Sömu laun fyrir sömu vinnu. Sanngjörn krafa, eðlileg krafa og þótt þeir séu til sem sjá ekkert athugavert við lægri meðallaun kvenna en karla, þá skýra hinir sömu það alltaf með öðrum þáttum. Konur taki fleiri veikindadaga, minni yfirvinnu, hafni ábyrgðarverkefnum o.s.frv. Auðvitað eigi að greiða konum og körlum sömu laun fyrir sömu vinnu.

Lítið hefur hinsvegar heyst um nauðsyn þess að fólk hljóti sömu dóma fyrir sömu glæpi. Karlar fylla fangelsin, ekki bara vegna þess að þeir séu að eðlisfari glæpahneigðari en konur, heldur líka vegna þess að þeir alast upp við minni aga og meira umburðarlyndi gagnvart andfélagslegri hegðun í æsku, flosna frekar upp úr skóla, búa við minni væntingar um að þeir taki ábyrgð á börnum sínum, leita sér síður hjálpar vegna andlegra og félagslegra erfiðleika, eiga að jafnaði erfiðara uppdráttar félagslega, eiga greiðari leið inn í fíkniefnaheiminn, hafa betra aðgengi að vopnum og fá harðari dóma en konurnar.

En það er nákvæmlega sama hversu ömurleg staða karlmannsins er, alltaf skulu niðurstöður kannana túlkaðar þannig að konan sé hið raunverulega fórnarlamb. Ég hef ekki lesið ritgerð Helgu Völu en ef marka má þessa frétt gætir þessarar tilhneigingar til fórnarlambsvæðingarinnar einnig hjá henni:

Helga Vala segir að sú linkind sem konum er sýnd í refsikerfinu byggist á miskilinni umhyggju. Vegna þess að það sé tekið svo vægt á brotum þeirra fari konur á mis við það forvarnar- og betrunargildi sem á að felast í refsingum sé beitt við afbrotum.

Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég las þetta. Er EITTHVAÐ sem bendir til þess að fólk sem lendir í fangelsi sé öðrum líklegra til að snúa af glæpabrautinni? Er EITTHVAÐ sem bendir til þess að fangelsi hafi forvarna- eða betrunargildi? Lögin gera ekki einu sinni ráð fyrir því að tilgangur fangavistar sé betrun, þetta heitir refsivist og tilgangurinn er refsing.

Fleiri konur í stjórn Landsvirkjunar, fleiri konur í fangelsi. Við getum reiknað með þeirri þróun og þegar hlutfallið er orðið 50/50 getum við stært okkur af árangri í jafnréttismálum. Hvort þessháttar réttlæti er vegurinn að betri veröld, það á svo eftir að koma í ljós.