Djöfull eru þessar tanngreiningar ömurlegar. Ekki bara af því að þær eru óáreiðanlegar heldur af því að þær afhjúpa þá afstöðu ríkisvaldsins að ganga skuli út frá því að flóttafólk sé síljúgandi. Hversu mikill ætli kostnaður ríkissins við að reyna að sanna lygar á hælisleitendur sé?

Það er varla hægt að hugsa sér mikið erfiðari aðstöðu en þá að vera fylgdarlaus unglingur á flótta. Lítil börn eiga að minnsta kosti möguleika á vernd án þess að vera ofsótt með kröfum um að rifja upp hryllilegustu augnablik ævi sinnar. Unglingur sem hefur misst fjölskyldu sína og vini getur hinsvegar búist við að vera meðhöndlaður eins og glæpamaður. Það er svívirða sem á ekki að viðgangast.

En hvað með þá sem ljúga til um aldur?

Er til fólk sem gefur rangar upplýsingar til þess að reyna að tryggja sér forréttindi? Já, alveg áreiðanlega. En afleiðingin af því á ekki að vera sú að allir sem biðja um vernd eða aðra aðstoð séu tortryggðir. Afleiðingin af því að reyna að afla sér forréttinda sem maður á ekki rétt á, ætti að vera sú að sá sem hegðar sér þannig fái nákvæmlega það sem hann biður um, með öllum kostum og göllum. Sá sami mun þá fljótlega átta sig á því að það eru góðar ástæður fyrir því að fólk í viðkvæmri stöðu fær sérstaka meðferð. Þeir sem njóta sérstakrar verndar fá ekki endilega „betri“ meðferð að eigin mati, heldur öðruvísi meðferð sem byggist á góðum rökum.

Það ætti að leggja þessar tanngreiningar algerlega niður og ganga einfaldlega út frá því að flóttafólk gefi réttar upplýsingar um aldur sinn. Ef þú ert 17 ára eða yngri þá ertu meðhöndlaður sem barn. Þú færð vernd og þarft ekki að ganga í gegnum þriðju gráðu yfirheyrslu til þess. Þú færð menntun, heilsugæslu, mat, húsaskjól, aðstöðu til tómstundastarfs og allt annað sem börn þurfa.

Forréttindum barna fylgir takmarkað frelsi

Og þar sem þú ert barn, ertu líka ófær um að taka fulla ábyrgð á sjálfum þér og frelsi þitt takmarkast af því hversu vel þér gengur að ávinna þér traust forráðamanna þinna. Þú þarft ekki bara vernd, þú þarft líka uppeldi. Þessvegna ferð þú ekki í flóttamannabúðir með fullorðnum heldur annaðhvort í fóstur eða á barnaheimili þar sem þú lýtur agavaldi eins og aðrir unglingar. Það merkir að fullorðna fólkið gætir þín og setur þér mörk.

Þú þarft að sinna heimanáminu þínu, taka til í herberginu þínu og sinna sameiginlegum heimilisstörfum. Þú færð ekki greitt framfærslufé heldur bara smá vasapening enda færðu mat og annað sem þú þarft á heimilinu. Þú getur ekki ráðið því hvað er í matinn en þú getur stundum haft áhrif á það. Þú mætir á réttum tíma í mat og borðar með hinum krökkunum og starfsfólkinu. Þú þaft að virða reglur um útivistartíma. Kannski gilda líka reglur um skjátíma og ef þú sýnir andfélagslega hegðun skaltu reikna með að sæta eftirliti með því hvað þú ert að gera á netinu. Ef þú átt erfitt með að vakna á morgnana skaltu gera ráð fyrir að þú verðir sendur í rúmið klst fyrr en þér finnst hæfilegt. Þér finnst þetta kannski ekkert spennandi hluti af pakkanum en þegar unglingar hegða sér vel þá losar fullorðna fólkið tökin svo það er að verulegu leyti undir sjálfum þér komið hversu mikils frelsis þú nýtur. En frelsi þitt er skilyrt í mun meira mæli en frelsi fullorðinna enda nýtur þú forréttinda í samræmi við það.

Vafa ætti að túlka barninu í hag

Staðreyndin er sú að meðal flóttafólks eru fylgdarlaus börn sem í flestum tilvikum eru mörkuð af skelfilegri lífsreynslu. Þau eiga rétt á vernd og uppeldi. Þau þurfa að geta treyst fullorðnum og það er ekki gott veganesti fyrir þau í nýju landi að finna strax fyrir fjandskap og tortryggni. Unglingur á að geta sagt sögu sína og gengið út frá því að meginreglan sé sú að tekið sé mark á honum og vafi túlkaður honum í hag. Og ef fullorðinn maður ætlar virkilega að þykjast vera unglingur til þess að tryggja sér hæli, þá gæti nú verið að rynnu á hann tvær grímur þegar honum er gerð grein fyrir því að börn njóta ekki bara forréttinda, þau þurfa líka aga og eftirlit.