Það er árið 2018 og ennþá viðgengst það að komið er fram við einhleypt fólk eins og einhverskonar úrkast. Á Bolungarvík hefur tíðkast að útiloka einhleypa frá Þorrablóti (eða þannig var það a.m.k. fyrir nokkrum árum) og sama venja er víst viðhöfð á Fáskrúðsfirði.
Rökin fyrir þessari mismunun eru þau að þetta sé „hjónaball“. Þau rök standast auðvitað ekki fyrst ekkjur og ekklar eru velkomin. Fólk í sambúð virðist líka vera velkomið þótt það sé ekki „hjón“ í skilningi laga og trúfélaga. Það eru bara þau sem eru makalaus annaðhvort af því að ástarsambönd hafa ekki gengið upp, eða þá að þau kæra sig ekki um maka, sem mega ekki vera með. Ef vandamálið væri heitið á skemmtuninni væri fljótlegt að leysa það. Hin raunverulega hindrun er sú að það væri „ömurlegt að vísa hjónum frá“. Að vísa einhleypum frá er hinsvegar allt í lagi.
Ég fann oft fyrir fordómum á meðan ég var einhleyp og ég varð fyrir eðlisskyldri mismunun á ættarmóti fyrir 20 árum. Ég bauð vinkonu minni með mér á ættarmótið en var þá tjáð að hún mætti ekki mæta í sameiginlegan kvöldverð. Hún mátti samt náðarsamlegast koma á ballið á eftir. Þegar ég ákvað að mæta ekki í borðhaldið en vera gesti mínum til samlætis, fékk ég ákúrur fyrir að ég væri að spilla gleðinni fyrir hinum (semsagt með því að koma ekki!)
Ég hélt satt að segja að viðhorfin til einhleypra hefðu eitthvað aðeins skánað síðan og að smáþorp úti á landi væru óvenju forpokuð en einhleypir verða ennþá fyrir fordómum og mismunun, jafnvel þótt þeir búi á höfuðborgarsvæðinu. Vinkona mín varð t.d. fyrir mismunun bara fyrir nokkrum vikum. Starfsfólki á vinnustað hennar hélt árshátíð og að sjálfsögðu máttu allir taka með sér maka. Hún er makalaus en ætlaði að bjóða vinkonu sinni með sér. Henni var sagt að það gengi ekki. Hún hafði borgað í starfsmannasjóðinn sem var notaður til að borga fyrir herlegheitin, líka fyrir makana, en skilaboðin voru skýr – enginn á vinnustaðnum kærði sig um að hitta vinkonu hennar. Hún átti hinsvegar að vera tilbúin til að hitta kærasta og eiginmenn samstarfskvenna sinna. „Þeim hefði náttúrulega fundist miklu þægilegra að hitta hana ef ég hefði sleikt á henni klobbann“ sagði hún, en hvorug þeirra var til í það út á aðgang að árshátíð.
Því er haldið fram að þrátt fyrir lög um kynjajafnrétti sé konum ennþá mismunað í launum á grundvelli kynferðis. Í Bretlandi eru konur undir þrítugu komnar upp fyrir karla í launum og sennilega dregur saman með kynjunum víðast hvar. Rannsóknir benda hinsvegar til þess að hjúskaparstaða hafi áhrif á tekjumöguleika a.m.k. í Bandaríkjunum. Einhleypir karlar hafa töluvert lægri tekjur en kvæntir og ekki að sjá að það skýrist af öðru en hjúskaparstöðu. Giftar konur í Ameríku hafa aftur á móti lægri tekjur en einhleypar. Sennilega spilar þar inn í að mæður eru oft langtímum frá vinnumarkaðnum en ef hjónaband hefur í raun neikvæð áhrif á tekjur kvenna en jákvæð á tekjur karla. þá er það áhugavert rannsóknarefni. Það væri forvitnilegt að sjá hvort einhver fylgni er milli launa og hjúskaparstöðu á Íslandi. Mér finnst það ótrúlegt en ef út í það er farið er líka ótrúlegt að árið 2018 skuli einhleypum vera meinaður aðgangur að skemmtunum. Ef ég réði yfir teymi félagsvísindamanna myndi ég að minnsta kosti láta tékka á þessu.