Verkföll voru áreiðanlega áhrifarík á tímum iðnbyltingarinnar. En ekki lengur. Allra síst þegar launagreiðandinn græðir á verkfallinu og afleiðingarnar bitna á fólki sem hefur enga möguleika á að hafa áhrif á kjörin. Aukinheldur getur ríkisvaldið bannað verkföll ef þau verða of óþægileg, sem sýnir nú bara hversu falskur þessi svokallaði samningsréttur er. Við þurfum að afnema verkfallsrétt – nei ég er ekki að grínast.

Nú reikna ég með að kapítalið fái standpínu og vinstrinu svelgist á lattefroðunni af hneykslun. Verkfallsrétturinn er heilagur og allt það. Við eigum að falla fram og tilbiðja hann því hvar værum við án hans? Ennþá með vökustaura í augum, lepjandi dauðann úr skel, sum okkar niðursetningar og önnur í vistarbandi … Jájá, við skulum endilega tilbiðja verkfallsréttinn. Tilbiðjum svo lögbannsrétt Alþingis í leiðinni. Gleymum því alveg að verkföll voru áhrifarík vegna þess að þau voru ólöleg og ollu raunverulegum skaða.

Verkalýðshreyfingin var nauðsynleg á sínum tíma. En verkföll virka ekki í dag. Þau hafa jákvæð áhrif fyrir hverja starfstétt í nokkra mánuði en varla meira en það. Verkföll eru vítahringur; læknar fá launahækkun og þá er sanngjarnt að ljósmæður fái hækkun til samræmis, svo hjúkrunarfræðingar o.s.frv.  Ef láglaunamaður fær launahækkun upp á þúsundkall verður það ægilega ósanngjarnt gagnvart hálaunamanninum sem fékk ekki nema 6000 kall því hann fékk lægri prósentuhækkun, greyskinnið, og þarf þessvegna „leiðréttingu“.

Reyndin er sú að fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga er verkfallsvopnið ekkert sérlega beitt. Auk þess er það svívirðilegt form kúgunar að fólk eigi ekki annarra kosta völ til að knýja fram kjarabætur en þann að leggja niður störf, vitandi að það stofnar heilsu og hugsanlega lífi sjúklinga í hættu. Það eru ekki samingamenn ríkisins sem sofa illa yfir því að það verði kannski of seint að bjarga honum Jóni ef verkfall dregst á langinn.

Auðvitað gæti ríkið boðið upp á aðrar aðferðir en verkföll til að tryggja fólki þokkaleg kjör. Kannski væri hægt að binda laun allra opinberra starfsmanna við tiltekið mark, t.d. laun þingmanna, þannig að ef ein stétt fengi launahækkun fengju allir aðrir sömu prósentuhækkun. Þannig mætti tryggja stöðugleika. Stöðugleiki skítalauna er þó ekki það sem launþegar sækjast eftir en það mætti jafna bilið milli ríkra og fátækra með því að taka upp krónutöluhækkanir í tiltekinn árafjölda. Sjálfsagt eru til fleiri og betri lausnir en kannski hafa hið opinbera og samtök atvinnulífisins ekki áhuga á að finna þær. Það er þægilegt að hafa mótherjann með bitlaust vopn.

Launamenn gætu líka tekið upp beinar, áhrifaríkar aðgerðir sem bitna á viðsemjandanum en ekki skjólstæðingnum, t.d. gætu opinberir starfsmenn truflað ráðherrafundi og lokað bílastæðum sveitarstjórna. Það væri mun skárra að ergja þá sem halda um budduna en að senda sjúklinga og skólabörn heim. En verkföll eru lögleg og fólk er svo óskaplega löghlýðið. Og samningamenn ekki soltnir daglaunamenn heldur fólk í öruggum, þægilegum, vel launuðum stöðum.

Verkföll voru notuð sem baráttuaðferð fyrir daga bílsins. Í dag dytti engum heilvita manni í hug að nota sömu tækni í iðnaði og var notuð árið 1865. Um baráttuaðferðir launafólks gegnir öðru máli, þar ríkir stöðugleikinn einn. Og sá sem stingur upp á því að endurskoða baráttuaðferðir á 140 ára fresti hlýtur að vera undirlægja kapítalsins eða í besta falli snarklikkaður.

Myndin er frá verkfallinu í Minneapolis árið 1934