Nýtingarfasistinn 2. hluti

Síðasta fimmtudag lofaði ég stuttum vitaskuldafærslum handa þeim sem vilja hætta að henda mat.

Fyrsta verkefnið var að fá yfirsýn yfir það hvaða matur er til á heimilinu og hvað þarf að nýta sem fyrst. Þetta þarf maður stöðugt að gera ef maður ætlar að komast hjá því að henda mat en ef maður gerir það reglulega verður það aldrei neitt mál. Það verður svo ennþá minna mál ef maður kaupir aldrei svo mikinn mat að það verði flókið að finna not fyrir hann. Þessvegna er verkefni nýtingarfasistans næstu vikuna að skipuleggja innkaupin.

1  Gerðu matarplan fyrir vikuna

Þegar þú veist hvað er til í skápunum og setur saman matseðil fyrir næstu daga með tilliti til þess, þá nýtirðu ekki bara mat sem annars færi í ruslið –  þú sparar líka tíma. Þeir sem hafa enga yfirsýn lenda nefnilega af og til í því að uppgötva að hveitið er búið og kartöflurnar farnar að spíra, þegar á að fara að elda og það kostar aukaferð í búðina.

2  Notaðu innkaupalista

Ekki koma við á heimleiðinni og versla eftir minni. Gerðu innkaupalista og ef þú notar snjallsíma vertu þá með listann í símanum svo hann gleymist ekki.

3  Ekki kaupa ferskvöru sem þig vantar ekki

Haltu þig við innkaupalistann þegar þú kaupir ferskvöru. Ef þú rekst á eitthvað sem gæti verið sniðugt að eiga, eða tilboð sem þú getur ekki hafnað, veltu því þá fyrir þér hver muni borða það og hvenær, og hvort eitthvað annað fari þá í ruslið í staðinn, áður en þú setur það í körfuna.

Hættu að kaupa mat bara til að eiga eitthvað í ísskápnum.  Ef ávextir, brauð, jógúrt og annað sem þú reiknar með að börnin narti í á milli mála skemmist, þá er greinilega minni þörf fyrir það en þú hélst. Finndu út hversu margar brauðsneiðar, epli o.sfrv. þið notið raunverulega og hagaðu matarinnkaupum eftir því. Mjólkurmatur og brauð eru stærstu vöruflokkarnir sem fara í ruslafötur Norðmanna og líklega er það eins á Íslandi.

4  Ekki kaupa jurtakrydd, olíur og tilbúnar sósur bara svo það sé til heima 

Á flestum heimilum þar sem ég hef eldað eru til 10-20 glös af ónýtu kryddi, eldgamlar sósur og olía sem er farin að þrána. Þurrkaðar kryddjurtir eins og oregano og rosemarin, fara að missa bragð eftir 5-6 mánuði. Það er kannski ekki dýrt að kaupa eitt kryddglas en þegar þú hendir 10 glösum af kryddi eða þarft að nota þrjár matskeiðar til að fá eitthvert bragð úr því, þá er það orðinn dálítil fjárhæð. Kauptu það sem þú veist að er í stöðugri notkun en geymdu annað þar til þú veist hvenær það verður notað.

Lélegar afsakanir

Ég hef heyrt nokkrar afsakanir fyrir því að skipuleggja ekki matarinnkaup, hverja annarri ótrúverðugri. Ein vinkona mín hélt því lengi fram að það væri betra að ákveða á staðnum hvað hún vildi kaupa því þá gæti hún betur nýtt sér tilboð. Ég hef reynt þá aðferð en sannleikurinn er sá að það er miklu hagkvæmara að vita nokkurnveginn hvað maður ætlar að kaupa. Ef þú skipuleggur ekki innkaupin er mun líklegra að þú kaupir of mikið og/eða vörur sem passa ekki með neinu af því sem þú átt heima og þá endar hellingur í ruslinu. Það er vel hægt að leyfa sér ákveðinn sveigjanleika. Ef þú ætlaðir að kaupa appelsínur en sérð melónu á tilboði þá bara kaupirðu melónuna í staðinn. Þú þarft heldur ekkert að sleppa því að kaupa hrísgrjón eða dósamat ef þú sérð gott tilboð þótt það sé ekki á listanum en það er ekkert vit í því að safna mat sem skemmist.

Önnur algeng afsökun er sú að það sé svo tímafrekt að skoða í skápana og gera innkaupalista. Kommon… það er ekki tímafrekara að skrifa innkaupalista en að hringja heim til þess að spyrja hvort sé til sinnep heima eða fara þrjár ferðir í búðina vegna þess að maður mundi ekki hvað vantaði. Ef þú ert ekki viss er líka hætta á að þú kaupir ýmislegt „til öryggis“ og þeir sem kaupa of mikinn mat þurfa að henda.

Ef þér finnst þú ekki hafa tíma til þess að skipuleggja innkaupin og finna not fyrir það sem mun skemmast á næstunni, eða ef þú ætlar að fresta því þar til í næstu viku, spurðu þá hvort þér finnist í fullri einlægni allt í lagi að henda tólfhundruðkalli á hvern fjölskyldumeðlim í þessari viku. Það er nefnilega upphæðin sem meðalmaðurinn  hendir, varlega áætlað.