Stjórnvöld tóku meðvitaða ákvörðun um að hleypa kórónuveirunni inn í landið, eftir að búið var að ráða niðurlögum hennar. Það markmið náðist með samstilltu átaki heilbrigðisyfirvalda, Íslenskrar erfðagreiningar og almennings. Með staðfestu fólkins sem hélt sig heima um páskana. Fólksins sem frestaði fermingarveislum, útskriftarveislum, brúðkaupum og fimmtugsafmælum. Fólksins sem gat ekki mætt í jarðarför ástvina. Fólksins sem söng fyrir afa og ömmu fyrir utan glugga hjúkrunarheimila.

En markmiðið náðist líka fyrir tilstilli fólksins sem einangraði sig af eigin frumkvæði og notaði sóttvarnargrímur þvert á ráðleggingar sóttvarnalæknis. Fólksins sem hélt börnum frá öfum og ömmum þótt sóttvarnalæknir segði enga ástæðu til þess, fólksins sem hélt börnum heima þrátt fyrir að heilbrigðisyfirvöld færu út fyrir verksvið sitt með tilmælum um að senda þau í skólann. Fólk lagði þetta á sig bæði vegna þess að það vildi forðast veikindi og koma í veg fyrir útbreiðslu drepsóttar, en líka af því að það sá fram á betri tíð með blóm í haga ef hægt yrði að stöðva útbreiðslu fyrir sumarfrí.

Langvarandi samkomubann tók á taugarnar hjá mörgum en verst bitnaði það á eldri borgurum og langveiku fólki sem fékk ekki heimsóknir vikum saman. Og nú þegar veirunni hefur verið hleypt af stað af tillitssemi við ferðaþjónustuna, þá verður það þetta sama fólk, íbúar hjúkrunarheimila, sem missa af bestu vikum sumarsins. Nú verður lífshættulegt fyrir afa og ömmur að fara í dagsferðir í góða veðrinu með börnum og barnabörnum og kannski fær fjölskyldan ekki einu sinni að koma í heimsókn. En það er allt í lagi að afi og amma séu lokuð inni – túristar verða að fá að viðra sig í sóttvarnaparadísinni.

Á sama tíma eru hundruð manns í sóttkví, öll ferðplön í uppnámi og ekkert hægt að gera nema vona að veðrið verði hundleiðinlegt. Ætli „ferðagjöfin“ nýtist til að fá heimsendan mat?

Allt var þetta fyrirsjáanlegt og að sama skapi fyrirlitlegt. En ríkisstjórnin veit að þeir sem mesta þörf hafa fyrir félagsskap og eiga hvað minnsta völ á honum eru jafnframt öðrum hópum ólíklegri til að kvarta.

Nú væri viðeigandi að æla á tröppur stjórnarráðsins en það gengur auðvitað ekki á meðan enn er hætta á að kórónufaraldur gjósi upp. Ríkisstjórnin má þó taka þessa mynd til sín.