Um mánaðamótin mars-apríl tilkynnti ríkisstjórn Bandaríkjanna að meðal þeirra aðgerða sem gripið yrði til í því skyni að draga úr efnahagslegum áhrifum kórónufaraldursins yrðu eingreiðslur í formi tékka til skattgreiðenda. Það tafði reyndar fyrir útgáfunni að vitleysingurinn í Hvíta húsinu vildi láta merkja þá með nafninu sínu. Hann virðist hafa litið svo á að hann væri af örlæti sínu að færa landsmönnum persónulegar gjafir.

Á Íslandi var ákveðið að gefa út stafræna tékka sem nota skyldi til að endurreisa ferðaþjónustuna. Fimmþúsundkall á kjaft með tilmælum um að ferðast innanlands.

Þótt fimmþúsundkall sé til margra hluta nytsamlegur komu strax upp efsemdir um að fimmarinn myndi ráða úrslitum um það hvort fólk verði sumrinu til ferðalaga. „Hvað ætlarðu að gera við fimmþúsundkallinn sem ríkisstjórnin gaf þér?“ varð vinsæl spurning á Facebook, helsta vettvangi þjóðarsálarinnar.

Nú hefur þessi efnahagsaðgerð verið kynnt og viti menn, tékkinn er einmitt kallaður „ferðagjöf ríkisstjórnarinnar“. Ekki verður séð að fjögurranafnaráðherrann og félagar séu með þessu að taka undir íróníuna. Hugsunin virðist vera sú sama og hjá forseta Bandaríkjanna, að ríkissjóður sé eign ráðamanna.

Tungumálið endurspeglar ekki bara veruleikann heldur skapar hann líka. Hér er verið að endurskapa veruleikann með orðum í stað þess að endurspegla hann – ríkisstjórnin afhendir landanum fimmþúsundkall úr sameiginlegum sjóði og kallar það „gjöf“.

„Greiðsla úr ríkissjóði“ hljómar dálítið þreytulega. Eins og eitthvað í flokki með bótagreiðslum eða endurgreiðslu frá skattinum. Eitthvað sem landinn á rétt á. „Gjöf“ vekur mun notalegri tilfinningu. Gjöf er persónuleg. Gjöf er tákn um vinarþel.

Stjórnvöld og stofnanir eru ópersónuleg fyrirbæri. Fólkið sem tekur ákvarðanir í nafni þeirra hefur auðvitað tilfinningar og skoðanir og velvilji liggur áreiðanlega að baki mörgum ákvörðunum. En það liggur nú samt í hlutarins eðli að það er ekki hægt að gefa manni eitthvað sem hann á sjálfur, ekki nema þegar merking sagnarinnar að gefa verður að afhenda. Þegar gestgafinn segir „viltu gefa mér kaffi“ í þeirri merkingu að hann biðji þig að hella í bolla fyrir sig kaffi sem hann á sjálfur, köllum við það ekki „gjöf“ þótt við notum sögnina að gefa. Það er aftur á móti gjöf ef þú heimsækir vin þinn og færir honum kaffipakka. Ríkisstjórnin er ekki að færa neinum gjöf, hún hefur bara tekið ákvörðun um að hella í bollann í von um að landinn kaupi kökubita hjá ferðaþjónustinni með honum.

Ríkisstjórnin er er ekki gefa neitt. Hún er að útdeila verðmætum sem landsmenn eiga og nota tækifærið til ímyndarátaks. Við eigum að tengja þessa greiðslu úr ríkissjóði hlýjum tilfinningum, góðum samskiptum og persónulegri velvild. Það er meira að segja tekið fram að „gjöfin“ sé táknræn. Ég hef ekki séð skýringar á því hvað hún á eiginlega að tákna en líklega á hún að fela í sér yfirlýsingu um von ríkisstjórnarinnar um að ferðaþjónusta þrífist áfram í landinu.

Fimmþúsundkall til eða frá breytir auðvitað engu um það hvort fólk ákveður að ferðast eða ekki en ríkisstjórnin kann nú ráð við því – tékkarnir verða framseljanlegir. Þiggjandi gjafarinnar getur þannig gefið vini sínum hana. Nú eða selt. Ætli sé hér viðskiptatækifæri fyrir þá sem þekkja fjölda örvæntingarfullra fátæklinga sem hafa hvort sem er ekki tök á að nýta sér fimmarann og eru til í að selja hann á tvö og fimm og einhverja í betri málum sem eru til í að kaupa á fjögur?

Reyndar held ég að velgjörðarmenn okkar í ríkisstjórninni hafi náð að vernda einn af viðkvæmustu hópunum gegn viðskiptajöfrum undirheima, sem annars sæju sér leik á borði að féfletta fátæka drykkjumenn með því að kaupa ferðagjöfina á spottprís. Það má nefnilega nota gjöfina til viðskipta á stöðum með vínveitingaleyfi. Það er auðvitað ekkert því til fyrirstöðu að leggjast í ferðalög innan síns íbúðahverfis. Þeir sem ferðuðust innanhúss um páskana þurfa varla meiri víðáttu en næsta pöbb.