Hún varð við bóninni, hugsanlega hefur hún verið hikandi en ég tók allavega ekkert eftir því. Svo hringdi bjallan, ég flýtti mér heim og gleymdi að skila nálinni, hef áreiðanlega ekki einu sinni hugsað út í það.

Daginn eftir rukkaði stelpan mig um nálina. Ég var ekki með handavinnudótið en sagðist koma með nálina næsta dag. Ég var dálítið hissa á að hún skyldi nefna þetta því ég vissi að nálin sem hún lánaði mér hentaði ekki í það verkefni sem hún var að vinna. Hún sagði mér að staðarhaldarinn vildi fá nálina strax og spurði hvort við gætum orðið samferða heim og komið við hjá mér (hún átti hvort sem var leið fram hjá húsinu) og hún beðið á meðan ég hlypi inn og sækti nálina. Jújú það var svosem í lagi en það var fyrst þegar við komum að húsinu heima sem rann upp fyrir mér að það væri eitthvað óeðlilegt í gangi. Ég ætlaði að bjóða henni inn í ‘drekkutíma’ en hún vildi ekki koma inn. Það var nú kannski ekki dularfullt út af fyrir sig því mörgum börnum var uppálagt að koma beint heim úr skólanum og það var ekki sjálfsagt á öllum heimilum að börn fengju að bjóða vinum sínum að leika inni en hún vildi ekki einu sinni koma og bíða við dyrnar. Hún stóð uppi á vegi á meðan ég fór og sótti nálina. Ég var náttúrulega búin að týna handavinnupokanum og var smástund að leita að honum og stelpan virtist mjög stressuð þegar ég kom út með nálina. Hún tók við henni og hljóp svo heim á harðaspretti, engu líkara en að hún væri dauðhrædd.

Ég er fyrst núna að gera mér grein fyrir því hvað það hefur verið óvenjulegt en móðir mín hlustaði á mig. Þegar ég sagði henni frá nálinni og að stelpan hefði viljað bíða uppi á vegi, sagði hún að sjálfsagt væri nauðsynlegt fyrir barnaheimili að að hafa strangar reglur um að börnin kæmu beint heim og kannski væri stelpan bara mjög hlýðin. Hún sagði mér að bjóða henni heim næsta dag, hún gæti farið heim og klárað að læra fyrst en komið svo í heimsókn þegar því væri lokið.

Þegar ég bauð stelpunni heim, sagðist hún ekki geta komið því hún hefði svo mörg skyldustörf heima. Hún fékk ekki leyfi til að heimsækja mig um helgina heldur, brjálað að gera heima. Mamma taldi fyrst að ástæðan væri sú að hún var trúleysingi og lá ekkert á skoðunum sínum um kristindóminn en eitthvað var þetta nú samt flóknara því á næstu vikum kom í ljós að börnin máttu heldur ekki heimsækja neinn annan og þau máttu heldur ekki fá gesti nema barnaheimilið byði sérstaklega upp á eitthvert kristilegt prógramm fyrir krakkana á staðnum.

Ég fór að spyrja stelpuna út í aðstæður og reglur á heimilinu og einn daginn féll hún saman og trúði mér fyrir því að aginn þar væri ekki í neinu samræmi við það sem við hin þekktum. Þetta var allt voða loðið, eitthvað um að þau ættu að lesa svo og svo langan tíma í hverri skólabók enda þótt ekkert hefði verið sett fyrir og þrífa eitthvað sem var ekki óhreint bara til að ‘læra að hlýða’. Ekki var þeim hlíft við guðsorðinu sem á þeim dundi við öll möguleg tækifæri, þau voru stundum slegin og svo var eitthvað í sambandi við hárbursta (það var þá sem hún féll saman.) Ég fékk engin smáatriði upp úr henni en það var greinilega eitthvað mikið að því hún grábað mig að kjafta ekki frá enda þótt hún hefði ekki sagt mér neitt sem hægt væri að kjafta frá. Ég gerði það rökrétta í stöðunni, fór grenjandi heim og kjaftaði frá og bað mömmu að ‘gera eitthvað’.

