Það er varla raunhæft fyrir hvítan Vestur-Evrópubúa fæddan eftir lok síðari heimstyrjaldar að setja sig í spor þeirra sem lifðu við ánauð í Bandaríkjunum á 19. öld. Þótt við vitum að þrælar þjáðust og að þrautagöngu þeirra var hvergi nærri lokið þótt þrælahald væri afnumið þá áttum við okkur sennilega ekki á því hvaða áhrif ánauðin hafði á hvert einasta smáatriði daglegs lífs. Við erum varla mikið betur í stakk búin til að setja okkur í spor þeirra sem héldu þræla, við setjum það fólk í flokk með stórglæpamönnum frekar en vinnuveitendum, við samsömum okkur ekki svo hryllilegu fólki. En getum við sett okkur í spor þeirra sem horfðu á ánauðina og ypptu öxlum? Eða þeirra sem höfðu andstyggð á þrælahaldi og vildu uppræta það? Við erum ekkert óvön því að horfa upp á óréttlæti og einmitt síðustu vikurnar hefur verið mikil stemning fyrir því að taka afstöðu gegn rasisma.
Réttlætingar fyrir rasima 19. aldar
Um 1850 var þrælahald að mestu aflagt í norðurríkjum Bandaríkjanna. Áskoranir um afnám ánauðar höfðu þó takmörkuð áhrif í suðurríkjunum, sem byggðu afkomu sína að verulegu leyti á bómullarræktun sem útheimti mikið vinnuafl. Sunnanmenn skorti ekki réttlætingar fyrir þrælahaldi, rökin voru trúarleg, menningarsöguleg, samfélagsleg, eignarréttarleg, erfðafræðileg og meira að segja af mannúðartoga.
Þrælahald var í fyrsta lagi Guðs vilji, það gátu menn sannað með Biblíunni. Í öðru lagi hafði þrælahald viðgengist í öllum samfélögum og var þar með eðlilegur þáttur siðmenningar. Í þriðja lagi hefði afnám þrælahalds leitt til atvinnuleysis, heimilisleysis og upplausnar með tilheyrandi hörmungum fyrir allt samfélagið. Fjórða og augljósasta réttlætingin var sú að þræll væri eign sem menn höfðu keypt eða fengið í arf. Bændur þurftu á vinnuafli að halda til að komast af og varla var skárra að allir syltu, bæði svartir og hvítir, en að bændur nýttu sér vinnuafl sem þeir, eða forfeður þeirra, höfðu borgað dýrum dómum. Í fimmta lagi var svart fólk sagt glæphneigt að upplagi, ofbeldi og stelsýki var því í blóð borin og því samfélagsleg nauðsyn að hvítir hefðu völd yfir þessum hættulegu verum. Í sjötta lagi voru svartir taldir of heimskir, latir og ábyrgðarlausir til að vera færir um að ráða sér sjálfir, það þurfti gott fólk til að passa upp á þá.
Þótt hart væri deilt um réttmæti þrælahalds ríkti nokkuð góð sátt um þá hugmynd, sem endurspeglast í sumum þessara réttlætinga, að kynþættir manna væru komnir mislangt á þróunarbrautinni. Það var talin vísindaleg staðreynd að svartir stæðu öpum nær í þróunarferlinu en hvítir menn. Hvítir voru almennt taldir bæði klárari og sterkari á svellinu siðferðislega.
Þetta var veruleikinn sem fólk hrærðist í. Þeir sem vildu afnema þrælahald voru mannlegir og gengu sennilega almennt ekki út frá þeirri forsendu að allir menn væru jafnir að manngildi og virðingu heldur þeirri að þrælahald væri ómannúðlegt.
.
Kofi Tómasar frænda
Í þessu andrúmslofti skrifar Harriet Beecher Stowe skáldsögu sem átti eftir að hafa gífurleg áhrif á afstöðu almennings til þrælahalds, og ekki aðeins í Bandaríkjunum. Þetta er sagan Kofi Tómasar frænda – eða líf hinna lægst settu.
Sagan kom út í Bandaríkjunum 1852 en hafði áður verið birt sem framhaldssaga í tímariti baráttufólks fyrir afnámi þrælahalds. Að sögn höfundar voru það einkum tvö atvik sem knúðu hana til að skrifa bókina. Annarsvegar hafði hún misst ungt barn sitt og það jók samúð hennar með þrælum sem gátu ekkert að gert þegar börn voru tekin frá mæðrum sínum sem höfðu enga von um að sjá þau framar. Hinsvegar misbauð henni gróflega þegar sett voru lög sem skylduðu bæði stjórnvöld og almenning í norðurríkjunum til að koma strokuþrælum aftur í hendur eigenda sinna að viðlagðri refsingu.
Sagan lýsir daglegu lífi í þrældómi og rekur samtöl milli hvítra sem hafa mismunandi afstöðu til þrælahalds. Boðskapur hennar er skýr og einfaldur: Þrælahald er ókristilegt og á ekki að viðgangast. Mannúðleg meðferð réttlætir ekki þrælahald og þessvegna gefa góðir og sannkristnir menn þrælum sínum frelsi og bjóða þeim laun fyrir vinnuna ef þeir vilja vera áfram í vistinni.
