Blóð og sæði

Það er annars athyglisvert að náin tengsl skuli nánast alltaf vera skilgreind út frá fjölskylduböndum eða kynlífi. Rétt eins og ekkert vitrænt geti komið út úr samskiptum nema maður sulli blóði eða sæði saman við og búi svo til karla og kerlingar úr deiginu.

Einu sinni fór ég á ættarmót. Ég er afskaplega langt frá því að vera frændrækin og fór aðallega fyrir þrýsting frá fjölskyldunni. Ég er semsagt áhrifagjarnari en ætla mætti. Ég sá fyrir mér fullt af ókunnugu fólki sem myndi brosa fleðulega og spyrja mig um hluti sem koma því ekki við. Sá fyrir mér að ég fyndi mig knúna til að svara í sömu mynt þótt mér gæti ekki verið meira sama um það hvað fólk sem ég á aldrei eftir að umgangast á marga krakka eða hversu lengi það hefur unnið hjá Kaupfélaginu. Gekk spádómur minn eftir.

Ég nennti ekki að fara til þess eins að afbera helgina svo ég bauð vinkonu minni með mér. Þegar ég hringdi til að skrá okkur var mér tjáð að vinkonan gæti ekki tekið þátt í sameiginlegu borðhaldi. Ég spurði hvort það væri ekki rétt skilið hjá mér að allt gifta fólkið fengi að hafa sinn nánasta vin með sér og hvort einhleypir teldust þá annars flokks. Ég fékk ekki önnur svör en þau að makar væru auðvitað velkomnir en það væri ekki pláss fyrir vini.

Við fórum á ættarmótið en ég mætti ekki í dinnerinn. Fannst lítill klassi yfir því að draga bestu vinkonu mína út í hundsrass og skilja hana svo eina eftir en langaði heldur ekkert án hennar. Mér fannst heldur ekki koma til greina að mæta í samkvæmi þar sem fólki er mismunað eftir hjúskaparstöðu. Mér skilst að ég hafi sært á sjötta tug manns holundarsári með því að mæta ekki. Slíkar eru nú vinsældir mínar meðal fólks sem veit ekki einu sinni hvað ég heiti.

Í þessu tilviki, eins og svo mörgum öðrum, snerist málið ekki um það hver deilir með manni sorg og gleði eða hvers félagsskap maður kýs, heldur hverjir tengjast blóðböndum og hverjir skiptast á líkamsvessum. Svo hneykslumst við á því að unglingar skuli nota kynferðislegar athafnir sem aðgöngumiða í partý.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Blóð og sæði

  1. ————————————-

    Hefði hún getað farið ef þú hefðir sagt að hún væri kærasta þín eða verður það að vera gagnk. sambönd?

    Annars er þetta mjög skemmtileg pæling hjá þér Eva.

    Posted by: Þorkell | 4.07.2007 | 18:25:01

    ————————————-

    Ég veit það bara ekki. Ég spurði þetta fólk sem ég hitti ekkert að því hverjum það svæfi hjá svo vel má vera að þarna hafi verið einhver samkynhneigð pör. Ég var ekkert til í að ljúga upp einhverju ástarsambandi enda finnst mér ekkert rétt eða eðlilegt við að sambúðarfólk njóti forréttinda. Það er hinsvegar raunin nánast allsstaðar.

    Posted by: Eva | 4.07.2007 | 18:56:58

    ————————————-

    Ú, manstu þetta var voða gaman (fannst mér).
    Veistu ég er alveg að skilja þetta. Þú hefðir auðvitað bara átt að segja að Heiða væri kærastan þín. Ef þú hefðir tekið Kela með þér hefðu bara allt gert ráð fyrir að hann væri kærastinn þinn. Allavega að þú værir ekkert smá spennt fyrir honum og værir að leggja þig alla framm um að ná í hann.
    En af því að þetta var stelpa, þá vill fólk helst ekki hugsa út í að hún gæti verið kærasta þín og þú þar af leiðandi lessa.
    Ég skil samt vel að vinir séu ekki eins velkommnir á svona „mót“, afþví bara.
    Ég tildæmis nenni ekkert að kynnast ÖLLUM vinum hennar Dönu, þó ég þekki marga, en ég vil endilega læra að þekkja kærustuna hennar því að hún er það spes að Dana hefur ákveðið að eyða lífinu með henni…
    Og er þar af leiðandi fyrsta LESSAN í þessari familíu.

    Posted by: Hulla | 4.07.2007 | 19:04:10

    ————————————-

    Nákvæmlega. Þú hugsar greinilega eins og flestir. Það er eitthvað svo miklu merkilegra við vináttu þeirra sem sofa saman en annarra.

    Posted by: Eva | 4.07.2007 | 19:24:37

    ————————————-

    Það vill svo skemmtilega til að ég hef einmitt verið að velta fyrir mér að skrifa um vináttu á annál, þ.e. ólíka afstöðu fólks til vináttu og þá sérstaklega muninn á vináttu og hjónabandi (í mínum huga er ekki mikill munur þar á).

    Posted by: Þorkell | 4.07.2007 | 19:47:50

    ————————————-

    Í nútímasamfélagi er tilgangurinn með hjónabandi eða sambúð sá að auðvelda manni að eyða sem flestum stundum með allra besta vini sínum og deila eigum og ábyrgð. Ástæðan fyrir því að maki þinn verður þér mikilvægari en aðrir vinir er einfaldlega sá að samband ykkar þróast við kjöraðstæður, þ.e. stöðug samskipti.

    Posted by: Eva | 5.07.2007 | 7:15:26

Lokað er á athugasemdir.