Aðalmeðferð í stóra vegatálmunarmálinu heldur áfram í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudag. Sýslmundur á eftir að leiða fram eitt vitni, algert lykilvitni að sjálfsögðu.

Margt bloggvert kom fram í síðustu umferð en eðli málsins samkvæmt verð ég að bíða með að birta þær færslur þar til dómur er fallinn.

Verjandinn okkar telur víst að í engu öðru sýslumannsumdæmi á landinu hefði verið tekin ákvörðun um að fara með jafn ómerkilegt mál fyrir dóm. Nú vill svo til að ákæruvaldið er sami maður og varð frægur af endemum þegar hann fékk þá kreativu hugmynd að láta mikinn liðssöfnuð vaða upp í klof konu og ná úr henni þvagsýni með valdi. Mér finnst það fremur ógeðfellt en það kemur ekki þessu máli við og það er auðvitað óþarfa hysteria að ímynda sér að sómamaður, sem ber þá virðingu fyrir almennum mannréttindum sem dæmin sýna, sé líklegur til að misnota þá aðstöðu sína að eiga eitt vitni eftir.

Annars hef ég alltaf gaman af sérstöku fólki og það vill svo skemmtilega og skáldlega til að öll framganga Sýslmundar í réttarsalnum er í nokkuð góðu samræmi við ímyndina af Þvagleggi sýslumanni. Hann tók t.d. að sér að atyrða mig, með gestapósvip, fyrir það að einhver annar úr hópnum hefði tekið banana með sér í réttarsalinn. Slíkar ofanísetningar eru ekki í verkahring Þvagleggs sýslumanns og þetta var sérlega pínlegt þar sem hann gjammaði á mig í framhaldi af almennri og vinsamlegri athugasemd Dómhildar. Eins og lesendur rennir nú sennilega í grun urraði amma all illilega á skrattakollinn á móti.

Þegar Dómhildur tók þá fáheyrðu ákvörðun að fresta því að ljúka aðalmeðferð (í smámáli þar sem ströngustu refsiákvæði hljóða upp á smávægilegar sektir) varð einhverjum að orði, að frestun byði upp á að ‘lykilvitnið’ fengi ábendingar um það hvaða tilsvör gætu þjónað málstað ákværuvaldins, út frá vitnisburði allra annarra vitna í málinu. En, eins og Dómhildur orðaði það; þetta vitni hefur sömu skyldu og aðrir til að segja satt og rétt frá atburðum. Jamm, þar með þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því.

Ég hef svosem ekki misst svefn út af þessu máli. Mér finnst þó athyglisvert að það skuli litið nógu alvarlegum augum til að aðalmeðferð sé frestað eftir að hún hefst, því þetta er í fyrsta sinn á 46 ára starfsferli sem verjandinn okkar lendir í því. Fimmtudagurinn verður athyglisverður, hvernig sem allt fer.

Þessu tengt: