Þegar neyðarástand skapast fara yfirvöld fljótlega að færa sig upp á skaftið. Á örfáum vikum hefur það ástand skapast á Íslandi að ótrúlega mikið vald hefur í reynd færst frá kjörnum fulltúrum til sóttvarnaryfirvalda. Vitaskuld eiga stjórnvöld að móta stefnu sína í sóttvarnarmálum sem öðru í takt við ráðgjöf sérfræðinga en þegar heilbrigðisyfirvöld taka sér vald sem á að vera á hendi ráðherra þá er ástæða til að staldra við og spyrja á hvaða leið við erum.
Fyrir nokkrum vikum sendu landlæknir og sóttvarnarlæknir út tilmæli til foreldra um að senda börn í skóla. Þessi stjórnvaldsaðgerð, sem hefði með réttu átt að vera á ábyrgð menntamálaráðherra, sætti engri gagnrýni af hálfu þeirra fjölmiðla sem mesta útbreiðslu hafa. Engri. Ég hef ekki tekið eftir öðrum dæmum um að heilbrigðisyfirvöld hafi beinlínis gengið inn á valdsvið annarra stjórnvalda en það er full ástæða til að vera vakandi.
Í gær tók Alma Möller landlæknir svo að sér á blaðamannafundi að vara landsmenn við falsfréttum. Það er rétt og eðlilegt að heilbrigðisyfirvöld leiðrétti hættulegar rangfærslur sem varða faraldurinn en Alma gerði það ekki heldur lýsti hún ánægju sinni með íslenska fjölmiðla og hvatti fólk til að velja þá fjölmiðla sem hefðu sýnt að þeir væru traustsins verðir. Það er alltaf ástæða til að vera á verði þegar yfirvöld eru sérstaklega ánægð með blaðamenn og í þessu tilviki er sú ánægja mjög skiljanleg þar sem heilbrigðisyfirvöld hafa engri gagnrýni sætt af hálfu „mainstream“ fjölmiðla. Aðhaldið sem landlæknir nefndi réttilega að fjölmiðlar ættu að veita er ekkert. Verra er þó þegar embættismaður leyfir sér að dylgja um gæði fjölmiðla, frekar en að benda á tilteknar fréttir sem kunni að vera rangar eða vafasamar. En ekki tók ég eftir því að nokkur þeirra blaðamanna sem á fundinum voru gerði athugasemd við þessar dylgjur eða spyrði hvaða fjölmiðla hún teldi áreiðanlega.
Það er réttmætt hlutverk heilbrigðisyfirvalda og almannavarna að brýna fyrir fólki nauðsyn þess að viðra reglur um sóttkví, samkomutakmarkanir og aðrar neyðarráðstafanir. En þegar yfirvaldstilburðir birtast í tilmælum um hegðun fólks á eigin heimilum er ástæða til að gera athugasemd. Heilbrigðisyfirvöld gefa út tilmæli um að fólk stundi hreyfingu, fái nægan svefn, neyti ekki áfengis, hætti að reykja (þótt ótrúlegt sé að það breyti nokkru um það hversu þungt sjúkdómurinn leggst á fólk þótt það hætti að reykja nokkrum vikum áður en það smitast) og jafnvel er varað við kaffidrykkju.
Þessi afskiptasemi þjónar engum tilgangi öðrum en þeim að íþyngja fólki enn frekar. Allir vita að langvarandi röskun á rútínu og óhófsneysla af hvaða tagi sem er getur verið skaðleg, það þarf ekki að segja okkur það. Og umvandanir af þessu tagi hafa engin áhrif á þá sem drekka frá sér ráð og rænu, slást, fremja glæpi, vanrækja börnin sín og rjúfa sóttkví til að fara í ríkið. Og nei – það er ekki í lagi að hvetja alla hina til að tileinka sér lífstíl sem landlækni er að skapi. Fólkið sem fær sér einn drykk yfir páskadagskrá sjónvarpsins þegar það hefði frekar viljað vera í sumarbústaðnum með barnabörunum eða á skíðaferðalagi með vinum sínum, á ekki að þurfa að kveljast af samviskubiti.
Við umberum þessar móðurlegu umvandanir landlæknis á meðan ekki er lengra gengið en að „gefa góð ráð“. En þegar forstjóri Landspítalans gefur út yfirlýsingu um að covid-grín sé óæskilegt, þá er nú full-langt gengið. Ég myndi kannski skilja þetta tiltæki Páls Matthíassonar ef mjög meiðandi og ósmekklegur húmor á kostnað sjúklinga hefði flætt yfir samfélagsmiðla án viðbragða frá almenningi en það hefur bara ekkert borið á slíku. Það covid-grín sem ég hef orðið vör við er ekki á kostnað sjúklinga heldur að langmestu leyti góðlátlegt og snýr helst að þeirri undarlegu aðstöðu að þurfa að halda félagsfirð á almannafæri, komast ekki að heiman, þurfa að halda matarboð í gegnum netfundakerfi, og leggja sérstaka áherslu á handþvott. Ég hef séð góðlátlegt grín á kostnað þeirra sem aðhyllast samsæriskenningar tengdar farsóttinni, þeirra sem hamstra klósettpappír og fleira í þeim dúr en ekkert andstyggilegt.
Það er ekki bara í lagi að slá á létta strengi og nota sköpurnargleðina til að takast á við þá aðstöðu sem við erum í, heldur beinlínis nauðsynlegt. Ég ætla rétt að vona að næsta kórónuslagorð verði ekki hlýðum Páli, eða að það fari í gang einhver vandlætingarherferð í garð þeirra sem sjá spaugilegar hliðar á ástandinu.
Og hér er svo smávegis covid-19 grín handa yfirvaldinu: