Á nýársnótt árið 2007 urðu tveir menn fyrir alvarlegri líkamsárás í nágrenni viðskiptasendiráðs Kína í Garðastræti. Þrír unglingar réðust á þá, slógu þá með flösku og spörkuðu í þá liggjandi.

Það vill svo til að ég þekki annan þessarra manna og móður hans. Vitni lýstu síðar fyrir henni framkomu sjúkraflutningamanna og lögreglu og sögðu tón og orðalag hafa einkennst af gremju yfir því að verið væri að kalla þá til vegna drykkjuláta. Vanhæfni annars mannanna til að svara spurningum var að þeirra sögn túlkuð sem merki um ofneyslu vímuefna. Hin raunverulega ástæða voru slæmir höfuðáverkar sem ollu honum langvarandi talerfiðleikum auk þess sem hreyfigeta hans skertist. Ég varð ekki vitni að þessum atburðum og ætla ekki að fullyrða að lýsingin sé rétt.

Ég varð heldur ekki vitni að því þegar vinkona mín kom manni til aðstoðar þegar hann missti meðvitund á bílastæði stórmarkaðar. Hún sagði svo frá þegar hún komst loks heim seinna um kvöldið að hún hefði þurft að beita miklum fortölum til að fá Neyðarlínuna til að senda lögreglu og sjúkrabíl á staðinn.

Ég varð heldur ekki vitni að því þegar vinur minn gekk fram á ósjálfbjarga mann í miðbænum, hann kannaðist við manninn sem var heimilislaus og líklegast undir áhrifum vímuefna. Hann segist hafa hringt í Neyðarlínuna og tilkynnt um manninn en að enginn hafi komið á staðinn þrátt fyrr ítrekaðar hringingar. Annar vegfarandi tók að sér að koma manninum undir læknishendur.

Ég ætla ekki að fullyrða neitt um sannleiksgildi þessara þriggja frásagna en ég hef enga trú á því að þær séu ýktar. Tekið skal fram að þær eru hafðar eftir fólki sem hefur aldrei verið í óreglu, aldrei lýst andúð á yfirvöldum opinberlega eða talið lögreglu sérstakan óvin og treystir venjulega opinberum aðilum sem sinna öryggisþjónustu. Ég ætla ekki að rekja þær sögur sem ég hef heyrt frá yfirlýstum róttæklingum um meinta vanræsklu og skítaframkomu Neyðarlínu og lögreglu þegar kallað er eftir aðstoð vegna fólks sem gæti hugsanlega verið ósjálfbjarga og/eða í hættu af völdum vímuefna.

Þær sögur sem ég hef heyrt af vafasömum viðbrögðum Neyðarlínunnar eru orðnar nógu margar og úr nógu ólíkum áttum til þess að mér finnst full ástæða til að spyrja út í verklagið þar á bæ. Það er nefnilega hárétt hjá henni Dóru Björt Guðjónsdóttur að það er eðlileg stjórnsýsla af nefndum og ráðum á vegum hins opinbera að bregðast við óáægju með opinbera þjónustu, eins og hún sagði í morgunþætti Rásar 2 í gærmorgun.

Það er því miður allt of algengt að forsvarsmenn þeirra sem sinna almannaþjónustu bregðist við gagnrýni og óþægilegum spurningum með því að verða ægilega móðgaðir, rétt eins og það séu tilfinningar þeirra sem málið snýst um fremur en gæði þjónustunnar. Í gær féllu forsvarsmenn Neyðarlínunnar í þennan pytt og brugðust við umfjöllun Dóru Bjartar í morgunútvarpinu með því að heimta afsökunarbeiðni.

Neyðarlínan sinnir mikilvægri almannaþjónustu. Hún er í eigu Ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar, er rekin fyrir almannafé og á ábyrgð opinberra aðila. Í stjórn hennar sitja fulltrúar ráðuneyta, Reykjavíkurborgar og lögreglunnar. Fyrirtæki í þessari stöðu verður að gera ráð fyrir því að fá óþægilegar spurningar.

Að sjálfsögðu er eðlilegt að þeir sem sinna almannaþjónustu leiðrétti rangfærslur. En það er líka fullkomlega eðlilegt að borgarfulltrúi velti upp þeim möguleika að fordómar spili inn í þegar skortir á fagmennsku þeirra sem sinna opinberri þjónustu. Ekkert í framsetningu Dóru Bjartar kallar á afsökunarbeiðni – hún er einfaldlega að sinna starfinu sínu.