J.K. Rowling hefur ákveðið að skila verðlaunum sem mannréttindasamtök kennd við Robert F. Kennedy veittu henni desember 2019 fyrir góðgerðarstarf í þágu fátækra og munaðarlausra barna. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er tilraun formanns samtakanna, Kerry Kennedy, til skoðanakúgunar.

Formaðurinn sendi nýlega frá sér, í nafni samtakanna, yfirlýsingu þar sem hún atyrti Rowling fyrir skoðanir hennar á málefnum transfólks og meintar árásir á transfólk. Rowling segist ekkert hafa á móti transfólki en að hún hafi áhyggjur af því óheft frelsi til að skilgreina kyn sitt án íhlutunar hins opinbera kunni að verða misnotað og leiða til enn meiri hörmunga fyrir börn með kynáttunarvanda. Hún hefur einnig haldið því fram að til séu tvö líffræðileg kyn, karlkyn og kvenkyn og telur óþarfa nærgætni við transfólk að forðast að nota orðin karl og kona. Mannréttindasamtök Roberts Kennedy geta ekki fellt sig við að verðlaunahafi álíti að kynin séu tvö enda segir formaðurinn það vísindalega sannað að ekki séu til aðeins tvö líffræðileg kyn. Reyndar er langt frá því að einhugur ríki um þá skoðun meðal vísindamanna að kynin séu ekki tvö. Sú hugmynd stangast jafnframt á við reynslu yfirgnæfandi meirihluta fólks. Hingað til hafa flestir talið fólk sem ekki fellur í annan flokkinn sjaldgæf frávik og fáir lenda í vandræðum með að segja til um kyn sitt eða telja kynferði sitt í ósamræmi við kynfæri sín og hormónabúskap líkamans.

Ákvörðun Rowling er hárétt. Það er svivirðilegt að verðlaun og viðurkenningar séu notuð til þess að bæla niður frjáls skoðanaskipti og Rowling er jafn mikill velgjörðamaður barna þótt skoðanir hennar á kynjapólitík fari fyrir brjóstið á Kerry Kennedy. Rowling þarf ekki viðurkenningar frá kúgunarsamtökum til að vekja athygli á þeim málefnum sem hún styður og því síður sjálfri sér.

Það er í meira lagi kaldhæðnislegt að mannnréttindasamtök skuli snúast svona gegn tjáningarfrelsinu, þeim mannréttindum sem eru mikilvægasta undirstaða þess lýðræðis og þeirrar upplýsingar sem gera önnur mannréttindi möguleg. Þeir sem telja tjáningarfrelsið einhvers virði ættu framvegis að afþakka viðurkenningar frá samtökum og stofnunum sem misnota aðstöðu sína á þann hátt sem formaður Robert Kennedy samtakanna hefur nú gert.

Mynd: Kerry Kennedy afhendir J.K. Rowling verðlaunin þann 12. desember 2019. (Bennett Raglin/Getty Images)

Þessu tengt: