Halla Rut Bjarnadóttir, eigandi starfsmannaleigunnar Seiglu, segir það alrangt sem kom fram í fjölmiðlum í síðustu viku, að húsið sem brann á Bræðraborgarstíg á fimmtudag, sé skráð á fyrirtæki hennar. Hún segir húsið og íbúa þess sér með öllu óviðkomandi og að forsvarsmönnum Eflingar sé fullkunnugt um það. Starfsmenn Seiglu séu ekki einu sinni búsettir í Reykjavík heldur í Kópavogi. Reyndar hafi þessi bruni ekkert með starfsmannaleigur að gera.
Húsið sem brann er skráð á félagið HD verk sem leigir út atvinnuhúsnæði. Lögregla, vinnueftirlit og skattayfirvöld heimsóttu fyrr í þessum mánuði húsnæði á vegum HD verka að Dalvegi 24 í Kópavogi vegna gruns um að þar byggju útlendingar án atvinnuleyfa. Halla Rut segir þá heimsókn ekki koma sér neitt við enda ekki um að ræða rými sem hún hafi aðgang að.
Halla Rut rak áður starfsmannaleiguna Menn í vinnu, sem varð gjaldþrota á síðasta ári en það fyrirtæki hefur verið nefnt í tengslum við áðurnefnda heimsókn yfirvalda á Dalveg 24. Hún segir hvorki það fyrirtæki né Seiglu hafa önnur tengsl við HD verk en þau að leigja af því húsnæði og að engir útlendingar án atvinnuleyfa hafi starfað hjá hennar fyrirtækjum. Hún hafi leigt húsnæði fyrir Menn í vinnu að Dalvegi 24 í Kópavogi á meðan hún rak það fyrirtæki en að það rými sé ekkert tengt því sem yfirvöld heimsóttu fyrr í mánuðinum. Dalvegur 24 sé risastórt hús með mörgum inngöngum og það rými sem hún hafi leigt fyrir Menn í vinnu á sínum tíma sé með viðurkenndum brunavörnum sem hennar fyrirtæki lét setja upp með ærnum tilkostnaði og hafi verið tekið út af slökkviliði. Hún hafi ekki leigt það húsnæði eftir að fyrirtæki hennar Menn í vinnu varð gjaldþrota, Seigla leigi annarsstaðar.
Athygli hefur vakið að mikill fjöldi útlendinga er skráður til heimilis í húsinu sem brann að Bræðraborgarstíg 1, eða 73 manns. Auk þess munu 134 vera með lögheimili á Bræðraborgarstíg 3. Halla Rut telur ekkert dularfullt við það að svo margir séu skráðir til heimils að Bræðraborgarstíg 1-3. Sennilega skýrist það að mestu leyti af því að þetta séu herbergi sem leigð séu út til einstaklinga og margir þeirra sem leigja útlendingar. Fólk sem leigi herbergi til skamms tíma fari svo úr landi án þess að flytja lögheimili sitt.
Halla Rut segir brunann ekki koma starfsmannaleigum neitt við og að íbúar hússins hafi ekki verið á vegum starfsmannaleiga. Hún er sérstaklega óánægð með að hennar fyrirtæki hafi verið nefnt í þessu sambandi. „Fullt af fjölmiðlum sagði mig eiga þetta hús og bera ábyrgð á þessum bruna. Eftir að þeir birtu það þá hringdu þeir. Þegar þeir komust að því að um lygi Eflingar var að ræða þá bara hættu þeir að segja það en leiðréttu ekki. Þetta er auðvitað ekki í lagi í lýðræðisríki“, segir Halla Rut.
Halla Rut stefndi Maríu Lóu Friðjónsdóttur, sérfræðingi í vinnustaðaeftirliti hjá Alþýðusambandi Íslands, fyrir ærumeiðandi ummæli um fyrirtæki hennar Menn í vinnu á síðasta ári. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í desember sl. að í orðum sérfræðingsins hefði falist ærumeiðandi aðdróttun og var ekki fallist á að María Lóa hefði verið í góðri trú um réttmæti ummælanna. Halla Rut segir þessar ærumeiðingar megin ástæðu þess að fyrirtækið varð gjaldþrota og að hún hafi ítrekað orðið fyrir fordómum á grundvelli rangra ásakana af hálfu verkalýðsforystunnar síða
Efling stefndi Mönnum í vinnu og forsvarsmönnum fyrirtæksisins síðasta sumar fyrir meint brot gegn starfsmönnum. Það mál bíður meðferðar héraðsdóms.