Framferði íslenskra yfirvalda gagnvart þolendum kynferðisafbrota er efni í heila hrollvekjusápuóperu. Spurning hvor íslenskir kvikmyndagerðamenn gætu ekki malað gull með myndum á borð við ‘Kynlegir kaþólikkar’ og ‘Þvagleggur sýslumaður strikes again’.

Atburðir síðustu vikna ættu að duga til að sannfæra hvern mann um nauðsyn þess að huga að leiðum til að byggja upp yfirvaldslaust samfélag. Kynferðisglæpamenn héldu áratugum saman uppteknum hætti í skjóli kirkjuyfirvalda, sem nú reyna að krafsa yfir kúkinn með aumlegri afsökunarbeiðni. Og nú hefur sýslumaðurinn á Selfossi orðið uppvís að því að hindra framgang réttvísinnar. Þvagleggur sýslumaður fyrirskipaði sjálfur kynferðisofbeldi gagnvart konu fyrir nokkrum árum, .þegar hann lét lækna og hjúkrunarfólk girða niður um hana og reka þvaglegg upp í klofið á henni gegn vilja hennar, svo þetta kemur nú svosem ekki á óvart.

En þrátt fyrir að yfirvaldið afhjúpi viðurstyggilegt eðli sitt, grípur fólk ennþá andann á lofti þegar ég segi að yfirvöld séu til óþurftar. Sú ranghugmynd að yfirvald sé nánast náttúrulegt fyrirbæri sem sé okkur nauðsynlegt, er ótrúlega lífseig.

Hversvegna þurfum við yfirvald? Er eitthvað sérstakt sem bendir til þess að yfirvaldið sé færara um að stjórna okkur en við sjálf? Er t.d. yfirstjórn kaþólsku kirkjunnar færari um að taka á kynferðisafbrotamálum en fjölskylda þolandans? Eða byskupsnefnan? Er Þvagleggur sýslumaður færari um að taka á kynferðisafbrotamálum en yfirvaldslaus samtök á borð við Stígamót? Ég sé ekki betur en að blessað yfirvaldið þvælist fyrir réttlætinu ef eitthvað er.

Yfirvald er í skársta falli óþarfi, oftar þó ofbeldi. Það sýna t.d. sýslumenn og byskupar sem hylma yfir með kynferðisglæpamönnum. Það sýnir líka Alþingi sem í stað þess að lufsast til að taka upp viðulög sem taka á hegðuninni (svo sem að svipta fjárglæframenn fjárræði og koma á ‘viðeigandi stofnun’ fyrir hættulegt fólk) heldur fast við þá forneskju að loka inni fólk sem er fullkomlega fært um að sjá um sig sjálft, enda þótt sé margsannað að refsingar hafa nánast engin áhrif á hegðun, á sama tíma og stórhættulegu fólki er hleypt út án þess að hafa fengið lækningu meina sinna.

Yfirvald er í eðli sínu ofbeldi. Þvagleggur sýslumaður er í þokkabót ofbeldismaður sjálfur og ef yfirvald er á annað borð réttlætanlegt þá á hann allavega ekki að gegna valdastöðu. Hvað þarf eiginlega að gerast til að mannfýlunni verði vikið úr starfi?