Bókin vakti gríðarleg viðbrögð. Hún varð söluhæsta bók 19. aldar í Bandaríkjunum að Biblíunni einni undanskilinni, var þýdd á mörg tungumál og óumdeilt er að hún efldi til muna andstöðu gegn þrælahaldi í norðurríkjunum. Því hefur jafnvel verið haldið fram að hún hafi verið stór hvati að þrælastríðinu sem varð til þess að þrælahald var afnumið með lögum árið 1865. Hvort það er rétt skal ósagt látið.
Að sama skapi sætti Harriet harðri gagnrýni fyrir ósanngirni í garð heiðarlegra þrælahaldara og skort á innsýn í þann veruleika sem gerði þrælahald nauðsynlegt. Í það minnsta 14 skáldsögur voru skrifaðar sem svar við Kofa Tómasar frænda, þar sem áherslan var á manngæsku þrælahaldara og nauðsyn þess að vernda svarta frá sjálfum sér og samfélagið frá þeim. Engin þeirra slagaði þó neitt upp í Kofa Tómasar frænda að vinsældum. Bókin var bönnuð í suðurríkjunum og bent var á að höfundur hefði aldrei dvalið í suðurríkjunum og hefði enga reynslu af þrælahaldi frá fyrstu hendi. Svo rammt kvað að ásökunum um að sagan væri lítið annað en hugarórar, tröllasögur og rógburður að Harriet skrifaði túlkunarlykil, þar sem hún gerði grein fyrir heimildum sínum, þ.á.m. vitnisburði strokuþræla.
Hundrað og sextíu árum eftir útkomu bókarinnar er Harriet Beecher Stowe bæði elskuð og gagnrýnd. Ósanngirni í garð þrælahaldara er ekki lengur talin vandamál heldur hefur hún, á síðustu áratugum, verið gagnrýnd fyrir rasisma. Já, rasisma. Persónusköpun Harriet Beecher Stowe er sögð hafa lagt grundvöllinn að skaðlegum staðalmyndum og þannig búið í haginn fyrir þá mismunun og ofsóknir sem svartir sættu á 20. öldinni og sæta enn. „Uncle Tom“ er nú notað um svart fólk sem skríður fyrir hvítum, afneitar því að Bandaríkin séu gegnsýrð af rasisma og skellir skuldinni á fórnarlömbin þegar svartir verða fyrir mismunun og ofsóknum. Tengingin er að sumu leyti skiljanleg en gengur furðulangt. Þótt Tómas frændi í bókinni deyi píslarvættisdauða frekar en að segja til strokuþræla er „Uncle Tom“ samt sem áður notað um þá sem bregðast svörtum þegar þeir eru ofsóttir.
Hvernig hefði sagan þá átt að vera?
Eru persónur Harriet Beccher Stowe einsleitar staðalmyndir? Já, vissulega. Tómas frændi og Chloe frækna eru auðmjúkir og húsbændahollir þrælar, þakklát góðum húsbændum og hafa fullan skilning á stöðu þeirra, jafnvel þegar Tómas er seldur. Þau mæta hörku þeirra sem fara illa með þræla með kristilegum kærleika og fyrirgefningu. Sam er hamingjusami kjáninn, sáttur við hlutskipti sitt og kemst af með léttlyndi sínu og jafnaðargeði. Elíza er fallega fórnarlambið og hugrekki hennar sprottið af örvæntingu fremur en uppreisnaranda. Það hlýtur að vera grunnt á rasismanum hjá þeim sem skapar svona persónur.
Í allri andúðinni á Tómasi frænda virðist pólitísk markmið höfundar alveg gleymast. Auðvitað er hægt að sjá fyrir sér raunhæfari persónusköpun. Ef sagan yrði endurskrifuð í dag myndi upplýstur höfundur sennilega sýna okkur inn í hugarheim eldhússþrælsins og barnfóstrunnar sem léku hlutverk hinna auðmjúku ambátta en hugsuðu sitt. Höfundurinn myndi segja okkur frá konum sem sinntu börnum kúgara sinna af því að þær áttu ekki annars úrkosta, horfðu upp á hvítu krakkakvikindin leggja sín eigin börn í einelti með fullri blessun foreldranna en hugsuðu þeim þegjandi þörfina. Nútímahöfundur myndi lýsa verðskuldaðri en þögulli fyrirlitningu þræla á húsbændum sínum, kraumandi reiðinni, brennandi hatri – hefndarhug en ekki auðmýkt og fyrirgefningu.
Kannski myndi nútímahöfundur sækja innblástur í þrælauppreisnina í Virginíu 1831 þegar Nat Turner og menn hans hreinlega slátruðu á bilinu 55-65 manns. Fyrstu fórnarlömbin voru húsbændur Nat Turners. Vígamenn drápu hjónin í rúminu auk 9 ára gamals sonar þeirra og vinnumanns á unglingsaldri. Eftir að uppreisnarmennirnir riðu á braut áttaði einhver sig á því að eitt óbermið, gleymst. Það var kornabarn í vöggu, afkvæmi kúgaranna. Tveir uppreisnarmannanna sneru til baka og drápu barnið. Svo djúpt risti hatrið.
