Boris Johnson er veikur. Það snertir okkur – ekki af því að hann sé svo mikilvægur maður heldur af því að við vitum hver hann er. Hann er ekki bara einn af þessum 55.000 Bretum sem hafa greinst með kórónusmit. Ekki bara einn af þessum 1600 Bretum sem liggja á gjörgæslu vegna veirunnar. Ekki bara einn þeirra sem gætu bæst í hóp þeirra 6000 Breta sem hafa dáið á síðustu vikum, eftir að hafa kvatt ástvini sína í gegnum Skype. Ekki bara einn úr hjörðinni heldur manneskja með nafn og andlit.
Allt í einu verður möguleikinn á því að það sama komi fyrir einhvern sem við þekkjum persónulega mun raunverulegri. Hvort sem okkur líkar vel eða illa við Boris Johnson vekja veikindi hans athygli okkar á meðan einhver Peter Johnson, sem við höfum aldrei heyrt minnst á, er bara einn af hjörðinni. Við erum uggandi yfir stærð hjarðarinnar, ekki yfir því hvort einhver óþekktur Johnson þurfi á öndunarvél að halda.
Að hugsa í hjörðum
Við hugsum í hjörðum. Að einhverju leyti er það óhjákvæmilegt. Það er ekki hægt að reka samfélag nema vega hagsmuni einstaklingsins móti hagsmunum heildarinnar. Kannski er það líka að einhverju leyti aðferð mannshugans til þess að vernda geðheilsu okkar – deyfa okkur gegn mannlegi þjáningu. Samúð er tilfinning sem knýr okkur til þess að gera það sem hægt er til þess að draga úr þjáningum og þegar það er ekki hægt þá er hún óþægileg og truflandi og getur þróast í lamandi kvíða.
En það er líka hættulegt að hugsa í hjörðum. Það er hugmyndin um óvinahjörð sem býr að baki vopuðum átökum. Fjandsamleg afstaða til minnihlutahópa viðgengst af því við hugsum um þá sem hjörð.
Flóttafólk er ágætt dæmi. Við notum líkingamál á borð við „flóð“ um ferðir stórra hópa fólks yfir landamæri. Þeir sem er sérlega í nöp við flóttafólk líkja því við óværu. Ég hef séð flóttafólki líkt við rottuplágu, krabbamein og faraldur. Og jafnvel þótt samúð okkar sé með flóttafólki komumst við ekki hjá því að hugsa um það hóp. Hjörð.
En af og til fær vandamálið nafn og andlit. Og þá kveður við annan tón. Við sjáum myndina af Alan litla Kurdi á ströndinni og að okkur læðist sú hugmynd að hann hefði getað verið okkar barn. Ef við værum ekki réttborin til forréttinda, frelsis og friðar. Og þá fáum við kökk í hálsinn, um stund. Fjölskylda frá Sýrlandi flytur í næsta hús og örgustu rasistar halda áfram að andskotast út í flóttafólk en taka fram að þau þarna í númer 17 séu nú samt ágæt eða að þeirra mál sé nú dálítið sérstakt svo auðvitað eigi þau að fá að vera. En öll hin – droparnir í flóðbylgjunni – flugurnar í gerinu – það þarf að stoppa þau.
Samstaðan í kóvíðinu
Og nú stöndum við frammi fyrir plágu. Hjarðir fólks hafa smitast, lent á gjörgæslu og dáið. Við bregðumst við, ætlum að standa saman, takast á við þetta saman. Það er hundleiðinlegt að mega ekki halda partý en það er hugur í fólki, við mætum kóvíðinu með kímnigáfu að sköpunargleði, samfélagsmiðlar fyllast af handþvottamímum, páskabakkelsið er skreytt með sóttvarnargrímum úr glassúr og fræga fólkið og landsliðið í sóttvörnum gefur út áróðurssöng til þess að fá fólk til að halda sig heima um páskana.
En það kemur að því að fólk hættir að nenna þessu. Eða gefst upp af því það getur ekki unnið heima með smábörn yfir sér. Einhver á ekki pening til að láta senda sér stórar pantanir úr matvörubúð og skreppur því í búðina í síðustu viku mánaðar, þrátt fyrir að eiga að vera í sóttkví. Svo fer að bera á gremju og við viljum bara fara að klára dæmið. Veiran er komin til að vera og mun hvort sem er drepa einhverja. Aðallega þá sem voru komnir á grafarbakkann hvort sem er. Ætlum við bara að hafa heiminn gjörsamlega á hvolfi um ókomna tíð vegna nokkurra gamalmenna, offitusjúklinga og reykingastrompa?
Og hér er hættan. Tökum eftir því þegar við hættum að hafa áhyggjur af ölduðum foreldrum annarra, einhverri feitabollu úti í bæ, einhverjum ónefndum karli sem reykti í 30 ár. Tökum eftir því þegar við hugsum í hjörðum.
Hjarðónæmisstefnan
Faraldursfræðingar hugsa gjarnan í hjörðum. Þeir eiga að gera það, í því felst starfið. En þeir ganga mislangt í því. John P.A. Ioannidis bendir á að ákvarðarnir um að stöðva stóran hluta allrar starfsemi samfélagsis byggi ekki á neinum áreiðanlegum gögnum. Ekkert sé vitað um raunverulega smithættu og þar með ekki heldur um raunverulega dánartíðni og margt bendi til þess að hún sé mun lægri en þær tölur sem Alþjóðaheilbrigðsmálastofnunin gaf upp um miðjan mars. Ioannidis segir hreint út að sennilega muni veiran koma upp aftur og aftur og að kostnaðurinn við að reyna að halda henni í skefjum gæti þegar upp er staðið orðið meiri en ávinningurinn.
Þótt það hafi ekki verið orðað jafn afdráttarlaust var þessi hugsun á borði sú afstaða sem Bretar lögðu upp með. En svo fóru líkin að hrannast upp og þeir sem lentu á gjörgæslu voru ekki bara hjörð, heldur manneskjur með nöfn og andlit. Manneskjur sem áttu aðstandendur. Hjörðin var orðin samsafn af einhverjum sem hétu Mary Rose eða Ismail eða Boris og allt í einu virtust hagsmunir heildarinnar ekki lengur jafn mikilvægir. Fyrirtækjum var lokað og fólki gert að halda sig sem mest innandyra.
Í Svíþjóð halda sóttvarnaryfirvöld enn í hjarðónæmisstefnuna. Hagsmunir heildarinnar ganga fyrir. Útkoman verður í versta falli sú að allmörg rými losni á hjúkrunarheimilum, álagi vegna lungna- og hjartveikra verði létt af heilbrigðiskerfinu og Svíþjóð verði eina ríki Vestur Evrópu sem getur áfram haldið uppi svipuðum lifistandard og hin síðustu ár. Sennilega deyja þeir sem hefðu bjargast með því að setja samfélagið á hliðina í næstu lotu hvort sem er.
Hingað til virðist meirihluti Svía einnig hugsa í hjörðum. Þegar þetta er ritað eru 618 mann látnir úr kórónuveiki í Svíþjóð og 791 hefur lent á gjörgæslu frá upphafi. Þeim fjölgar sem syrgja og þeim fjölgar sem óttast að drepa foreldra sína með nærveru sinni. Það verður áhugavert að sjá hvort tilhneigingin til að hugsa í hjörðum verður áfram ríkjandi meðal Svía þegar Karl bróðir OKKAR og Maria nágranni OKKAR verða meðal fórnarlamba.