Bruninn á horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs í gær hefur víst ekki farið fram hjá neinum. Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þrír séu látnir og tveir á gjörgæslu. Einn til viðbótar var fluttur á sjúkrahús en er nú útskrifaður.
Í fréttum hefur komið fram að þrír hafi verið handteknir fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Öllu meira áhyggjuefni er að einn er í haldi lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna og kemur til greina að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. Það bendir fastlega til þess að grunur leiki á um íkveikju eða annað refsivert brot.
Annað sem vekur áhyggjur er að húsið er skráð á starfsmannaleigu og að þrátt fyrir að við nágrannar hafi tilkynnt um lélegan aðbúnað þar virðist öryggisbúnaður ekki hafa dugað til að afstýra banaslysi.
Einnig hefur komið fram að slökkviliðið hafi átt í vandræðum með að fá upplýsingar um það hversu margir bjuggu í húsinu en Fréttablaðið greindi frá því í morgun að þar séu 73 einstaklingar skráðir til heimilis.
Hversvegna þarf að gera ítrekaðar athugasemdir við aðbúnað láglaunafólks og það útlendinga sem eiga eðli máls samkvæmt ennþá erfiðara með að leita réttar síns en heimamenn? Af hverju er ekki gripið til aðgerða um leið og vakna grunsemdir um að starfsmannaleiga standi ekki undir ábyrgð sinni gagnvart því fólki sem hún hagnýtir? Af hverju er allur þessi fjöldi skráður með lögheimili í húsi sem augljóslega tekur ekki svo marga? Eru margir menn að deila herbergi eða búa einhverjir þeirra annarsstaðar og þá hvar? Í ósamþykktu húsnæði? Brunagildrum án öryggisbúnaðar?
Það er tímabært að við beinum sjónum okkar að starfsemi þeirra sem flytja inn erlent vinnuafl og því hvernig eftirliti er háttað. Þótt of langt sé gengið að líkja starfsmannaleigum við þrælahald er sennilega enginn hópur í okkar samfélagi í jafn veikri stöðu gagnvart vinnuveitendum og farandverkamenn sem hvergi í veröldinni njóta fullra félagslegra og borgaralegra réttinda. Ef slík starfsemi á að viðgangast á annað borð, verður að gera þá kröfu til þeirra sem hafa af henni tekjur að þeir tryggi öryggi þeirra starfsmanna sem þeir leigja út, sjái þeim fyrir fullnægjandi heilsugæslu og tryggi aðgengi þeirra að félagslegri ráðgjöf og lögfræðiþjónustu ef þeir þurfa á því að halda vegna starfa sinna.
Kvennablaðið vottar öllum sem eiga um sárt að binda vegna brunans samúð sína. Um leið vonum við að þessi harmleikur þjóni í það minnsta þeim tilgangi að eftirlit með starfsmannaleigum verði hert.