Nútímahöfundur myndi líka lýsa grimmilegum refsingum sem uppreisnarmenn sættu í kjölfarið og refsilausum ofsóknum hvítra borgara gegn blásaklausu svörtu fólki í mörg ár eftir það. Sagt er að eftir að Nat Turner var líflátinn hafi lík hans verið flegið og húðin notuð í peningapyngjur. Svo djúpt risti hatrið.
En hvernig hefði raunsönn lýsing á hugarheimi þræla gengið í Bandaríkjamenn á 19. öld? Hefði saga af uppreisn í anda Nat Turner vakið þá samúð sem þurfti til að efla andspyrnu gegn þrælahaldi? Hefði samfélag Harriet Beecher Stowe trúað sögunni um peningapyngjurnar? Hefði einhverjum kannski bara þótt það makleg málagjöld?
Uppgjör eða eitthvað annað?
Það er rétt að Kofi Tómasar frænda einkennist af staðalmyndum. Þær ímyndir eru ekki sprottnar úr höfði Harriet Beecher Stowe. Við þekkjum öll svipaðar staðalmyndir í hvaða menningu sem er. Höfundur Tómasar frænda gat ekki séð það fyrir að skopstælingar á sögupersónum hennar yrðu notaðar í blackface revíum.
Einfaldar staðalmyndir eru þær engu að síður, sömu staðalmyndir og þær sem bæði fyrr og síðar voru notaðar sem kúgunartæki. Það er sjálfsagt að horfast í augu við það og lesa söguna með meðvitund um það að bókin er barn síns tíma. Mér þætti það eðlilegt uppgjör við rasisma fortíðarinnar.
Ákallið um uppgjör við fortíðina gengur þó miklu lengra en svo að viðeigandi þyki að vekja athygli á því að jafnvel mestu frelsishetjur sögunnar voru börn síns tíma og höfðu hugmyndir sem ástæða er til að endurskoða. Nú þykir sanngjarnt að slá tíðarandann út af borðinu og nota barnalega persónusköpun Harriet Beecher Stowe til að draga upp mynd af henni sem laumurasista. Á síðari árum hafa fleiri rithöfundar sem reyndu að beita pennanum til að gera heiminn ögn skárri fengið svipaða einkunn. Þekktasta dæmið er sennilega það þegar To Kill a Mockingbird eftir Harper Lee var tekin af leslistum unglingabekkja í Mississippi á þeirri forsendu að rasisminn sem fælist í notkun orðsins „nigger“ væri óboðlegur.
Ef við gerum sömu kröfur til 19. aldar barns og okkar sem ólumst upp á tímum alþjóðastofnana og mannréttindasáttmála, í heimi þar sem tugir þúsunda hafa fulla atvinnu af því að stuðla að virðingu fyrir mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, þá getum við afgreitt svo til hverja einustu manneskju fædda fyrir seinna stríð sem rasista. Ef rasismi er það að draga upp staðalmynd eða nota orð sem áratugum síðar var talið óviðeigandi, þá verðum við öll talin rasistar eftir nokkra áratugi, líka fórnarlömbin. Ef við skilgreinum rasisma sem hvert einasta merki sem hægt er að finna um þá afstöðu að einhver munur sé milli kynþátta, þá eru nánast allir rasistar.
Ef uppgjörið við rasima fortíðarinnar felst í því að afskrifa alla umbótaviðleitni sem stenst ekki pólitíska hreintrúarstefnu 21. aldarinnar þá mun ekkert uppgjör fara fram nema þá hjá þeim sem þurfa ekki á uppgjöri að halda. Ef markmiðið er það að skapa heim þar sem flestir álíta í raun og sannleika að allir menn fæðist jafnir að manngildi og eigi að njóta sömu réttinda og frelsis, þá getum við ekki skilgreint rasisma út frá þeim áhrifum sem verk fortíðarinnar hafa á nútímabarnið.
Ef við hinsvegar skilgreinum rasisma sem þá afstöðu að sumir menn séu bornir til meiri réttinda en aðrir og megi í krafti þeirrar stöðu sinnar kúga aðra, þá getum við ekki með nokkurri sanngini afgreitt bækur eins og Kofa Tómasar frænda eða To Kill a Mockingbird sem rasísk bókmenntaverk.
Mér finnst satt að segja lygilegt að í þeim hafsjó af rasískum bókmenntum sem ástæða er til að henda á haugana, skuli bækur og önnur listaverk sem beinlínis stuðluðu að hugarfarsbreytingu vera álitin varhugaverð og til þess fallin að spilla ungdómnum. Sú afstaða að fordæma allt sem mögulega er aðfinnsluvert án minnstu viðleitni til að setja sig í spor þeirra sem þó vildu vel er ekki uppgjör við fortíðina. Það er öllu heldur ódýrt dyggðaspil eða í einlægasta falli tjáning á ofsakenndum rétttrúnaði þar sem ígrundun og sanngirni koma lítt við sögu.