Þegar ég var unglingur hafði fullorðna fólkið áhyggjur af „eiturlyfjadjöflinum“, hraðakstri og ótímabærum barneignum. Þetta voru svona um það bil þær aðferðir sem mín kynslóð notaði til þess að fara sér að voða. Ég var komin yfir tvítugt þegar ég hitti í fyrsta sinn manneskju sem var haldin alvarlegri átröskun. Í dag er átröskun eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum ungra kvenna og nánast hægt að tala um lystarstol sem „tískusjúkdóm.“  Það er kannski léttúðugt að tala um tísku þegar um banvæna sjúkdóma er að ræða en átröskun er áunninn geðsjúkdómur, megrunaraðferðir fylgja tísku eins og allt annað og afstaða félagahópsins er stór áhættuþáttur. Það er því full ástæða til að vera vakandi fyrir þeirri staðreynd að skaðleg hegðun getur verið smitandi og hópar unglinga eiga það til að upphefja hana sem eitthvað göfugt eða flott.

Pro-Ana og Pro-Mia samfélög

Ekki viðurkenna allir átröskun sem sjúkdóm eða vandamál.  Til er fjöldi netsamfélaga sem kalla sig „Pro-Ana“ og kynna anorexíu og aðra átröskun sem „lífsstíl“. Meirihluti notenda eru stúlkur á aldrinum 13-20 ára sem eiga það sameiginlegt að vilja fá frið til þess að grennast hvort sem þær hafa gott af því eður ei. Annað afbrigði er „Pro-Mia“ en Mia-stúlkur eru haldnar lotugræðgi (bulemiu). Það þykir þó greinilega flottara að vera Ana og má skilja á umræðum að stúlkurnar tengi lotugræðgi við stjórnleysi en líti á svelti sem merki um sjálfsaga.

Oft gætir þversagna í kynningartexta þessara vefsetra. Kynningin hefst þá á yfirlýsingu um að átröskun sé hættuleg og að efni sem er að finna á síðunni geti ýtt undir skaðlega hegðun. Um leið er svo banvæn megrun lofsungin og notendur hvattir til þess að gera Pro-Ana lífsstílinn að þungamiðju tilveru sinnar. Stundum er „Ana“ jafnvel persónugerð eins og goðmagn, miskunnarlaus gyðja, sem notendum beri að dýrka og þóknast.

Áhrifaríkasta megrunaraðferðin sem kynnt er til sögunnar er sú að svelta sig og lífsstíll „Ana-stúlknanna“ gengur út á að finna og kynna aðferðir til þess að takast á við hungurverki án þess að borða, kasta upp með sem minnstri fyrirhöfn, og fela ástand sitt fyrir pabba og mömmu.

Á þessum síðum eru oft spjallborð þar sem notendur deila reynslu sinni og veita hver öðrum andlegan stuðning. Stúlkurnar hugga hver aðra þegar einhverri þeirra hefur orðið það á að borða, hvetja þá seku til að kasta upp, leggja til refsingar og gefa önnur „góð ráð“.

Sérfræðingar í megrun

Hvað sem segja má um Ana-stúlkurnar hafa þær rétt fyrir sér þegar þær kynna sig sem „sérfræðinga“ í megrun. Þær kunna hitaeiningatöflur utan að og vita upp á hár hversu margar mínútur þær þurfa að hlaupa til þess að brenna hálfu epli. Þær eru með það á hreinu hvaða fæðu er auðveldast að æla og hvernig best er að framkalla uppköst.

Þær vita líka vel hverskonar skaða megrunaraðferðir þeirra valda. Þeim er bara alveg sama. Þær vita að blæðingar falla niður þegar þær svelta sig. Þær vita að næringarskortur veldur því að þær eru alltaf skjálfandi af kulda. En þetta er að þeirra mati bara það gjald sem þær þurfa að greiða fyrir að vera æðislegar. Eða öllu heldur fyrir að verða það því að eigin mati eru þær aldrei nógu grannar. Ana stúlkur líta ekki á megrun sem vandamál fyrr en hárið fer að detta af þeim, tennur að skemmast og hár fer að vaxa í andliti og á líkama.

Aðferðirnar

Aðferðirnar sem stúlkurnar nota til þess að grennast eru sérkennileg blanda af ráðum sem flestir sem vilja grennast án þess að missa heilsuna geta með góðri samvisku tileinkað sér og ráðum sem eru ýmist algert glapræði eða þá beinlínis kjánaleg. Hér þjónar allt sama markmiði. Ráð eins og að stíga aldrei inn í lyftu og taka bjór alfarið út af matseðlinum hljóma bara nokkuð vel. En í næstu línu er svo meintri feitabollu ráðlagt að fara í kalt bað í staðinn fyrir að borða. Smáatriðin skipta ekki síður máli, t.d. þykir æskilegt að vera alltaf með tyggjó því hver einasta hitaeining skiptir máli.

