„Hinsegin fólk“ hefur verið ofsótt í gegnum tíðina og þótt ótrúlega mikið hafi unnist sætir það enn fordómum. Nú á að uppræta þá fordóma með því að búa til sérstaka námsgrein fyrir grunnskólabörn – hinseginfræðslu. Ekki fræðslufund fyrir unglinga heldur námsefni fyrir börn frá fyrsta bekk og upp úr.
Þessi hugmynd vekur áleitnar spurningar um hlutverk grunnskólans. Auðvitað er það skylda okkar sem samfélags að vinna gegn fordómum og skólinn gegnir þar ákveðnu hlutverki. Ég er þó hreint ekki viss um að allsherjarlausn á öllum hugsanlegum vandamálum felist í því að „fræða börnin“ og það vekur mér dálítinn óhug að sjá hve margir virðast þeirra skoðunar að foreldrunum sé ekki treystandi, heldur eigi skólinn að sjá um fræðslu, viðhorfamótun og siðferðilega innrætingu. Mér finnst eitthvað stórabróðurslegt við þá hugmynd. Og ef út í það er farið náðu Samtökin ’78 þeim frábæra árangri sem raun ber vitni, án þess að grunnskólar kæmu þar nokkursstaðar nærri.
Nú efast ég ekki um að fræðsla eigi þátt í því að vinna gegn fordómum (þótt þar komi fleira til) og auðvitað eiga grunnskólar að kynna það sem sjálfsagt mál að fólk njóti allra réttinda óháð kynhneigð, kyngervi o.s.frv. Í umræðum síðustu daga hefur verið bent á að áherslurnar í skólakerfinu séu úreltar og kannski sé kominn tími á eitthvað nýtt. Ég tek undir það sjónarmið að kennsluhættir og námsmat þarfnist gagngerrar endurskoðunar.
Ég vil hinsvegar ekki færa uppeldishlutverkið frá heimilunum til skólanna og ég stórefast um að það sé heppilegt að búa til heila námsgrein í kringum einn minnihlutahóp. Jafnframt bendi ég á að skólarnir eru bundnir af svokallaðri aðalnámskrá og samkvæmt henni eiga lýðræði, mannréttindi, sjálfbærni o.s.frv. að vera leiðarljós í öllu skólastarfi. Ef því er framfylgt ætti það að skila sér í jákvæðari viðhorfum og auknum skilningi á málefnum minnihlutahópa. (Svo má deila um það hvort þessi pólitísku stefnumið eiga að vera í aðalnámskrá en það er önnur umræða.)
Hinsegin fólk er ekkert eini minnihlutahópurinn sem býr við fordóma og vitanlega væri æskilegt að uppræta fáfræði og fordóma gagnvart öllum sem fyrir þeim verða. Vilji menn fara þá leið að uppræta fordóma gegn hinsegin fólki með sérstakri námsgrein er eðlilegt að aðrir minnihlutahópar fái sömu þjónustu. Og ef við ákveðum að grunnskólinn eigi að bera ábyrgð á viðhorfamótun og innrætingu eru allmargar námsgreinar sem rétt væri að taka upp í nafni lýðræðis, mannréttinda, velferðar, ábyrgðar o.s.frv. Kannski er það bara gott mál, enda greinilegt að margir líta svo á að fólk sé að jafnaði fífl sem varla sé treystandi fyrir kosningarétti, hvað þá uppeldi barna. Ef til vill er eðlilegt að grunnskólar taki upp:
Öryrkjafræðslu, umhverfisfræðslu, fræðslu um borgaraleg réttindi, lífsleikni, fátæktarfræðslu, heimspeki, kynjafræði, lýðræðisfræðslu, vímuefnafræðslu, fjármálalæsi, fjölmenningarfræðslu, hinseginfræðslu, eineltisfræðslu, sjálfbærnifræðslu, kynfræðslu, þunglyndisfræðslu, heimilisofbeldisfræðslu, flóttamannafræðslu, líkamsvirðingarfræðslu, netklámsfræðslu og allt annað sem gott væri fyrir börn í lýðræðisþjóðfélagi að kunna skil á.
En áður en við tökum stór skref í þá átt væri kannski vert að svara því hvaða hluta námsins við ætlum að leggja niður á móti. Eigum við að fórna þjálfun í lesskilningi? Stærðfræði? Erlendum tungumálum? Eigum við að leggja minni áherslu á vísindalæsi og meiri á mannréttindi? Ef við tökum upp mun viðameiri félagsgreinakennslu en nú er í boði þarf eitthvað annað undan að láta; það eru nefnilega takmörk fyrir því hversu miklu námsefni er hægt að troða í börn og unglinga. Ég efast þó um að sé mikill áhugi fyrir því að skera niður það námsgreinakraðak sem börnum er ætlað að tileinka sér, því í hvert sinn sem ég nefni möguleikann á því að hætta að kenna einhverja námsgrein eða hluta hennar sem skyldufag, súpa kennarar og foreldarar hveljur af hneykslun og þykir hverjum sinn fugl sá fegursti.