Í kjölfar svika Vinstri grænna í neysluskammtamálinu skrifaði Kolbeinn Óttarsson Proppé grein þar sem hann tilkynnir að hans flokkur ætli sjálfur að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta. Umræður fóru fram á samfélagsmiðlum og þótti mörgum í hópi Pírata undarlegt útspil hjá liðsmönnum VG að hafna frumvarpi sem samkvæmt þessu er þó raunverulegur stuðningur við innan flokksins.
Björn Leví Gunnarsson blandaði sér í þá umræðu og var augljóslega farið að renna í skap. Í færslu sem hann birti á Facebook í gær beinir hann orðum sínum til Kolbeins og segir m.a.:
– hér er fyrirsögn fyrir þig: fokkaðu þér. Við vildum atkvæðagreiðslu um málið þar sem þingmenn geta beitt sannfæringu sinni. Þessi útúrsnúningur þinn er jafn ömurlegur og þessi málflutningur þinn í málinu.
Þegar ég las færsluna taldi ég að Björn Leví hefði ígrundað málið og komist að þeirri niðurstöðu að Kolbeini væri hollast að fokka sér. Það er enda rökrétt niðurstaða. Svo virðist þó sem Björn Leví hafi hlaupið á sig því nokkrum klukkustundum síðar segir hann að það hafi verið rangt af sér að segja Kolbeini að fokka sér.
Í þetta sinn er ég algerlega ósammála Birni Leví. Hann kann að sjá eftir því að hafa orðað hugsanir sínar á þennan hátt, vera má að það hafi verið óheppilegt, að það drepi málinu á dreif og líti ekki vel út fyrir hann sjálfan. En það var ekki „rangt“ af honum í siðferðilegum skilningi að segja Kolbeini Óttarssyni Proppé að fokka sér. Miðað við tilefnið eru það öllu heldur fremur kurteisleg tilmæli.
Að éta skít
Um það leyti sem stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna stóðu yfir hafði einn flokksmaður VG, Drífa Snædal, á orði að stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn yrði „eins og að éta skít í heilt kjörtímabil“. Í framhaldi sagði hún sig úr flokknum.
Drífa reyndist sannspá. Vinstri græn hafa étið skít það sem af er kjörtímabilinu og gefið kjósendum sínum með sér. Eins og einn vinur minn orðaði það:
„Það verður gaman að fylgjast með næstu alþingiskosningum. Hverju ætli VG lofi?
- Ekki auka stóriðju?
- Reyna að draga úr kolabruna á Íslandi?
- Alglæpavæða fíkniefnaneyslu?
- Fjármagna sálfræðiþjónustu?
- Sjá til þess að innviðir eins og vegir verði ekki einkavæddir?
- Uppreisa réttlæti fyrir Erlu Bolladóttur?
- Krefjast þess að fasísk ríki sem drepa íslenska ríkisborgara skili líkamsleifum?
- Ekki lækka veiðigjöld?
- Endurbætur á stjórnarskrá?
- Aðgerðir í húsnæðismálum eða málum heimilislausra?
- Vera með mannúðlega útlendingastefnu?
- Gera vel við láglaunastéttir?
- Sjá til þess að króní kapítalistar og skattasvikarar sitji ekki í ráðherrastólum?“
Allt eru þetta mál sem kjósendur VG höfðu væntingar um að þingmenn þeirra myndu beita sér fyrir. Það hafa þau ekki gert heldur hámað í sig skítinn og hefur Kolbeinn Óttarsson Proppé verið þar stórtækasti sneiðafanturinn.
Það er móðgandi og ekki síst af hálfu mesta skítháksins að tilkynna kinnroðalaust að mál af ofangreindum lista verði einmitt meðal kosningaloforða VG og það korteri eftir svik. En líklega er það ekki hugsað sem móðgun. Líklega heldur Kolbeinn að Vinstri græn séu svo snjöll að þau séu í rauninni ekkert búin að kyngja skítnum. Séu bara með fullan gúl af ullabjakki sem þau geti svo losað sig við í næsta blómapott svo lítið beri á.
Hvaða fyrirsögn myndi þá hæfa Kolbeini?
Þingmenn vinstri grænna eru sammála Pírötum um nauðsyn þess að hætta að refsa fólki fyrir vörslu neysluskammta af fíkniefnum. Þau ákváðu samt að standa í vegi fyrir þessu mannúðarmáli af því að Sjálfstæðisflokkurinn vildi það. Kolbeinn Óttarsson Proppé reynir svo að fegra þennan skandal með útúrsnúningum og hofmóði. Það væri viðeigandi að segja honum að éta skít en það er vitaskuld tilgangslaust, þar sem hann hefur þegar gert sér að góðu hvern einasta kúk sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið á borð frá upphafi þessa stjórnarsamstarfs.
Annar kostur í stöðunni er að segja honum að fokka sér. Það gerði Björn Leví og það var verðskuldað og nákvæmlega ekkert rangt við það.
Engu að síður geri ég þá athugasemd við orðalag Björns Leví að hann hefði mátt huga betur að orðgnótt og hljómi okkar ágæta tungumáls. Það er ekkert að því í sjálfu sér að nota sögnina að fokka sér í þessu sambandi en íslenskan á bara svo mörg orðatiltæki sem mætti nýta betur við tækifæri sem þessi. Ábendingar um að éta hund eða éta það sem úti frýs hafa væntanlega lítil áhrif á þann sem er vanur því að éta skít og tilmæli um að sleikja rassgat [fjármálaráðherra] væru að sama skapi tilgangslaus. Ýmis önnur fúkyrði svipaðarar merkingar og fokkaðu þér koma til greina.
Farðu til fjandans
Farðu í hurðarlaust helvíti
Farðu norður og niður
Farðu í rass og rófu
Hoppaðu upp í rassgatið á þér
Skríddu ofan í öskutunnunna
Gallinn við að nota þessi tilmæli í tilviki Björns og Kolbeins er sá að þau eru álíka kurteisleg og fokkaðu þér og bíta því lítt á vinstri græna skítháka. Það er þó um að gera að nota tungumálið og hafa þau í huga framvegis en ég sting upp á eftirfarandi fyrirsögn handa Kolbeini:
Kyngdu Kolbeinn, kyngdu!