Í leit minni að felgulykli festist ég stutta stund í nýársboði hjá systur minni. Var þar meðal annarra stödd móðir mín sem rifjaði upp bréf mitt til Elíasar sáluga Bjarnasonar.

Umrætt bréf er fyrsta dæmið um þá aðferð sem ég hef mest notað til þess að angra yfirvaldið. Mér þótti reikningur óbærilega leiðinleg námsgrein og átti fastlega von á  að deyja úr leiðindum fyrir aldur fram ef ekkert yrði að gert. Ég taldi víst að Elías Bjarnason, fyrrum yfirkennari, væri rót allar reikningskennslu. Án hinna ömurlegu bóka hans yrði grunnskólinn frjáls frá þessháttar leiðindum.

Elías Bjarnason

Ég var í 3.ja bekk þegar ég sá fram á að enginn annar myndi gera neitt til þess að uppræta þennan ófögnuð úr aðalnámskrá grunnskólanna. Ég ákvað því að taka á rótinni sjálf og skrifaði Elíasi Bjarnasyni bréf. Bað hann náðarsamlegast að skrifa ekki fleiri reikningsbækur. Rökin voru þau að öllum krökkunum í skólanum þættu reikningsbækurnar leiðinlegar. Móðir mín (ekki sáluga) heldur því reyndar fram að ég hafi líka skrifað að hann gerði sér sennilega enga grein fyrir því hvaða kvalræði hann væri að leggja á æskulýðinn en hún er frekar lygin svo ég held að hún ýki þetta aðeins. Ég man hinsvegar að ég benti skúrknum á að skrifa frekar „skemmtilegar sögur eins og t.d. Fimmbækurnar“ sem ég leit á sem bókmenntalegt stórvirki.

Þegar ég bað móður mína að póstleggja bréfið tjáði hún mér að Elías væri löngu dáinn og grafinn. Hann væri aukinheldur þegar búinn að skrifa reikningsbækur fyrir fjórða bekk og sennilega fyrir alla bekki grunnskólans og að þær væri hægt að prenta aftur og aftur. Þetta varð mér nokkurt áfall. Það var ekki aðeins orðstír sem lifði fram yfir gröf og dauða heldur einnig reikningsbækur. Ekki einu sinni dauðinn gat komið í veg fyrir að ég sæti uppi með Elías sáluga.

Því miður henti ég bréfinu enda datt mér ekki í hug þá að ég gæti haft gaman af því síðar. Það var skrifað á appelsínugult bréfsefni með blómamynstri og þótti mér grátleg sóun að hafa eytt slíkri gersemi á dauðan mann.