Anders Tegnell, yfirsóttvarnalæknir Svíþjóðar, telur hið háa hlutfall látinna í Svíþjóð miðað við mörg önnur lönd skýrast af nákvæmni Svía í skráningum.

Tegnell segir, að þar sem í Svíþjóð séu smit greind og rakin, sé skráning dánarorsakar áreiðanleg. Í flestum öðrum löndum megi búast við skekkjum í opinberum tölum um fjölda smita og hætta sé á að andlát af völdum kórónusýkingar séu ekki rétt skráð. Í sumum löndum séu t.d. aðeins skráð andlát þeirra sem hafa látist á heilbrigðisstofnunum auk þess sem ekki sé alltaf hægt að gefa út opinberar tölur í rauntíma og misjafnt milli ríkja hvernig staðið sé að skráningu tölfræðilegra gagna. Hann telur óraunhæft eins og málin standa að samanburður milli landa gefi raunsanna mynd. Réttari niðurstöður muni fást í framtíðinni þegar betri gögn liggja fyrir.

Tegnell telur að samanburður milli landa sé óraunhæfur, sérstaklega þegar einblínt sé á dánarhlutfall. Nauðsynlegt sé að skoða einnig tölur um gjörgæslulegur og áhrif stjórnvaldsaðgerða á samfélagið.

Göteborgs-Posten greindi frá

Kvennablaðið hefur fjallað um misbrest á skráningum aldraðra sjúklinga sem látast úr kórónuveiki í Bretlandi og Frakklandi. Ritstjórn hefur ekkert fundið sem bendir til þess að aldraðir séu undanskildir í opinberum tölfræðigögnum hinna Norðurlandanna.