Nýtingarfasistinn 1. hluti
Fréttir af matarsóun heimila eru kannski pínulítið ýktar. Samkvæmt breskri rannsókn sem oft hefur verið vitnað í undanfarið, hendum við þriðjungnum af því sem við kaupum. Inni í þeirri tölu er þó ýmislegt sem fæst okkar munu nokkurntíma nýta, svosem ávaxtahýði og kaffikorgur. Sóunin er engu að síður geigvænleg. Bretar henda rúmlega 20% af nýtanlegum matvælum sem þeir kaupa (semsagt þegar búið er að draga ruslið frá) og Norðmenn um 25%. Þá erum ekki að tala um verslanir, stofnanir og veitingahús heldur venjuleg heimili en þau henda aðeins broti af því sem fer á haugana.
Heimilin henda mat fyrir 20 milljarða á ári, kannski meira
Við höfum enga ástæðu til að ætla að ástandið sé neitt skárra á Íslandi en í nágrannalöndunum og ef við hendum um 20% af nýtanlegum mat, þá samsvarar það 20 milljörðum á ári. Um það bil 62.500 kall á kjaft, Það gera 250.000 á fjögurra manna heimili -góðan daginn! Og helstu ástæðurnar fyrir allri þessari sóun eru misskilningur og hugsunarleysi. Frekar afdrifaríkt hugsunarleysi því vandamálið er ekki bara sóun heldur líka umhverfisspjöll.
Ég efast um að hækkun matarverðs sé farsæl lausn á þessu vandamáli og tel reyndar líklegt að sú aðferð myndi bitna verst á þeim sem síst skyldi. Ég bind ekki miklar vonir við að umhverfissjónarmið vegi þungt nema hjá örfáum. En kannski eru einhverjir Íslendingar sem gætu hugsað sér að gera eitthvað annað við hundraðþúsundkallana sína en að henda þeim í ruslið. Það er nefnilega alveg óþarfi að henda svona miklum mat og það er ekki sérlega flókið að draga verulega úr því magni sem er hent.
Sakir guðleysis míns á ég vísan stað í Helvíti en þar sem ég er nýtingarfasisti mun ég að minnsta kosti ekki lenda þar fyrir að henda mat og gæti eflaust skrifað heilan kílómetra um það hvernig hægt er að nýta hráefni. Í stað þess að birta kílómetralangan pistil ætla ég þó að skipta efninu í viðráðanlegar einingar. Næstu fimmtudaga ætla ég semsagt að birta nokkrar færslur um það hvernig venjuleg heimili geta dregið úr matarsóun. Allt eru þetta vitaskuldir en ef við hendum virkilega mat fyrir 20 milljarða á ári þá hljóta þetta að vera vitaskuldir sem þörf er á að ræða.
Lesendur sem tileinka sér öll þessi ráð verða steinhættir að henda mat um verslunarmannahelgina og orðnir gífurlega ríkir og hamingjusamir um jólin og það ætti ekki að vera yfirþyrmandi að taka eitt lítið skref í hverri viku. Og hér er svo verkefni næstu viku:
Taktu til í ísskápnum
1 Bjargaðu því sem bjargað verður
Hentu því sem er ónýtt en ekki öðru. Ekki horfa bara á dagsetningar. Notaðu þef- og bragðskyn til að meta hvort maturinn er í lagi. Ef þú situr uppi með kjöt eða fisk sem er á síðasta söludegi getur verið ráðlegt að elda matinn og frysta hann svo. Grænmeti má snöggsjóða og frysta. Flesta ávexti er hægt að skera í bita og frysta og nota svo í þeyting síðar. Það er líka hægt að frysta ost og flestar mjólkurvörur.
2 Ákveddu hvenær þú ætlar að nota það sem ekki er hægt að geyma lengi
Nú veistu hvað er til. Ekki „láta það ráðast“ hvað þú ætlar að gera við þessar 3 gulrætur eða 1/2 dós af sýrðum rjóma sem þú veist að verður ónothæfur eftir nokkra daga. Settu heldur niður fyrir þér hvernig þú ætlar að nota það sem til er. Hagaðu innkaupum næstu viku svo með tilliti til þess hvað er til heima og forðastu að kaupa meira af ferskvöru en þig vantar. Ef frystirinn er orðinn fullur eftir tiltektina ættirðu að kaupa eins lítið og mögulegt er og nota frekar það sem er í fyrstinum því það þarf að vera pláss í honum þegar þú tekur til í ísskápnum aftur eftir viku.
Þetta verður ekkert mál næst
Það virðist kannski ekki spennandi að taka til í ísskápnum ef þú safnar svo miklum birgðum af mat að þú veist ekkert hvaða lífverur eru að fjölga sér í þessu græna gumsi í dalli innst í ísskápunum á bak við safn af krukkum og flöskum sem innihalda slatta af einhverju sem þú manst ekki hvenær þú keyptir eða til hvers. Og já, ég veit – þetta hljómar eins og þú munir lítið gera framvegis annað en að bjarga og plana.
En þetta er töluvert ódýrara en að láta slá aðeins í matinn og henda honum svo og ef þú hefur yfirsýn og sýnir smá skynsemi þegar þú kaupir í matinn þá verður þetta fljótt að rútínu. Og fyrir utan sparnaðinn verður ísskápurinn þinn aldrei svo troðinn af drasli að þú þurfir að gera út leitarflokk til þess að komast að því hvort þú lumir einhversstaðar á mæjónesi sem er ekki með gulglærri skán ofan á.