Óeirðir í kjölfar drápsins á George Floyd halda áfram að magnast og breiðast út. Eldar brunnu í nágrenni Hvíta hússins í nótt og lagði þykkan reykjarmökk yfir. Reiðin beinist ekki aðeins gegn lögreglunni heldur einnig forsetanum. Sem kunnugt er hafðist forsetinn við í neðanjarðarbyrgi í um klst. síðasta föstudagskvöld og ætla má að íkveikjur í nágrenni hvíta hússins séu engin tilviljun.

Viðbrögð Donalds Trump

Viðbrögð forsetans við óeirðunum vekja athygli, ekki síður en mótmælin sjálf. Hann hefur enn ekki ávarpað þjóðina vegna drápsns á George Floyd en á hinn bóginn sent frá sér skilaboð á Twitter sem eru fremur til þess fallin að auka á reiðina en að sefa hana.

Philonise Floyd, bróðir hins látna krefst þess að gefin verði út opinber ákæra um morð að yfirlögðu ráði og hefur gefið það út að hann vonist eftir dauðarefsingu. Philonise sagði í samtali við ameríska miðilinn MSNBC frá símtali sínu við forsetann. Ekki virðist mikið hafa komið út úr því, þar sem Philonise segist í raun varla hafa komist að.

Það kemur engum sem fylgst hefur með Trump Bandaríkjaforseta á óvart að hann grípi fram í fyrir viðmælendum sínum. Öllu meiri undrun vekur Twitterfærsla forsetans þann 29. maí og er heimsbyggðin þó ýmsu vön þegar kvak forsetans á þeim vettvangi er annars vegar. Svo langt gekk hann í ósmekklegheitunum að Twitter ákvað að fela færsluna, þó þannig að hægt sé að sjá hana með því að smella á hana. Með því fyrirkomulagi vill Twitter tryggja að notendur séu meðvitaðir um að skilaboðin gangi gegn þeim skilmálum fyrirtækisins að upphafning ofbeldis muni ekki líðast, en um leið tryggja að hægt sé að sjá það sem áhrifavaldar leggja til umræðunnar.

Með umræddri Twitterfærslu brást forsetinn við óeirðunum. Í íslenskri þýðingu hljóðar færslan svo:

… Þessir HROTTAR vanvirða minningu George Floyd og ég læt það ekki viðgangast. Var að tala við Tim Walz ríkisstjóra og sagði honum að herinn myndi standa með honum allt til enda. Við reiknum með að hann hafi stjórn á aðstæðum en þegar gripdeildir byrja hefst skothríðin líka. Takk fyrir.

Bakgrunnur orðatiltækisins

Orðatiltækið „þegar gripdeildirnar byrja, byrjar skothríðin líka“ (when the looting starts the shooting starts) á sér áhugaverða sögu. Það var David Headley, þáverandi lögreglustjóri í Miami, sem gerði það að slagorði árið 1967 þegar hann notaði það til réttlætingar á harðri framgöngu lögreglunnar í hverfi þar sem svartir voru í yfirgnæfandi meirihluta. Headley hélt því fram að tekist hefði að halda kynþáttaátökum, ofbeldi og ránum í skefjum með þeirri stefnu að beita skotvopnum þegar óeirðir brytust út.

Slagorðið hefur síðan verið tengt kerfisbundnum ofsóknum yfirvalda gegn svörtum og hefur meðal svartRa Bandaríkjamanna álíka ógnandi merkingu og „vinnan gerir yður frjáls“ (eða„vinnan göfgar manninn“) (Arbeit Macht Frei) fyrir afkomendur þeirra sem lentu í þrælkunarbúðum nasista.

Forseti Bandaríkjanna sagði eftir á að hann þekkti ekki uppruna slagorðsins og hefði ekki verið að hóta ofbeldi heldur bara svona að benda á að óeirðir hefðu manndráp í för með sér. Þykir mörgum það ótrúverðug skýring enda frasinn settur fram í beinum tengslum við ummæli um að herinn muni standa með yfirvöldum allt til enda.

#Black_Lives_Matter

Saga lögregluofbeldis gegn svörtum er löng og ljót, ekki síst í Bandaríkjunum. Það er almennt viðurkennt meðal fræðimanna að viðbrögð bandarískrar lögreglu og réttarkerfis við afbrotum virðist lituð af fordómum í garð svartra. Svartir eiga þar mun frekar á hættu en hvítir að verða fyrir harkalegri meðferð af hálfu lögreglu, oftar er brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og þeir fá að jafnaði þyngri dóma en hvítir fyrir sömu brot. Að auki virðist þurfa meira til þess að lögreglumenn sem brjóta gegn svörtum þurfi að sæta ábyrgð vegna þess en þeir sem brjóta gegn hvítum. Allt þetta hefur verið sýnt fram á.

Réttindabarátta svartra hefur öðrum þræði snúist um að vekja almenning til vitundar um þetta óréttlæti og kröfur um að þeir sem fremja hatursglæpi gegn svörtum verði látnir sæta ábyrgð. Einn þáttur í þeirri baráttu er herferð sem hófst á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #Black_Lives_Matter árið 2013, þegar George Zimmerman var sýknaður af drápinu á Trayvon Martin, 17 ára pilti í Flórída.

Trayvon Martin var á leið heim úr matarboði í hverfi þar sem Zimmerman sinnti nágrannagæslu. Zimmerman fannst drengurinn grunsamlegur svo hann hringdi á lögregluna. Einhver orðaskipti urðu milli Martins og Zimmermans í framhaldinu, upp úr því kom til átaka sem lauk með því að Zimmerman skaut drenginn til bana. Trayvon Martin var óvopnaður en Zimmerman bar við sjálfsvörn og það virðist virka ágætlega í Bandaríkjum þegar hvítir drepa svarta. Zimmerman var sem áður segir sýknaður.