Og móðir mín gerði eitthvað. Hún talaði við fólk sem þekkti til (sem vildi náttúrulega ekkert skipta sér af þessu), fór svo í skólann og náði tali af börnunum og sannfærðist um að ég hefði ekki oftúlkað neitt. Svo hafði hún samband við fjölskyldur þeirra. Foreldrarnir höfðu ekki vitað betur en að allt væri í himnalagi og kannski voru þeir ekkert færir um að gæta barna en mamma tók þá afstöðu að það væru barnaverndaryfirvöld en ekki refsiglaðir trúarnöttarar sem ættu að gæta hagsmuna þeirra. Börnin fóru til ættingja sinna en móðir mín lét ekki þar við sitja, hún ákvað að uppræta þetta barnaheimili í hvelli. Og það gerði hún.

Hvernig fór hún að því? Hversvegna þaggaði kirkjan ekki málið í hel? Jú það var vegna þess að móðir mín vissi að kirkjan er ekki lögga. Það var aldrei neinn grunur um kynferðislega misnotkun. Aldrei neinn grunur um neitt refsivert, bara fullkomlega lögleg andstyggilegheit. Samt datt móður minni ekki í hug að kirkjan væri rétti aðilinn til að leysa málið. Hún hafði samband við barnaverndaryfirvöld enda eru það þau sem eiga að vernda börn. Kirkjuliðið reyndi jú, mikil ósköp. Kona prestins í sveitinni var skólastjóri, hann kenndi sjálfur við barnaskólann og vildi endilega ‘finna lausn’ (les. þagga niður í henni) en móðir mín sagði honum skýrt og skorinort að hún ætlaði ekki að láta klikkaða kristlinga (sennilega hefur hún notað töluvert satanískara orðalag) komast upp með að fara illa með börn. Hún hótaði ekki að sækja lögguna, hún hótaði að sækja blaðamann.

Hvað sem annars var í gangi á þessu undarlega heimili, þá var það allavega eitthvað sem almenningur mátti ekki vita. Enginn vildi blanda fjölmiðlum í málið og stuttu síðar fluttu kristlingarnir af staðnum. Eftir brotthvarf þeirra notuðu nokkrir hippar gróðurhúsið þeirra til að rækta kærleiksblóm og allir lifðu hamingjusamir upp frá því. Eða ekki.

Ég hef aldrei litið á þetta framtak móður minnar sem hetjudáð. Hún bara neitaði að láta ljóta hluti viðgangast og hótaði að gera allt vitlaust, það þurfti ekki meira til. En eftir á að hyggja hefur það sennilega verið ofurmannlegt af henni að láta sér ekki standa á sama og ennþá ofurmannlegra að gera eitthvað róttækara en að klaga í kirkjuna. Hún stóð ein í þessu og það er töff.

Móðir mín heyrði ekki orðið aktivisti fyrr en barnabörnin hennar fóru að skipta sér af umhverfismálum en aktivisti var hún nú samt. Því aktivisti er sá sem grípur til beinna aðgerða í þeim tilgangi að breyta samfélagi sínu og uppræta óréttlæti. Það eru aðgerðasinnar sem breyta heiminum. Ekki kirkjan, ekki löggan ekki Alþingi, heldur fólk sem neitar að loka augunum og kynnir sér málin þótt þau séu óþægileg. Fólk sem bíður ekki eftir því að grýlan stökkvi niður úr turni eða að kennivaldinu þóknist að íhuga þann möguleika að vel gefnir menn og myndarlegir séu ekki allir þar sem þeir eru séðir. Fólk sem segir það sem aðrir láta sér nægja að hugsa og gerir það sem aðrir láta sér nægja að tala um. Það er fólkið sem breytir heiminum og maður þarf ekki að vera ríkur, gáfaður eða voldugur til þess, maður þarf bara að hafa snefil af réttlætiskennd.

Myndin er af Miklagarði á Hjalteyri þar sem fjölskylda mín bjó. Við enda vegarins er Richardshús en það sést ekki á myndinni.