Síðasta miðvikudag sagði ég frá netsamfélögum sem líta á átröskun sem lífsstíl. Á sama hátt eru til netsamfélög ungmenna sem álíta það eðlilega aðferð til að takast á við tilfinningar, að skera sig, brenna, hárreyta sjálfan sig eða skaða á annan hátt. Sjálfssköðun virðist mun útbreiddari meðal stúlkna en pilta. Sumir telja þó að piltar feli áverka betur og skaði sig frekar með höggum en eggvopnum sem geri þeim auðveldara að skálda upp skýringar.

Líkindi með Pro-Self Harm og Pro-Ana síðum

Líf þeirra sem aðhyllast sjálfssköðun minnir að mörgu leyti á líf Ana-stúlkunnar og nokkur dæmi eru um síður þar sem þetta tvennt fer saman. Krakkar sem skera sig eru yfirleitt ekki að reyna að fyrirfara sér frekar en Ana-stúlkurnar þótt hegðunin geti vissulega haft í för með sér varanlegan skaða og jafnvel dauða. Í báðum tilvikum eru fallegar og hæfileikaríkar, hvítar millistéttarstúlkur í meirihluta þeirra sem skera sig, stúlkur sem virðast við fyrstu sýn ekki eiga við nein sérstök vandamál að etja. Köttarinn hneygist til þess, eins og Ana-stúlkan, að ganga æ lengra í skaðlegri háttsemi og á vefsetrunum fara fram umræður um það hvaða áhöld sé best að nota til að veita sjálfum sér áverka og hvernig best sé að fela þessa hegðun fyrir umheiminum. Á sama hátt og Ana-stúlkurnar auðkenna Köttarar sig með armböndum.

Það sem helst greinir Ana-stúlkur frá Kötturum er að Ana-stúlkan er að reyna að stjórna útliti sínu en Köttarinn er hinsvegar að reyna að stjórna tilfinningum sínum eða yfirfæra sálrænar þjáningar á líkamann. Í báðum tilvikum gildir þó að flestir sem tileinka sér þessa hegðun hafa ranga og neikvæða sjálfsmynd og að einn stærsti áhættuþátturinn er félagsskapur þar sem þessi hegðun er upphafin.

Þversagnir

Enda þótt Pro-Self Harm vefsíður kynni sig sem vettvang fyrir þá sem vilja meiða sig án þess að þurfa að hlusta á vandlætingar, virðist margir notenda sjálfir líta á sjálfsköðun á það sem vandamál og ég hef ekki séð dæmi um að notendur Pro-Self Harm síðna ráðleggi öðrum að taka þessa hegðun upp. Góðum ráðum er beint til þeirra sem skaða sig nú þegar.

Vefsamfélög þeirra sem skera sig minna þó einnig um margt á Pro-Ana síður. Rétt eins og á Pro-Ana síðunum æpa þversagnirnar á mann. Varað er við hegðun sem á sama tíma er upphafin. Notendur lýsa fyrirlitningu á þeim sem skaða sig til þess að verða sér úti um athygli en birta svo myndir af  eigin áverkunum og gefa stundum dramatískar lýsingar á kvöl þess sem þjáist í leynum.  Talað er um sjálfssköðun sem aðferð til að vinna á andlegum þjáningum en um leið virðast margir á barmi örvæntingar og þrá það helst að komist upp um þá.

Á sama hátt og á Pro-Ana síðunum virðist manni í fyrstu sem aðstandendur síðnanna búi yfir þó nokkurri skynsemi. Ráðin snúast um það hvaða áhöld og aðferðir sé best að nota til þess að valda sem mestum sársauka með sem minnstri áhættu. Þannig er bent á að grunnar rispur svíði oft meira en djúpir skurðir  og notendur eru hvattir til að sótthreinsa áhöldin og skerpa þau reglulega. Ítrekað er að það sé óþarfa áhætta að skera djúpa skurði í holdi sitt en maður hlýtur þó að efast um að hugur fylgi máli þegar sömu síður birta myndir af hroðalegum áverkum og ljótum örum eftir skurði sem hefði þurft sauma.

Að fela áverka

Á Pro-Harm síðum má finna tillögur að lygasögum sem hægt er að grípa til ef köttarinn er krafinn skýringa á nýjum áverkum. Hægt er að skrifa grunnar rispur á flækingsketti og stærri skurði á eldhússóhöpp.

Einnig er að finna á þessum síðum góð ráð til að leyna áverkum. Það augljósa ráð að klæða þá af sér er ekki alltaf nothæft því það vekur athygli í sjálfu sér að klæðast flíkum með síðum ermum og skálmum í steikjandi hita. Það getur því að mati ráðgjafanna verið áhrifaríkara  að nota armbönd eða úr, því þótt þau feli ekki úlnliði dragi þau athyglina frá örum og áverkum. Mælt er með að stúlkur með ljót ör klæðist þunnum mussum ef heitt er í veðri og stundum er hægt að fela ör með líkamsskreytingum svo sem húðflúri eða að teikna eða skrifa á líkama sinn.

Snjallast þykir þó að skera sem minnst í sýnilegustu svæði líkamans en velja frekar innanverð læri og upphandleggi. Þá þykir gott ráð að skera sig í sturtu til þess að leyna blóðinu fyrir mömmu og pabba.

Athyglissýki eða eitthvað annað?

Enn ein þversögnin sem einkennir sjálfsskaðasíður er að þótt þær þjóni þörf notenda fyrir að leyna hegðun sinni og komast upp með hana, ber samt mikið á depurð og jafnvel örvæntingu yfir því að hinir fullorðnu skuli trúa lygum þeirra um að þeim líði vel. Margir virðast líta á það að veita sjálfum sér áverka sem táknrænan gjörning,  einhverskonar yfirlýsingu um innri þjáningu. Flestar þessara stúlkna virðast þannig þrá athygli en um leið vera mjög viðkvæmar fyrir því að vera stimplaðar athyglissjúkar. Íslensk stúlka sem skar sig reglulega í tvö ár en hætti því fyrir sex árum lýsir afstöðu sinni með þessum orðum:

Þegar mamma áttaði sig á þessu tók hún strax þá afstöðu að ég væri að biðja um hjálp. En ég var ekkert að biðja um hjálp enda hefði ég þá ekki falið þetta svona vel. Ég þóttist einfaldlega hafa fundið aðferð til að díla við ástarsorg sem ég komst ekki yfir og var kannski merki um þunglyndi. Það er einmitt út af þessu sem krakkar fela þetta, af því að fullorðna fólkið misskilur það hversvegna þau skera sig.

Það er í sjálfu sér umhugsunarvert að ungt fólk sem líður nógu illa til þess að velja brjálæðislegar aðferðir til þess að takast á við það, skuli fá þau skilaboð að þörfin fyrir athygli sé vandamál, fremur en þær erfiðu aðstæður eða ef til vill geðraskanir sem þörfin er sprottin af. Eftir að hafa skoðað vangaveltur unglinga sem skaða sig held ég að það að afgreiða þessa hegðun sem athyglissýki sé álíka gagnlegt og að afgreiða vímuefnaneyslu sem óþekkt.

Til þess að gefa lesendum betri innsýn í hugarheim unglinga sem skaða sig hafði ég upp á nokkrum íslenskum ungmennum sem skaða sig. Frásagnir þeirra verða birtar í Kvennablaðinu á næstunni.