Andsvar lögreglu – #Blue_Lives_Matter

Niðurstöður dómstóla í máli Zimmermans þóttu víða staðfesting á rótgrónum fordómum og mismunun gagnvart svörtum. En það eru fleiri en svartir sem telja sig fórnarlömb hatursglæpa. Síðla árs 2014 hófu lögreglumenn sem voru ósáttir við fréttaflutning af lögregluofbeldi herferðina #Blue_Lives_Matter með kröfu um að árásir gegn lögreglumönnum og öðrum opinberum starfsmönnum yrðu meðhöndlaðar sem hatursglæpir.

#Blue_Lives Matter hreyfingin er augljóslega hugsuð sem andsvar við kröfunni um að ofbeldi gegn svörtum verði tekið alvarlega og því hefur reyndar ekki verið mótmælt. Slagorðið var fyrst notað á samfélagsmiðlum seint í desember 2014, í kjölfar þess að tveir lögreglumenn, Rafael Ramos og Wenjian Liu voru myrtir í Brooklyn. Banamaður þeirra, Ismaaiyl Abdullah Brinsley, fyrirfór sér áður en til hans náðist en talið er að hann hafi hugsað árásina sem hefnd fyrir refsilaus dráp lögreglu á svörtum borgurum. Einkum er talið að honum hafi verið hugleikin örlög Erics Garner, sem líkt og George Floyd var kæfður til bana við handtöku sumarið 2014. Einnig er talið að hann hafi haft í huga Michael Brown, 18 ára svartan pilt sem lögreglumaður skaut til bana í úthverfi St. Louis í ágúst sama ár.

Það dettur engum heilvita manni í hug að réttlæta morð á lögreglumönnum sem komu hvergi nærri þeim manndrápum sem Brinsley er talinn hafa ætlað að hefna fyrir. Það eru heldur engin efni til að afskrifa þann möguleika að glæpir gagnvart opinberum starfsmönnum geti í sumum tilvikum með réttu flokkast sem hatursglæpir. En það tiltæki að svara kröfunni um að tekið verði á kerfislægri kynþáttahyggju með því að snúa út úr slagorði réttindabaráttu svartra lýsir djúpstæðu skilningsleysi á aðstöðumun ofsóttra minnihlutahópa og þeirra sem fara með formlegar heimildir til valdbeitingar.

Hvað með Ísland?

Þetta sama skilningsleysi virðist þjaka lögregluna á Íslandi.

Framlínan

Við verðum að taka þátt í þessu með öðrum viðbraðgsaðilum í framlínunni. Okkar framlag var sko ekki tekið í einu skoti heldur kostaði þetta blóð, svita og tár.

Posted by Lögreglustjórinn á Suðurnesjum on Miðvikudagur, 8. apríl 2020

Þann 8. apríl tók lögreglan á Suðurnesjum þátt í dansáskorun sem hófst á samfélagsmiðlinum Tik Tok. Það er hluti af ímyndarsköpun lögreglunnar að koma fram sem „venjulegt fólk“. Vingjarnlegir stuðboltar sem reyna að hafa ofan af fyrir sér í samkomubanninu, rétt eins og við hin.

Þátttaka lögreglunnar í dansáskoruninni var tilkynnt á samfélagsmiðlum, meðal annars með skilaboðunum hér að ofan. Ritstjórn hefur ekki fylgst grannt með ímyndarherferðum lögreglunnar á samfélagsmiðlum og veit ekki um önnur dæmi um upphafningu á #Blue_Lives_Matter slagorðinu. Kvennablaðið sendi fyrirspurn til lögreglunnar á Suðurnesjum seinni part á föstudag um notkun hennar á þessu slagorði með ósk um svar fyrir kl. 12 á hádegi á mánudag. Engin svör hafa borist.

Ofbeldi lögreglu er óháð landamærumÞað hefur líklega ekki farið framhjá neinum að George Floyd, 46 ára svartur bandaríkjamaður, var myrtur af lögregluþjóni sem hélt honum niðri með því að halda hné sínu á hálsi hans. Morðið náðist á myndband og á því heyrist og sést skýrt hvernig Floyd kvartaði […]

Af hverju skiptir þetta máli?

Þótt saga íslensku lögreglunnar sé ekki lituð af manndrápum á svörtu fólki er ekki þar með sagt að enginn stofnanarasimsi þrífist á landinu bláa. Fordómar geta allt eins beinst að öðrum hópum. Í Bretlandi hefur lögregluofbeldi ekki beinst sérstaklega að svörtum en aftur á móti er lágstéttafólk í meiri hættu á harkalegri meðferð og tilefnislitlum afskiptum en þeir sem betur standa. Svo hart hefur kveðið að ofsóknum lögreglu gagnvart heimilislausum að Mannréttindanefnd Skotlands stóð fyrir sérstöku eftirlitsátaki með afskiptum lögreglu af fátækum árið 2015.

Á Íslandi telja margir sig sjá ákveðin merki um að innflytjendur og flóttamenn, vímuefnaneytendur, geðsjúkir og heimilislausir búi við alvarlega mismunun af hálfu stjórnvalda. Það er því áhyggjuefni þegar lögreglan dreifir skilaboðum sem ætluð eru sem andsvar við baráttu minnihlutahópa gegn misbeitingu lögregluvalds. Kannski ættu ímyndarsmiðir lögreglunnar að hafa það í huga þegar þeir eru að reyna krútta lögregluna á samfélagsmiðlum. Það er nefnilega ekkert krúttlegt við #Blue_Lives_Matter hreyfinguna í augum þeirra sem þekkja mismunun og fordóma stjórnvalda í garð minnihlutahópa.