„Allir þeir sem hafa komið að utan og við höfum greint með sýkingu eru íslenskir ferðamenn.“ Þetta var haft eftir sóttvarnarlækni í fjölmiðlum fyrir viku. Ekki fylgir sögunni hversu margir erlendir ferðamenn höfðu verið prófaðir. Daginn eftir lést erlendur ferðamaður af völdum veirunnar og konan hans greindist einnig með kórónu og var sett í einangrun. Samkvæmt erlendum fréttum var hinn látni 36 ára. Ekki hef ég orðið þess vör að blaðamenn spyrðu sóttvarnarlækni út í það hvort til stæði að skima fyrir veirunni hjá fleiri ferðamönnum.

Ótrúverðugar fullyrðingar um smitleiðir

Þrátt fyrir andlát erlenda ferðamannsins og sóttkví fjölda heilbrigðisstarfsmanna í kjölfarið, stendur sóttvarnarlæknir enn fastur á því að lítil hætta sé á smiti frá ferðamönnum, þar sem þeir umgangist Íslendinga ekki mikið. Íslendingarnir sem smituðust erlendis, hugsanlega af smituðum Ítölum og Svisslendingum, hafa þá líklega umgengist heimamenn þar á allt annan hátt en erlendir ferðamenn sem koma til Íslands? Kannski eru Ítalir vanir að hósta á ferðamenn sem þeir afgreiða á ítölskum hótelum en gæta þess aftur á móti, þegar þeir koma til Íslands, að hósta ekki í nærveru ferðaþjónustufólks og setjast ekki við hlið Íslendinga í heita pottinum? Nema Íslendinganir hafi smitast af öðrum ferðamönnum – sem smita þá bara ferðamenn en ekki heimamenn?

Ekki virðast blaðamenn telja það hlutverk sitt að krefja heilbrigðisyfirvöld skýringa á því hvernig sýktum ferðamönnum takist að borða á veitingahúsum án þess að snerta piparstaukinn á borðinu eða sköft á áhöldum á hlaðborðinu, eða gista á hótelum án þess að snerta ljósarofa og handföng. Þess í stað keppast blaðamenn við að lepja gagnrýnislaust upp lítt rökstuddar fullyrðingar yfirvalda um það hversu góðum árangri Íslendingar séu að ná og muni ná í baráttunni við veiruna. Ísland best í heimi – líka í sóttvörnum. Spjallþættir sérhæfa sig í því að finna viðmælendur sem mæra „framvarðasveitina“ – sem er örugglega að vinna myrkranna á milli og allt það – en er síður en svo óskeikul og hefur ekki reynslu af því að takast á við skæðar farsóttir.

Framvarðasveitin hélt því í fyrstu fram að einkennalausir væru ekki smitberar. Landlæknisembættið hvarf síðar frá þeirri hugmynd en sóttvarnarlæknir fullyrðir enn að smábörn og ferðamenn séu ólíklegir smitberar, jafnvel þótt meira en 200 manns hafi sýkst án þess að tekist hafi að rekja smitið. Sama framvarðasveit hefur haldið því fram að smithætta í flugvélum sé sáralítil, án þess að nokkur fjölmiðill hafi spurt hvernig farþegar komist hjá því að rekast utan í aðra farþega og snerta farangurshólf, sætisarma og borð, spennu á öryggibelti og fleiri fleti.

Og ekki nóg með að upplýsingar séu tortryggilegar, heldur er ráðgjöfin í sumum tilvikum í meira lagi vafasöm. Lögreglumaðurinn í hópnum hvatti fólk beinlínis til að halda áfram að hittast og síðar, þegar gripið var til samkomubanns lýsti hann því yfir að banninu yrði ekki fylgt fast eftir. Barnalæknir ráðleggur fólki að hvetja unglinga til að hitta vini sína. Það mætti halda að við lifðum ekki á tímum Skype, Messenger, Facetime, Snapchat …

Blaðamenn eða hljóðnemastatíf?

Engin þeirra heimskulegu fullyrðinga og hættulegu ráða sem komið hafa úr ranni framvarðasveitarinnar hafa sætt gagnrýni af hálfu fjölmiðla. Ferðamenn eru hættir að koma til Íslands svo við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeirri smitleið lengur en nú, þegar loksins er gripið til ráðstafana sem „kóvitarnir“ kölluðu eftir strax í lok febrúar, á enn að halda augljósustu smitleiðinni opinni.

Meðan við höfum ekki fengið neinar trúverðugar skýringar á því hversvegna veiran ætti síður að loða við húð og hor smábarna en fullorðinna er ástæða til að hafa áhyggjur af leikskólum. Sú kenning að börn smiti ekki nema vera hóstandi er í hæsta máta ósannfærandi. Á sama tíma er mikilvægi handþvottar stöðugt brýnt fyrir fullorðnum enda mun snerting vera greið smitleið. Varla er hugmyndin sú að „Ísland best í heimi“ ali af sér ofursmábörn sem hafi vit á því að snerta ekki sömu fleti og krúnuveiran og halda höndunum frá andliti sínu og annarra?

Í alvöru talað, kæru blaðamenn; hættið að hegða ykkur eins og hljóðnemastatíf og farið að taka alvarlega það hlutverk ykkar að veita yfirvöldum aðhald. Það var flott hjá heilbrigðisyfirvöldum að taka strax þá stefnu að skima og rekja og auðvitað á að tala um það sem vel er gert en það eru fleiri en sófasérfræðingar sem efast um að skæður smitsjúkdómur berist ekki með ferðamönnum og börnum. Það er eitthvað að þegar fjölmiðlar spyrja yfirvöld ekki út í augljósar þversagnir og ef útbreiðslan heldur áfram með sama hraða og síðustu daga, þá verður niðurstaðan ekkert víkingahúh og ókeypis peningar fyrir alla.