Manni getur líka dottið í hug að votti fyrir skynsemisglóru hjá aðstandendum þessara síðna þegar þeir taka skýrt fram að það sé nauðsynlegt að borða eitthvað. Að minnsta kosti tvær máltíðir á dag og helst fjórar. En þegar nánar er að gáð merkir „máltíð“ í þessu samhengi t.d. einn tómat eða einn súputening sem hrærður er út í soðið vatn. Á einni síðunni er Ana-stúlkum ráðlagt að skera epli í átta bita og fá þannig út fjórar máltíðir. Á annarri síðu er þeim ráðlagt að borða eingöngu frosinn mat. Þannig endist hann lengur og það fer einnig orka í að bræða hann.

Í stuttu máli eru aðferðirnar einfaldar og áhrifaríkar en ekki að sama skapi skynsamlegar. Ekki borða, hreyfðu þig mikið (við erum að tala um stúlkur sem eru langt undir kjörþyngd og ættu helst að vera rúmliggjandi) og sjáðu til þess að þér sé alltaf kalt.

Sálrænar aðferðir

Að mati  Ana-stúlknanna er ekkert viðurstyggilegra en líkamsfita.  Notendur eru hvattir til að koma sér upp safni af „thinspiration“ myndum og spakmælum, þ.e. myndum sem sýna ákjósanlegt vaxtarlag og eiga að hvetja Ana-stúlkuna til að halda fast við áform sín um að ná megrunarmarkmiðum sínum. Þessum „thinspo“ myndum fylgja oft frasar á borð við „bones are beautiful“ og „nothing tastes as good as skinny feels“ og notendur þessarra vefsíðna og Pro-Ana bloggarar klifa oft á þeim líkt og möntrum.  Myndirnar sem fylgja þessari grein eru einmitt dæmi um „thinspiration“. Margar stúlkur ganga þó miklu lengra í því að grenna sig enda leiðir þessi „lífstíll“ oft til þess að fólk fær ranghugmyndir um eigið vaxtarlag. Markmiðið næst aldrei.

Einnig eru útlistaðar ýmsar sálrænar aðferðir sem eiga að draga úr matarlyst. Það þykir t.d. æskilegt að borða af litlum diski, helst svörtum eða dökkbláum og best er að borða fyrir framan spegil svo stúlkan gleymi því nú ekki hvað hún er feit og ógeðsleg rétt á meðan hún nærist. Þá þykir snjallræði að klifa á því í huga sér að hungurverkir séu aðeins merki um að líkaminn sé að losa sig við fitu.

Að plata pabba og mömmu

Líf Ana-stúlkunnar snýst um tvennt: að halda áfram að grennast og að leyna því markmiði. Ana-stúlkurnar eru ekki bara sérfræðingar í hættulegum megrunaraðferðum, þær eru líka meistarar í því að blekkja og ljúga. Það þykir ekki vænlegt til árangurs að fjölskyldan viti að maður sé nánast hættur að borða. Sumar aðferðirnar sem þær nota til að slá ryki í augu foreldra sinna eru svo hugvitssamlegar að það er beinlínis grátlegt að þessar stúlkur skuli ekki finna hæfileikum sínum betri farveg. Hér eru nokkur dæmi:

-Mælt er með því að skrá sig í tómstundastarf á matartíma svo maður komist frekar upp með að borða í einrúmi eða segjast hafa borðað annarsstaðar en heima.
-Að óhreinka disk, gefa hundinum skinkusneið og skilja skinkuna eftir óvarða á  eldhússborðinu, svo mamma haldi að maður hafi fengið sér samloku.
-Gefa heimilislausum nestið sitt.
-Ef maður neyðist til að setjast til borðs með fjölskyldunni fær maður sér dálitla hrúgu á diskinn og dreifir smám saman úr henni því það blekkir augað ef forminu er breytt. Af og til setur maður gaffalinn upp í sig og gætir þess þá að hafa áhorfendur. Einnig ku þykja snjallt að skila matnum í servíettu svo lítið beri á.

Kannski er það óhugnanlegasta af öllu sú siðferðisregla að styðja aðrar Ana og Mia stúlkur í lyginni. Sú hugmynd gengur svo langt að þær merkja sig með perluarmböndum þar sem litir og staðsetning gefa til kynna hverskonar átröskun stúlkan er haldin. Ana-stúlka sem sér aðra stúlku bera þessháttar armband veit að hún þarf á stuðningi hennar að halda til þess að fá frið til að svelta sig.

Sjálfsköðun er álíka vandamál

Sumar „Pro-Ana“ vefsíður kynna sjálfsköðun einnig sem „lífsstíl“. Mér hafði ekki dottið í hug fyrr en ég rakst á slíka vefsíðu að sjálfssköðun væri orðin samskonar tískufyrirbæri og átröskun en samkvæmt fjölmiðlum sem virðast vera öllu áreiðanlegri en slúðurblöð er töluvert algengt að unglingar taki upp á því að veita sjálfum sér áverka, einkum með því að skera í hold sitt en einnig með því að brenna sig, klípa eða nota barefli til að veita sjálfum sér áverka. Það á við um sjálfsköðun eins og átröskun að stúlkur eru í stórum meirihluta.

Á næstu dögum mun ég fjalla um sjálfskaðasíður og birta viðtöl við íslenska unglinga sem hafa skaðað sjálfa sig.